Stórleikur Guðmundur Árni Ólafsson spilar gegn spænsku stórliði.
Stórleikur Guðmundur Árni Ólafsson spilar gegn spænsku stórliði. — Morgunblaðið/Golli
Kristján Jónsson kris@mbl.

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Selfyssingurinn Guðmundur Árni Ólafsson leikur væntanlega sinn stærsta leik á handboltaferlinum hingað til þegar lið hans Bjerringbro-Silkeborg, tekur á móti spænsku meisturunum í Atlético Madrid, í Meistaradeild Evrópu á morgun. Madrídarliðið er þekktara undir nafninu Ciudad Real og þar var Ólafur Stefánsson í lykilhlutverki í mörg ár og Rúnar Sigtryggsson kom þar einnig við sögu. Þá má einnig rifja upp að Sigurður Sveinsson lék með Atlético Madrid á níunda áratugnum.

Guðmundur er á sínu fyrsta ári í atvinnumennsku en hann lék síðustu tvær leiktíðir með Haukum og var drjúgur í markaskorun í hægra horninu. „Leikirnir hafa gengið upp og niður í upphafi tímabils og stöðugleikann hefur vantað hjá okkur. Við duttum út úr bikarkeppninni í 8-liða úrslitum og það var svolítið sjokk því við ætluðum okkur í undanúrslitin. Annars er ég sáttur við minn leik og mér hefur tekist að komast ágætlega inn í hlutina. Það er svolítið stökk að koma hingað og spila vegna þess að ég hef nú þegar spilað á móti tveimur af bestu hornamönnum heims, Lars Christiansen og Anders Eggert. Aftur á móti finnst mér frekar auðvelt að aðlagast og og maður heldur alveg í við þessa gæja þó að þeir séu búnir að vera í sportinu í langan tíma. Margir leikmenn í íslensku deildinni gætu vel plumað sig í dönsku deildinni,“ sagði Guðmundur við Morgunblaðið.

Guðmundur sagði mikla stemningu vera fyrir leiknum á móti spænska stórliðinu enda verður þetta fyrsti leikur félagsins í Meistaradeild og einnig fyrsti Meistaradeildarleikur Guðmundar. „Stemningin er virkilega fín í bænum og í félaginu. Höllin í Herning tekur um tíu þúsund manns og mikið hefur verið fjallað um leikinn. Það er ekki amalegt að spila fyrsta leikinn í Meistaradeild á móti spænsku meisturunum,“ sagði Guðmundur og benti á að áhugi Dana á leiknum væri einnig mikill vegna þess að danska skyttan Nikolaj Markussen léki með Atlético.