Guðrún Jónsdóttir fæddist 5. maí 1920 á Stekkjarflötum, Akrahreppi, Skagafirði. Hún lést 22. september 2011, á Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks.

Foreldrar hennar voru Jón Guðmundsson, f. 17. mars 1877, d. 3. september 1960, og Soffía Jónsdóttir, f. 12. júlí 1891 d. 27. maí 1959. Guðrún ólst upp á Hofi í Vesturdal. Alsystkini hennar voru: Jón, f. 28. ágúst 1917, d. 11. apríl 1983, Gestheiður, f. 28. febrúar 1919, d. 6. nóvember 2010, Jónatan, f. 23. apríl 1923, d. 23. janúar 1980, Sæunn, f. 23. október 1924, d. 28. maí 1997. Hálfsystkini samfeðra, móðir Margrét Guðrún Jóhannsdóttir, f. 25. september 1876, d. 15. júní 1927: Sigurlaug Jónína, f. 26. janúar 1900, d. 12. febrúar 1900, Ingibjörg, f. 10. október 1901, d. 21. október 1956. Ágústa Jónasdóttir, f. 1. ágúst 1904, d. 8. desember 2006, ólst upp hjá Jóni og Margréti til 16 ára aldurs.

Guðrún giftist 15. júní 1941 Pétri Jóni Stefánssyni, f. 22. apríl 1909, d. 6. ágúst 2000. Foreldrar hans voru Guðrún Hafliðadóttir og Stefán Pétursson. Guðrún og Pétur bjuggu á Hofi í Vesturdal frá 1943 til 1976 er þau fluttu til Sauðárkróks. Börn þeirra eru: 1. Soffía Bára, f. 10. október 1937, maki Númi Sveinbjörn Adolfsson, þau slitu samvistum. Eiga þau 4 börn. 2. Margrét Stefanía, f. 1. apríl 1939, maki Baldur Ingimar Sigurðsson. Eiga þau 7 börn. Baldur átti 2 dætur áður. 3. Jón Sævin, f. 9. desember 1940, maki Erna Jóhannsdóttir. Þau eiga 2 dætur. Jón átti einn son áður og Erna 2 syni sem ólust upp hjá þeim. 4. Gunnar Stefán, f. 6. maí 1947, maki Sólveig Þorvaldsdóttir og eiga þau eina dóttur. Gunnar átti 3 börn áður með Jónínu Jónsdóttur en þau slitu samvistum. Sólveig átti 2 börn áður. 5. Pétur Axel, f. 13. desember 1952, maki Steinunn Kristinsdóttir og eiga þau 3 börn. 6. Svanhildur Hrönn, f. 25. október 1955, maki Hlynur Unnsteinn Jóhannsson. Þau slitu samvistum . Eiga þau 4 dætur. 7. Skarphéðinn Rúnar, f. 22. ágúst 1957, maki Steinunn Guðmundsdóttir og eiga þau 4 dætur. Steinunn átti áður einn son sem ólst upp hjá þeim. 8. Hrafnhildur Sæunn, f. 1. janúar 1962, maki Birgir Rafn Rafnsson og eiga þau 3 börn. Afkomendur Guðrúnar og Péturs eru í dag 104 talsins.

Útför Guðrúnar fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag, 1. október 2011, og hefst athöfnin kl. 14.

Elsku amma mín. Það er rosalega skrítið og erfitt að hugsa til þess að geta aldrei aftur kíkt í heimsókn til þín á Freyjugötuna. Það var alltaf jafngott að koma til þín, þú áttir alltaf konfekt og kók handa okkur yngra fólkinu og kaffi og kökur handa þeim eldri. Og sögurnar sem þú sagðir mér voru alltaf jafnskemmtilegar, ég gat setið hjá þér tímunum saman og hlustað á gamlar sögur frá því að þú varst ung. Og miðað við aldur þinn var alveg ótrúlegt hvað þú mundir eftir afmælum allra, þótt afkomendurnir væru orðnir 102. Alltaf fékk maður eitthvað fallegt frá þér, best finnst mér allt sem þú föndraðir og prjónaðir, mér þykir svo rosalega vænt um að eiga svona fallega hluti sem þú gerðir.

En núna ertu komin til afa og þið jafnglöð að hitta hvort annað og getið núna alltaf verið saman. Ég bið kærlega að heilsa afa.

Ég sakna þín alveg rosalega mikið.

Hvíldu í friði elsku besta amma mín.

Þín sonardóttir,

Elín Petra.

Amma mín kvaddi skyndilega hinn 22. september sl. Hún var orðin 91 árs en var hress og bjó ein þó að sjón og heyrn væru farin að daprast. Mínar fyrstu minningar um ömmu eru frá Hofi, þar sem hún og afi bjuggu þar til ég var 8 ára. Þetta var næsti bær og þangað fór ég oft. Ég man að það var alltaf eitthvað gott til í búrinu hjá ömmu, hún átti falleg huggunarorð og höndin hennar var mjúk og hlý þegar hún stauk mér um vangann eftir einhverja af þeim ótal byltum sem ég lenti í.

Þegar amma og afi fluttu út á Sauðárkrók hitti ég þau mun sjaldnar en það var alltaf vel tekið á móti manni á Hólaveginum. Á jóladag var alltaf jólaboð hjá ömmu. Þegar ég var krakki fannst mér íbúðin á Hólaveginum breytast í ævintýraheim jólanna með marglitu jólaskrauti, litríku jólatré, jólaseríum, kökum og nammiskálum um allt. Öll önnur hús voru litlaus í samanburði við ríkulega jólaskreytt húsið hennar ömmu. Í stofunni var þá spilað og hlegið og í minningunni áttu jólin heima hjá ömmu og þar var gott að vera. Þegar ég var að vinna á Króknum sem unglingur, fór ég oftast í hádeginu til ömmu og afa og fékk að borða og síðan var spjallað eða tekið í spil. Eftir að amma flutti á Freyjugötuna, við hliðina á mömmu, var stutt að skreppa til hennar í notalegt spjall þegar ég kom norður og fá að launum faðmlag og knús.

Amma var duglega að gauka að mér prjónaplöggum fyrir Óla og krakkana og verður mikil eftirsjá í að fá ekki lengur ullarsokka og vettlinga til að ylja sér í frostinu. Það verður líka skrýtið að fá ekki símtal frá ömmu á afmælisdaginn minn í næstu viku, hún gleymdi ekki að hringja þó að árin færðust yfir. Hún vildi vita hvernig allt gegni, hvort börnin væru frísk og hvort Óli væri að fiska eitthvað og hvernig væri í vinnunni hjá mér. Við ræddum alltaf dágóða stund og mér leið vel eftir að hafa talað við hana.

Amma vildi vera fín og vel til höfð þegar eitthvað stóð til. Þegar sjónin fór að daprast spurði hún gjarnan hvort ekki væri í lagi með fötin og skartið, hvort þetta færi ekki vel saman. Hún varð glöð þegar ég sagði henni að hún væri alltaf fín og flott. Henni fannst heldur ekki leiðinlegt þegar fólk sagði við hana, þegar hún var orðin níræð, að hún liti ekki út fyrir að vera degi eldri en áttatíu ára.

Í dag kveð ég yndislega ömmu mína, sem hefur verið dýrmætur hluti af lífi mínu, og þakka fyrir allt, þakka fyrir að eiga góðar minningar til að fylla upp í tómið sem myndast við fráfall hennar. Elsku besta amma mín, góða ferð og ég bið kærlega að heilsa afa. Við hittumst aftur síðar.

Við kveðjum þig kæra amma

með kinnar votar af tárum

á ást þinni enginn vafi

til okkar, við gæfu þá bárum.

Horfin er hönd þín sem leiddi

á hamingju- og gleðifundum,

ástúð er sorgunum eyddi

athvarf á reynslustundum.

Margt er í minninga heimi

mun þar ljósið þitt skína,

englar hjá guði þig geymi

við geymum svo minningu þína.

(Höf. ók.)

Þín,

Sigrún Baldursdóttir.

Elsku amma mín, nú er komið að kveðjustund. Þótt þú hafir verið orðin rúmlega níræð bjóst ég ekki við því að kveðja þig alveg strax, við ræddum það nú um daginn að þú yrðir örugglega hundrað ára.

Mér þykir óendanlega vænt um að þú gast komið í brúðkaupið okkar Donna og auðvitað varstu aðalskvísan, þótt þú hafir verið orðin slöpp ætlaðir þú ekki að missa af því. Þú varst alltaf svo fín og flott og naust þess að klæða þig upp og skreyta þig með fallegum skartgripum. Þú hafðir líka skoðun á öllu hvað varðar útlit og klæðnað og vorum við ekki alltaf sammála um hvað væri flott og hvað ekki, enda væri nú ekkert gaman ef allir hefðu sama smekk. Mér finnst líka yndislegt að þú hafir getað kynnst Hrafnhildi Köru, þið voruð góðar saman. Ég hlakka til að sýna henni dúkkurúmið sem þú bjóst til handa henni þegar hún verður aðeins eldri, það er svo ótrúlega fallegt. Síðan ég man eftir mér hefur þú verið stór hluti af lífi mínu. Ég á eftir að sakna þess að koma á Freyjugötuna til þín í spjall og fá að stelast í jólakonfektið sem þú geymdir alltaf sérstaklega handa mér. Þú varst ótrúlega stolt af öllum afkomendum þínum og ljómaðir alltaf þegar þú vissir að von væri á nýju barni í fjölskylduna. Það verður tómlegt án þín amma mín en ég veit að nú ertu komin í faðm Péturs afa sem þú saknaðir svo sárt. Ég veit að hann tekur vel á móti þér. Takk fyrir öll jólin, áramótin og frábæru stundirnar sem við áttum saman.

Hvíldu í friði amma mín. Elska þig.

Þín

Hera.

Elsku langamma mín kvaddi heiminn 22. september sl. en þá var hún orðin 91 árs gömul. Mín helsta minning um þig er huggulega húsið þitt, hvað mér fannst æðislegt að koma á Krókinn og kíkja til þín. Þú áttir alltaf ís í kistunni og nóg af gömlu dóti í kössunum inni í búri. Það var alltaf gaman að leika heima hjá þér því þú áttir dót sem ég sá sjaldan. Einu sinni ýtti ég á neyðarhnappinn þinn. Mamma var ekki sátt en þú hlóst bara að því. Stundum var ég svo æst að komast til þín að ég hljóp ein yfir og þá fórum við í göngutúr saman, þá notaðir þú ekki göngugrindina því ég hélt svo fast í þig. Það er ekki hægt að lýsa því hvað ég varð glöð þegar mamma sagði mér að þú kæmist í ferminguna mína í sumar. Þú ferðaðist hægt, sást og heyrðir illa en lést ekkert stoppa þig. Hvað þú varst alltaf hress og kát þótti mér vænst um. Hlátur þinn kemur alltaf upp í hugann þegar ég hugsa um þig, mér þótti hann æði. Á laugardaginn mun ég kveðja æðislega ömmu sem ég fékk heiðurinn af að hafa í lífi mínu. Nú á ég bara góðar minningar til að gleðja mig á verstu stundum. Elsku langamma mín, ég elska þig og mun alltaf gera. Hvíldu í friði og vonandi hittumst við aftur seinna.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Þín

Margrét Olsen.