Jón Bjarnason Sjávarútvegsráðherra segir að með nýju þingi sem hefst í dag komi frumvarp um fiskveiðistjórnun aftur inn í ráðuneyti hans.
Jón Bjarnason Sjávarútvegsráðherra segir að með nýju þingi sem hefst í dag komi frumvarp um fiskveiðistjórnun aftur inn í ráðuneyti hans. — Morgunblaðið/Ernir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra segir það ekki nýtt að skoðanir séu skiptar á tilhögun fiskveiðistjórnunar. Þessu sé þannig farið á Alþingi og innan ríkisstjórnarflokkanna.

Viðtal

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra segir það ekki nýtt að skoðanir séu skiptar á tilhögun fiskveiðistjórnunar. Þessu sé þannig farið á Alþingi og innan ríkisstjórnarflokkanna. Hann tekur ekki undir að gallar séu á frumvarpinu, eins og m.a. forsætisráðherra hefur sagt, og bendir á að fjórir ráðherrar, þar á meðal forsætisráðherra, hafi komið að gerð þess. Spurður hvort hann muni fela formanni og varaformanni sjávarútvegsnefndar að skrifa nýtt frumvarp eins og þær Lilja Rafney Magnúsdóttir og Ólína Þorvarðardóttir hafa boðist til að gera, bendir hann á að nefndin hafi í allt sumar haft tækifæri til að koma með álit til úrbóta.

Jón segir að frumvarpið, sem lagt var fram síðastliðið vor, sé alls ekki óskafrumvarp allra, enda verði seint hægt að finna slíka málamiðlun. „Þegar nýtt þing hefst á morgun [í dag] kemur málið aftur inn í sjávarútvegsráðuneytið og þar verður tekið á því verkefni. Þetta er stjórnarfrumvarp og að sjálfsögðu mun ráðherra taka mið af þeirri vinnu og þeim ákvörðunum sem voru teknar við gerð frumvarpsins.

Það var samþykkt af allri ríkisstjórninni og síðan af þingflokkum stjórnarflokkanna að leggja það fram á Alþingi síðasta vor. Mikil vinna var lögð í frumvarpið og við síðustu áfangagerð þess vann sérstakur hópur sem forsætisráðherra var þátttakandi í. Einnig komu þingmenn frá stjórnarflokkunum að lokaútgáfu frumvarpsins,“ segir Jón.

Gagnrýni frá báðum hliðum

Spurður um mikla gagnrýni sem komið hefur fram á frumvarpið segir Jón að gagnrýni komi frá báðum hliðum. „Annars vegar er gagnrýnt að ekki sé nógu langt gengið, sérstaklega í markaðsátt. Hér eru aðilar sem vilja að öll fiskimiðin og veiðar séu á uppboðsmarkaði og vilja sjá það með ákveðnum hætti inni í þessu frumvarpi. Aðrir telja fyrirhugaðar breytingar alltof miklar og sjávarútveginum stafi ógn af þeim.

Gagnrýnin speglar gjörólík viðhorf, en frumvarpið er ákveðinn millivegur. Það er þó sjálfsagt að fara yfir þær athugasemdir sem komið hafa fram. Menn hafa sjaldan sparað stór orð þegar rætt er um sjávarútveg og gera það heldur ekki núna.

Umræðan stendur í rauninni um það að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu eins og ég hef lagt mikla áherslu á að verði gert. Ég hef nýtt þá möguleika sem ég hef haft til að koma á strandveiðum og koma í framkvæmd skötuselsveiðum framhjá aflamarki. Þær áttu nú að koma þjóðfélaginu í uppnám á sínum tíma.“

Skoðanir eru skiptar í öllum flokkum

Um tilboð þeirra Ólínu og Lilju Rafneyjar að skrifa frumvarpið upp í umboði ráðherra segir ráðherra að sjávarútvegsnefnd undir þeirra forystu hafi haft málið til umfjöllunar í allt sumar. „Það hefur því verið í þeirra höndum hvernig málið var unnið og mér finnst sérkennilegt að fá álit frá einstökum nefndarmönnum í lok meðferðar þingnefndarinnar. Í nefndinni eru fleiri fulltrúar stjórnarflokkanna en þær tvær og ættum við þá ekki að fá aðra með í þessa vinnu?“

Spurður hvort ríkisstjórnarflokkarnir séu ekki klofnir í þessu máli en Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, hefur einnig skrifað ráðherra sérstakt bréf vegna málsins, segir ráðherra: „Það liggur fyrir að það eru skiptar skoðanir um þetta mál í öllum flokkum, og þá einnig í Samfylkingu og VG, um það hversu langt eigi að ganga.“

Atli Gíslason segir í Morgunblaðinu í gær að bréf Ólínu og Lilju beri í sér vantraust í garð sjávarútvegsráðherra. Um það segir ráðherra að Atli og Björn Valur gagnrýni að ekki hafi verið haldinn fundur í sjávarútvegsnefnd og efnisleg umræða hafi ekki farið fram í nefndinni. „Þeir eru í nefndinni en ekki ég og þekkja vinnubrögðin þar,“ segir Jón Bjarnason.