Danski knattspyrnumaðurinn Rasmus Christiansen leikur áfram með ÍBV á næsta ári en hann framlengdi í gær samning sinn við félagið. Christiansen er 22 ára gamall og er að ljúka sínu öðru tímabili í Eyjum. Hann kom til ÍBV fyrir 2.

Danski knattspyrnumaðurinn Rasmus Christiansen leikur áfram með ÍBV á næsta ári en hann framlengdi í gær samning sinn við félagið. Christiansen er 22 ára gamall og er að ljúka sínu öðru tímabili í Eyjum. Hann kom til ÍBV fyrir 2. umferð Íslandsmótsins 2010 og hefur leikið alla 43 deildaleiki liðsins frá þeim tíma.

Stefán Gíslason byrjaði vel hjá Lilleström eftir að hann sneri aftur til liðsins eftir tveggja mánaða fjarveru. Stefán skoraði fyrra mark liðsins sem reyndar tapaði fyrir Rosenborg 2:5, á heimavelli í norsku úrvalsdeildinni í gær. Stefán fór beint í byrjunarliðið og skoraði markið úr vítaspyrnu eftir rúman hálftíma leik. Honum var síðan skipt af velli á 78. mínútu.

Þrír íslenskir íshokkídómarar munu þreyta frumraun sína á alþjóðavettvangi á næstunni og dæma á mótum á vegum alþjóða íshokkísambandsins. Frá þessu er greint á heimasíðu íslenska sambandsins. Steinunn Erla Sigurgeirsdóttir fer til Riga í Lettlandi í lok október og verður línudómari á European Women´s Champions Cup. Ingibjörg Guðríður Hjartardóttir verður einnig línudómari í Asiago á Ítalíu í lok nóvember en þar fer fram undankeppni 1. deildar á heimsmeistaramóti kvenna U-18 ára. Steinunn og Ingibjörg eru báðar leikmenn með Birninum og eiga landsleiki að baki. Þá mun Orri Sigmarsson fá verkefni í apríl á næsta ári og mun dæma í A-riðli 2. deildar heimsmeistaramóts karla. Riðillinn verður spilaður á Íslandi eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu.