Skógur Nýræktaður skógur þekur lítið brot af landinu. Með sama áframhaldi tekur 250 ár að koma honum í 2% af heildarflatamáli.
Skógur Nýræktaður skógur þekur lítið brot af landinu. Með sama áframhaldi tekur 250 ár að koma honum í 2% af heildarflatamáli. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Við verðum að hugsa í áratugum og öldum.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Við verðum að hugsa í áratugum og öldum. Ef hlýnun vegna gróðurhúsaáhrifa heldur áfram þarf að fara að huga að því hvaða trjátegundir vaxta á Sprengisandi eða annars staðar á hálendinu eftir hundrað ár,“ segir Jón Loftsson skógræktarstjóri. Hann nefnir að borist hafi fyrirspurn frá Frakklandi um möguleika þess að varðveita hér á landi erfðaefni beykitrjáa sem eru að láta undan síga hátt í Ölpunum.

Fjallað verður um ástand og horfur skóga heimsins á alþjóðlegri ráðstefnu sem allur skógargeirinn á Íslandi stendur fyrir í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu næstkomandi laugardag. Helstu talsmenn og sérfræðingar í málefnum skóga segja frá þætti skóga og þýðingu fyrir mannkynið.

Markmið ekki að nást

Jón Loftsson skógræktarstjóri segir að þrátt fyrir metnaðarfull markmið og vaxandi skóga í Evrópulöndum og víðar eyðist skógar í heiminum meira en nemur vexti. Nefnir hann skógareyðingu í Afríku og Suður-Ameríku þar sem heilu vistkerfin hrynji þegar skógum er breytt í akurlendi.

Hér á landi hefur verið unnið eftir markmiðum um að auka skógarþekjuna með héraðsbundnum skógræktarverkefnum. Sett mark hefur aldrei náðst. Skógur þekur nú um 1,3% af heildarflatarmáli landsins, þar af er 1% hið náttúrulega íslenska birkikjarr, og er landið með hlutfallslega minni skóga en öll önnur ríki Evrópu. Vaxtarskilyrði trjáa hér eru ekki lakari en svo að trjávöxtur er hér yfir meðaltali Norðurlandanna í heild. Íslendingar nota hins vegar jafnmiklar trjáafurðir, svo sem pappír og timbur, og aðrar þjóðir. Þær eru allar fluttar inn.

Jón rifjar upp að á árinu 1990 hafi verið stefnt að því að auka skóginn í 4% af landi neðan við 400 metra hæð yfir sjó á fjörutíu árum. Hann segir að dregið hafi úr opinberum framlögum og áformin séu ekki á áætlun. „Miðað við stöðuna nú lítur út fyrir að þetta takist á 250 árum, ef ekki verður bætt í,“ segir Jón.

„Það þarf stuðning til að búa til þessa auðlind, ekki er hægt að ætlast til þess að ein kynslóð eða einstaklingar geri það. Þjóðin þarf að standa á bak við þá. Þegar skógurinn er kominn verður hann smám saman sjálfbær fjárhagslega. Sá litli skógur sem hér er nú gefur okkur til dæmis um 100 milljónir króna í tekjur á ári. Tvöföldun hans mun skila okkur milljörðum,“ segir skógræktarstjóri.

Hlýnun loftslags breytir möguleikum til trjáræktar hér á landi, eins og annars staðar. Tegundir sem við tengjum við suðlægari slóðir geta þrifist hér og hægt verður að rækta skóg hærra í fjöllum. Þess vegna segir Jón tímabært að huga að því hvaða tegundir henta til þess og nefnir Sprengisand sem dæmi um það.

„Við fengum fyrirspurn frá Frakklandi um það hvort við gætum hjálpað þeim við að varðveita erfðaefni beykis sem vex hátt í Ölpunum, í nágrenni Mont Blanc, en á orðið erfitt uppdráttar vegna hlýnunar loftslags,“ segir Jón. Hann segir að að sjálfsögðu hafi verið tekið vel í það og byrjað sé að kanna málið.

Beykitré hafa ekki verið notuð við skógrækt hér, en þau sjást í görðum í Reykjavík og víðar. Íslendingar tengja beykitré sjálfsagt mest við Danmörku en þar eru beykiskógar djásnið í skógum landsins.

STAÐA SKÓGRÆKTAR RÆDD

Heimsins græna gull

Alþjóðlega skógarráðstefnan „Heimsins græna gull“ er hápunktur viðburða íslensks skógræktarfólks á alþjóðaári skóga. Ráðstefnan verður haldin í Hörpu næstkomandi laugardag.

Meðal fyrirlesara er Mette Wilkie Løyche, deildarstjóri skógræktardeildar Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO. Hún fer yfir ástand og horfur í skógum heimsins og gefur innsýn í tækifæri og ógnanir skóganna. Skógræktarstjóri Svíþjóðar, fyrrverandi skógræktarstjóri Finnlands og írskur skógfræðiprófessor flytja fyrirlestra. Þá mun Þröstur Eysteinsson, sviðsstjóri þjóðskóganna á Íslandi, segja frá stöðu skógræktar hér á landi.