Söngvari Paul Young hefur í nógu að snúast í dag þó að frægðarsólin hafi verið hæst á lofti á 9. áratugnum.
Söngvari Paul Young hefur í nógu að snúast í dag þó að frægðarsólin hafi verið hæst á lofti á 9. áratugnum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is Hann Paul gamli Young er ein af skærustu og eftiminnilegustu stjörnum hins svokallaða eitístímabils, án efa.

Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

Hann Paul gamli Young er ein af skærustu og eftiminnilegustu stjörnum hins svokallaða eitístímabils, án efa. Frumburður hans árið 1983, No Parlez, sló þvílíkt í gegn og lögin „Come Back and Stay“, „Wherever I Lay My Hat (That's My Home)“ og „Love of the Common People“ glumdu linnulítið í útvörpum það árið og langt fram á það næsta. Og reyndar út þann áratuginn ef út í það er farið. Ekki var þá verra fyrir pilt að fá að syngja fyrstu línurnar í styrktarlagi Band Aid, „Do they know it's Christmas?“jólin 1984. Paul Young var stórstjarna og hefur hann lifað góðu lífi á tveimur fyrstu árum sínum sem slík allar götur síðan.

Fílaði pönkið

– Hvernig kom það eiginlega til að þú kemur alla leiðina hingað til að syngja?

„Ja...tímasetningar gengu bara vel upp. Ég er að æfa með tveimur böndum um þessar stundir sem ég túra með, í Danmörku og Þýskalandi, og ég átti þess kost að koma þessum tónleikum á.“

– Þegar þú ert að byrja þinn feril er pönkið yfir um og allt í kring. En þú fórst ekki þá leið?

„Nei. En samt náði ég alltaf að vera utangarðs (hlær). Þegar pönkið var í hæstu hæðum árin 1976/1977, Sex Pistols, Damned og allt það þá voru pönkararnir flestir sextán eða sautján ára. Ég var hins vegar orðinn tuttugu og eins. Og á þessum árum er það mikill aldursmunur. Ég fílaði ástríðuna, orkuna og æsinginn í kringum pönkið en sjálfan langaði mig til að búa til tónlist sem krefðist ögn meiri hljóðfæragetu en tíðkaðist þar.“

– Og þú slærð síðan rækilega í gegn. Var það eitthvað sem þú varst búinn að vinna að dag og nótt eða var þetta slys?

„Ég átti að minnsta kosti ekki von á þessum rosalegu vinsældum! Á þessum tíma voru pönkararnir allir að breytast í nýrómantíkera og þarna var ég allt í einu að vinna með þessa sálartónlist sem ég hafði alltaf verið að vinna með. Ég hafði aldrei passað almennilega inn en þarna opnaðist glufa og ég smaug inn.“

– Og hvernig leist þér á, þegar þú varst kominn „inn“?

„Alveg frábærlega! Ég var mjög sáttur. Ég var á réttum stað og á réttum tíma eins og sagt er.“

Þúsundþjalasmiður

– Þú ert ekki við eina fjölina felldur í tónlistinni og ert að spila með tex-mex bandi...

„Já, það er bara eitthvað sem ég fíla. Ég reyni ekki að pæla of mikið í þessu, ég reyni bara að hlusta á hjartað. Tex-mexið liggur annars ekki svo langt frá þessu sálartónlistardæmi sem ég hef verið að fást við. Ef þú hlustar t.d. á það sem Ry Cooder var að gera á áttunda áratugnum heyrir þú að það liggja þræðir þarna á milli.“

– Og þú ert að vinna að nýrri sólóplötu var ég að frétta?

„Meira svona lög og lög, ég er ekki alveg búinn að ákveða hvernig útgáfuformið verður. Ég hef verið að vinna þetta eitthvað með þýskum tónlistarmönnum en einnig dönskum. Þetta kemur í ljós allt saman.“

– Og þá ertu víst líka liðtækur í eldhúsinu. Þú ert algjör þúsundþjalasmiður!

„Ha ha...ég var einmitt að koma aftur heim eftir fimm daga törn þar sem við vorum að mynda fyrir matreiðslubókina mína. Ég er þá nýkominn úr upptökum á þætti sem gæti hugsanlega orðið að mínum eigin matreiðsluþætti. Það er samt allt á frumstigi. Ég hef mikla ástríðu fyrir matargerð og það er hægt að gera svo margt við þetta...“

– Eins og?

„Jaa...ég væri t.d. alveg til í að opna minn eigin stað. Lítinn stað...“

– Já, með litlu sviði úti í horni kannski?

„Nei, það líst mér reyndar ekkert á. Ég held öllum þessum þáttum aðskildum. Þegar ég er að kokka er ég bara í því, þegar ég er að spila tex-mex tónlist er fókusinn þar og eins þegar ég er að syngja þetta „venjulega“ Paul Young-efni. Með því að stökkva svona á milli og fara á milli ólíkra hluta held ég mér ferskum og þannig er líka alltaf gaman að koma að hlutunum aftur.“

– Og þú ert ekkert orðinn leiður á þessum gömlu lögum?

„Nei, því að þau hafa verið mér svo góð þessi lög. Mér þykir vænt um þau. Þegar ég vippa þeim fram á tónleikum er það ekki ósvipað því og að hitta gamla góða vini aftur.“

PLÖTURNAR HANS PAUL

Sálarríkur ferill

No Parlez sló þvílíkt í gegn er hún kom út árið 1983 og hefur selst í nálega milljón eintökum. Hann fylgdi henni eftir með The Secret of Association (1985) þar sem hann hnykkti enn frekar á góðu gengi. Platan þykir standa frábærum frumburðinum algerlega jafnfætis og jafnvel gott betur en það. Between Two Fires, sem kom út ári síðar, þótti þó ekki eins merkileg og fljótlega eftir það fór að halla rækilega undan fæti. Þetta var nóg til þess að vel heppnaðar plötur á tíunda áratugnum, eins og Crossing (1993) fóru meira og minna undir radarinn. Vert er að benda þeim allra áhugasömustu á samnefnda plötu Los Pacaminos frá 2002, tex-mex sveitarinnar sem Young er í en þar semur hann lög í samstarfi við aðra, spilar á gítar og banjó og syngur líka. Hæfileikaríkur hnokki!