Öflug Elín Anna Baldursdóttir sækir hér að vörn Fram og reynir skot.
Öflug Elín Anna Baldursdóttir sækir hér að vörn Fram og reynir skot. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Safamýri Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Tvö lið hafa borið höfuð og herðar yfir önnur í handknattleik kvenna undanfarin tvö ár hér á landi.

Í Safamýri

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Tvö lið hafa borið höfuð og herðar yfir önnur í handknattleik kvenna undanfarin tvö ár hér á landi. Reykjavíkurliðin Valur og Fram hafa háð einvígi um stóru titlana en HK úr Kópavogi tók sig til í gærkvöldi og aflýsti fyrirhuguðu einvígi á þessari leiktíð með sannfærandi og öruggum sigri á Fram í Safamýrinni, 28:22.

HK-ingar hafa smám saman byggt upp öflugt lið sem náði sér mjög vel á strik eftir áramót á síðustu leiktíð og tapaði aðeins leikjum sínum við Val og Fram, og vann sex síðustu leiki tímabilsins. Því má segja að sigur þeirra í gær sé rökrétt framhald. Eftir jafnan leik framan af fyrri hálfleik náði HK fjögurra marka forskoti fyrir leikhlé, 14:10. Fram náði að ógna forskotinu um miðbik síðari hálfleiks, minnkaði þá muninn í tvö mörk, en HK-liðið brotnaði ekki heldur jók muninn á ný svo sigurinn var aldrei í hættu.

Sigurinn í gær ætti að gera mikið fyrir óreynt lið HK. Hann færir ekki bara tvö dýrmæt stig heldur sýnir leikmönnum hvers þeir eru megnugir og dælir sjálfsagt í þá sjálfstrausti. Hægt er að hrósa öllum HK-ingum fyrir leikinn í gær. Vörn liðsins lék fantavel og lokaði smám saman á helstu ógn Framara framan af leik, sem var Elísabet Gunnarsdóttir á línunni. Elva Björg Arnarsdóttir nýtti sín færi feikivel og skoraði 7 mörk, og Ólöf Kolbrún Ragnarsdóttir varði oft úr dauðafærum og þar á meðal tvö vítaköst.

„Það er svakalega stórt skref að vinna Fram. Ég er búinn að vera í kringum HK-liðið öll árin og held að við höfum aldrei áður unnið Fram. Þetta er því mjög mikilvægt upp á sjálfstraust og annað. Stelpurnar eru til í allt núna,“ sagði Hilmar Guðlaugsson þjálfari HK.

„Maður var orðinn stressaður í stöðunni 21:19 en þær hættu ekki, öfugt við það sem hefur stundum gerst. Við höfum verið að vinna í því að þær hafi trú á því sem þær geta. Við vorum alltaf að bæta okkur á síðustu leiktíð og ætlum að halda því áfram. Það áttu allir leikmenn góðan leik í dag og þess þarf gegn liði á borð við Fram,“ bætti Hilmar við.

Það gerði HK-ingum þó vissulega auðveldara fyrir að stórskyttan Stella Sigurðardóttir gat ekki leikið með Fram vegna veikinda. Segja má að önnur helsta skytta Fram, Birna Berg Haraldsdóttir, hafi einnig verið fjarverandi en hún náði sér alla vega engan veginn á strik í leiknum. Nýir leikmenn liðsins, sem fylla skörð landsliðsmanna á borð við Karen Knútsdóttur og Írisi Björk Símonardóttur, léku misjafnlega vel. Elísabet Gunnarsdóttir, sem kom frá Stjörnunni, skaraði fram úr í liðinu en Fylkiskonurnar fyrrverandi Sunna Jónsdóttir og Guðrún Ósk Maríasdóttir, markvörður, hljóta að eiga meira inni en þær sýndu í gær. Af leiknum í gær að dæma er það rétt mat hjá Einari Jónssyni þjálfara Fram að liðið eigi lítið sem ekkert erindi í Íslandsmeistara Vals í dag. Annað gæti átt við um HK.

Fram – HK 22:28

Íþróttahús Fram, úrvalsdeild kvenna, N1 deildin, föstudag 30. sept. 2011.

Gangur leiksins : 3:2, 5:5, 8:8, 9:12, 10:14 , 13:16, 15:18, 16:21, 19:21, 20:25, 22:28 .

Mörk Fram : Elísabet Gunnarsdóttir 8, Ásta Birna Gunnarsdóttir 5, Sunna Jónsdóttir 3, Guðrún Þóra Hálfdánsdóttir 3, Marthe Sördal 1, Birna Berg Haraldsdóttir 1, Sigurbjörg Jóhannsdóttir 1.

Varin skot : Guðrún Ósk Maríasdóttir 6 (þar af 2 til mótherja).

Utan vallar : 2 mínútur.

Mörk HK : Elva Björg Arnarsdóttir 7, Brynja Magnúsdóttir 6/3, Elísa Ósk Viðarsdóttir 5, Elín Anna Baldursdóttir 3, Valgerður Ýr Þorsteinsdóttir 2, Jóna Sigríður Halldórsdóttir 2, Gerður Arinbjarnar 1, Harpa Baldursdóttir 1, Arna Björk Almarsdóttir 1.

Varin skot : Ólöf Kolbrún Ragnarsdóttir 13/2 (þar af 1 til mótherja).

Utan vallar : 2 mínútur.

Dómarar : Ramunas Mikalonis og Valgeir Ómarsson. Góðir.

Áhorfendur : Á að giska 180.