Ég hitti karlinn á Laugaveginum fyrir utan Biskupsstofu.

Ég hitti karlinn á Laugaveginum fyrir utan Biskupsstofu. Hann veik talinu að Eyrbyggju, er sauðamaður sá að Helgafell „laukst upp norðan; hann sá inn í fjallið elda stóra og heyrði þangað mikinn glaum og hornaskvöl (hornaskvaldur); og er hann hlýddi, ef hann næmi nokkur orðaskil, heyrði hann, að þar var heilsað Þorsteini þorskabít og förunautum hans.“ „Já,“ sagði hann. „Þorsteinn þorskabítur dó inn í fjallið.“ Síðan leit hann í kringum sig: „Hér á móti okkur var Ostakjallarinn og Kjötbúð Tómasar. Þar fengust Berlínarpylsur. Og hér fyrir ofan var Sokkabúðin, Iðunnarapótek og Sláturfélag Suðurlands á horninu. Nú er þetta allt orðið að krám eða pöbbum“:

Þó að gott mér þyki öl

þá er drykkjuraus mér kvöl.

Ég heyrði glaum og hornaskvöl

og hafði á kránni stutta dvöl.

„Þorskabítur var skáld fyrir vestan haf. Fæddur í Kjósinni,“ sagði hann síðan. Þessi vísa varð fleyg:

Kerling eitt sinn kát á rúmið sest,

við karl sinn tér hún: Heyrðu, góði minn!

Veistu hvaða mein mér þykir best

að bíta? Það er hryggjarliðurinn.

Ólafur Vigfússon hét gamall karl á Laugaveginum og bjó í kjallaranum á númer 67, þegar ég var drengur. Hann kom stundum til föður míns og þeir ræddu skáldskap og vísnagerð. Úr þeim sjóði eru þessar vísur Ólafs:

Ýlfrar, vælir, veinar,

veit þó síst hvað meinar

andans afhöggs greinar

illa klæða Steinar.

Ýmsum hindrun utan töf

auðnuleysið sendi

lífið þótt sé lukkugjöf

lausnarans frá hendi.

Ef ég pretti iðka þétt

óðs í grettum línum

finn settan blakkan blett

barns á rétti mínum.

Falls er von að fornu tré

fáir við það leggja rækt

að því streymir egg og spé

öllu skrauti frá er bægt.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is