Þórir Ágúst Sigurðsson fæddist á Brúarhrauni í Kolbeinsstaðahreppi 6. ágúst 1935. Hann lést á líknardeild Landspítalans Landakoti 18. september 2011.

Foreldrar Þóris voru Sigurður Hallbjörnsson, f. 4. maí 1894, d. 8. feb. 1959, og Elínborg Þórðardóttir, f. 15. ágúst 1911, d. 28. ágúst 2002. Systkini hans eru a) Hallbjörn Valdimar Sigurðsson, f. 23. jan. 1931, d. 20. okt. 2010, maki Kristín Björnsdóttir, f. 15. sept. 1935, b) Hörður Baldur Sigurðsson, f. 20. jan. 1932, c) Gunnar Helgi Sigurðsson, f. 19. des. 1933, d. 19. okt. 1995, maki Soffía Sveinsdóttir, f. 30. maí 1941, d) Svanur Sigurðsson, f. 16. sept. 1936, d.18. jan. 1968, e) Guðrún Sigurðardóttir, f. 16. sept. 1939, maki Sigvaldi Fjeldsted, f. 16. nóv. 1935, f) Sigurveig Sigurðardóttir, f, 8. júlí 1941, maki Björn Ingvarsson, f. 10. apríl 1942, g) Auður Sigurðardóttir, f. 19. apríl 1943, maki Bergmann Þorleifsson, f. 8. maí 1943, h) Kristján Sigurðsson, f. 9. sept. 1949, maki María Einarsdóttir, f. 16. des. 1952, i) Trausti Sigurðsson, f. 6. okt. 1951, maki Guðrún Björnsdóttir, f. 10. feb. 1954.

Þórir ólst upp á Brúarhrauni ásamt systkinum sínum. Hann var bóndi á Brúarhrauni í nokkur ár og flutti síðan í Kópavog. Hann gerði út bát frá Arnarstapa í mörg sumur.

Þórir verður jarðsunginn frá Kolbeinsstaðakirkju í dag, 1. október 2011, og hefst athöfnin kl. 14.

Fyrsta minning mín um Þóri frænda er þegar ég er fjögurra ára. Þá gaf hann mér bókina Í dvergalandi. Átta ára var ég í fyrsta skipti án foreldra minna í sveitinni hjá Þóri og ömmu heima á Brúarhrauni. Sumrin urðu mörg sem ég var hjá þeim og alltaf var jafngaman í sveitinni. Eitt sumarið „uxu“ t.d. sleikibrjóstsykrar á fjóshaugnum. Þegar við Þórir vorum að vinna útivið söng hann oft einhverjar frumsamdar vísur fyrir mig. Þegar Þórir hætti búskap flutti hann í Kópavoginn.

Fór hann fljótlega að gera út bát á Arnarstapa á sumrin og eyddum við fjölskyldan fríunum okkar þar í sumarbústaðnum hjá honum. Þórir var mjög barngóður og tóku börnin okkar Gunnars ástfóstri við hann. Við fjölskyldan munum ávallt minnast hans með hlýju og þakklæti fyrir allar stundir í nærveru þessa góða manns.

Hafdís.