Skipsskrokkur Ósk Vilhjálmsdóttir fyrir framan upplýstan skúlptúr sinn.
Skipsskrokkur Ósk Vilhjálmsdóttir fyrir framan upplýstan skúlptúr sinn. — Morgunblaðið/Eggert
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Í gömlu ævintýri er að finna frásögn af tígrisdýrum sem fóru að elta skottið hvert á öðru í baráttu sinni um völd.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Í gömlu ævintýri er að finna frásögn af tígrisdýrum sem fóru að elta skottið hvert á öðru í baráttu sinni um völd. Dýrin hlupu í hringi þar til þau bráðnuðu og urðu að smjöri,“ segir Ósk Vilhjálmsdóttir myndlistarmaður þegar hún er spurð um nafngiftina á nýjustu sýningu sinni, Tígrisdýrasmjör, sem nýverið var opnuð í Hafnarhúsinu og stendur til áramóta. Á síðustu árum hefur Listasafn Reykjavíkur leitast við að tengjast almenningsrými borgarinnar og efna til þjóðfélagslegrar umræðu innan veggja safnsins. Ósk er sjötti listamaðurinn sem gerir sérstaka innsetningu í A-sal Hafnarhússins með þetta að leiðarljósi.

„Þetta er stór og magnaður salur,“ segir Ósk og tekur fram að í raun sé sýningin tvískipt, annars vegar inni í safninu og hins vegar sé henni varpað út á götu. „Inni í safninu gefur að líta upplýstan skúlptúr sem minnir á botninn á skipsskrokki í raunstærð og hangir neðan úr loftinu í annars myrkvuðum sal,“ segir Ósk og tekur fram að þannig virðist sem rýminu hafi verið sökkt, sem sé mjög viðeigandi þar sem Hafnarhúsið standi á gamalli landfyllingu.

Hvert erum við að fara?

„Sýningargestir heyra upptöku sem hljómar eins og einhver sé aðframkominn af því að hlaupa í endalausa hringi í kringum skipsskrokkinn,“ segir Ósk og bendir á að hlaup hafi ótalmargar áhugaverðar birtingarmyndir. Þegar skyggja tekur verða hleranir teknir frá gluggunum og varpað út á götu kvikmynd sem Ósk tók á sundi sínu úti fyrir Reykjavíkurhöfn í ágúst sl. „Þessi hluti sýningarinnar verður meira áberandi í vetrarmyrkrinu eftir því sem daginn tekur að stytta,“ segir Ósk og tekur fram að sér finnist einstaklega spennandi að vinna þannig með almenningsrými og reyna um leið að ná til þeirra sem alla jafna leggja ekki leið sína á listasöfn.

Að sögn Óskar finnst henni einnig fróðlegt að skoða áhuga landans á bæði sjósundi og langhlaupi sem notið hefur mikilla vinsælda í kjölfar efnahagshrunsins. „Í þessu hrunástandi fara margir að henda sér í sjóinn og synda. Hvert erum við að fara? Er þetta flótti eða erum við að koma til okkar?“ Þessum spurningum og fleirum verður eflaust varpað upp á listamannaspjalli um sýninguna sem fram fer í Hafnarhúsinu fimmtudaginn 6. október kl. 20.00. Þar munu Ósk og Hlynur Helgason myndlistarmaður og heimspekingur ræða við gesti um sýninguna.

Ýmislegt um Ósk
» Ósk er menntuð frá Sorbonne-háskóla í París, Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Hochschule der Künste í Berlin.
» Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga hérlendis og erlendis og stundað kennslu við Listaháskóla Íslands og Myndlistarskóla Reykjavíkur.