Rekstur grunnskóla Kópavogs er kominn 6% fram úr fjárhagsáætlun ársins 2011 fyrir sveitarfélagið. Þetta gerir um 176 milljónir króna.

Rekstur grunnskóla Kópavogs er kominn 6% fram úr fjárhagsáætlun ársins 2011 fyrir sveitarfélagið. Þetta gerir um 176 milljónir króna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í bæjarráði lýstu yfir áhyggjum sínum af þessu á fundi í fyrradag og bentu á að kostnaðarsömustu mánuðir ársins væru þrír þeir síðustu.

Í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks segir að grunnskólar bæjarins verði komnir 250 milljónir króna fram úr fjárhagsáætlun í lok árs að óbreyttu. „Eins og fram kom við samþykkt fjárhagsáætlunarinnar var tekið mjög mildilega á rekstri skólanna og því ljóst að meirihlutinn er að missa tök á rekstrinum og bendir margt til að það muni eiga við um fleiri málaflokka.“

Guðríður Arnarsdóttir, formaður bæjarráðs, benti á, að grunnskólar færu fram úr áætlun m.a. vegna launahækkana kennara og þeirrar inneignar sem þeir eiga frá fyrra ári. Það væru atriði sem ómögulegt væri að hafa áhrif á.