Klif Stjórnarmaður segir ekki þörf á mikilli tiltekt hjá félaginu þó margt megi bæta.
Klif Stjórnarmaður segir ekki þörf á mikilli tiltekt hjá félaginu þó margt megi bæta. — Morgunblaðið/ÞÖK
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

„Nei, það er ekki þörf fyrir stórtækar breytingar á fyrirtækinu, en vitaskuld eru mörg svið þar sem við getum gert betur,“ sagði Skarphéðinn Berg Steinarsson í gær þegar blaðamaður náði af honum tali og spurði hvort ágreiningurinn við Birgi Jónsson væri til marks um að Iceland Express þyrfti á mikilli tiltekt að halda. „Hverjum stjórnanda fylgja ákveðnar hugmyndir sem hann svo útfærir, og sá sem tekur næst við starfinu verður líka með hugmyndir. Það eru ýmsar leiðir til að komast að markmiðum félagsins, en ekki þörf á að umbylta rekstrinum verulega.“

Nokkur föst skot flugu á milli Birgis Jónssonar og stjórnar Iceland Express í gær, en á fimmtudag sagði Birgir lausu starfi sínu sem forstjóri flugfélagsins eftir aðeins tíu daga í starfi.

Skarphéðinn hefur verið ráðinn tímabundið í starf forstjóra og hefur þegar tekið til starfa. Skarphéðinn situr í stjórn félagsins ásamt Pálma Haraldssyni og Sigurði G. Guðjónssyni. Segir í tilkynningu frá stjórninni að á næstu dögum eða vikum verði ráðinn nýr forstjóri til fyrirtækisins.

Fékk ekki nægilegt frelsi

Í tilkynningu sem Birgir sendi fjölmiðlum á fimmtudag kveðst hann hafa tekið þá ákvörðun að hætta þar eð honum þótti sýnt að ekki yrði staðið við samkomulag sem hann gerði við eigendur félagsins um mikið frelsi til endurskipulagningar á rekstrinum.

„Þegar til mín var leitað og ég beðinn um að taka þetta starf að mér setti ég mjög ströng skilyrði um hvernig samstarfi mínu við eigendur félagsins yrði háttað,“ segir Birgir í tilkynningunni. „Þessi samstarfsmáti var vel skilgreindur með skriflegum hætti, samþykktur af eigendum og stjórn Iceland Express og var í raun grundvöllur þess að ég þáði starfið.“

Stjórn Iceland Express svaraði fyrir sig með því að segja að Birgir hefði viljað ráðast í of miklar breytingar og með of miklu hraði, en einnig að Birgir hefði viljað ráða í yfirstjórn fyrirtækisins vini sína og ættingja.

Vildi ekki „klíkustimpil“

Þessu svaraði Birgir svo að morgni föstudags. Þar sakar hann stjórn félagsins m.a. um að hafa lekið þeim upplýsingum í fréttastofu RÚV að hann hygðist ráða sambýliskonu sína.

Birgir birtir hluta af tölvupóstsamskiptum sínum við Pálma Haraldsson, aðaleiganda flugfélagsins. Þar kemur fram að Birgir hafi talið það hlutlægt mat að sambýliskona sín væri ákaflega hæfur aðili í umrætt starf, en hann ekki viljað fá á málið „klíkustimpil“. Af póstunum sem Birgir sendi fjölmiðlum má ráða að Pálmi hafi fallist á þessa ráðningu, en Birgir kveðst hafa tekið úr tölvupóstunum samskipti um aðrar mögulegar mannabreytingar til að virða trúnað við hlutaðeigandi aðila.

Vandræði í flugtaki

» Birgir Jónsson taldi sig ekki fá nægt frelsi til að gera breytingar á rekstri flugfélagsins og tók pokann sinn
» Sakar stjórnina um að hafa lekið í fjölmiðla áætlunum um að ráða sambýliskonu í stjórnunarstöðu.
» Sendi fjölmiðlum afrit af tölvupóstsamskiptum við aðaleiganda félagsins þar sem möguleg ráðning sambýliskonu er rökstudd og samþykkt.
» Stjórnin hyggst finna nýjan mann í starfið á næstu dögum eða vikum.