Lausasöluvörur Ódýrar í Lyfjaborg.
Lausasöluvörur Ódýrar í Lyfjaborg. — Morgunblaðið/Sverrir
Lyfjaborg í Borgartúni var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ gerði verðsamanburð á lausasöluvörum sl. mánudag. Skoðaðar voru vörur eins og smokkar, varasalvi og fæðubótarefni.

Lyfjaborg í Borgartúni var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ gerði verðsamanburð á lausasöluvörum sl. mánudag. Skoðaðar voru vörur eins og smokkar, varasalvi og fæðubótarefni.

Hæsta verðið var oftast hjá Lyfjum og heilsu í Reykjanesbæ, í 11 tilvikum af 36, og Skipholts apótek var næstoftast með hæsta verðið eða í 7 tilvikum af 36. Verðmunur á þeim vörum sem skoðaðar voru var frá 11% upp í 220%, en í flestum tilvikum var munurinn á hæsta og lægsta verði 25-50%.

220% munur á fæðubótarefni

Mestur verðmunur í könnuninni var á fæðubótarefninu B6 frá Ein á dag, sem var dýrast á 1.483 krónur hjá Apótekaranum á Akranesi, Urðarapóteki, Lyfjum og heilsu í Reykjanesbæ og Skipholts apóteki en ódýrast á 463 krónur hjá Lyfjaveri við Suðurlandsbraut. Munurinn var 1.020 krónur eða 220%. Minnstur verðmunur í könnuninni var á tannþræði, frá Oral-B-satin tape, sem var ódýrastur á 725 kr. hjá Lyfjavali í Álftamýri og dýrastur á 806 kr. hjá Lyfjum og heilsu í Reykjanesbæ. Verðmunurinn var 11% eða 81 kr.

Af öðrum vörum í könnuninni má nefna að Elite smokkar frá Durex, 12 stk. í pakka, sem voru dýrastir á 2.030 kr. hjá Árbæjarapóteki voru ódýrastir á 1.090 kr. hjá Lyfjaborg. Verðmunurinn var 86%. Þungunarpróf frá „Yes or no“ var dýrast á 1.478 krónur hjá Reykjavíkurapóteki á Seljavegi og ódýrast á 1310 krónur hjá Apóteki Garðabæjar, sem gerir 168 kr. verðmun eða 13%.

Fæðubótarefnið Spirulina var dýrast á 5.080 krónur hjá Apóteki Hafnarfjarðar og ódýrast á 3.850 krónur hjá Austurbæjarapóteki í Ögurhvarfi sem er 32% verðmunur.

Bossakremið frá Lansinoh var dýrast á 3.035 kr. hjá Garðsapóteki á Sogavegi og ódýrast á 2.117 kr. hjá Akureyrarapóteki sem er 43% verðmunur.