Magnús Guðmundsson fæddist á Ásbjarnarstöðum í Vestur-Húnavatnssýslu 30. júlí 1926. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Eir í Reykjavík 17. október 2011. Foreldrar hans voru Guðmundur Þorbjörn Sigurgeirsson, f. 28. október 1894, d. 6. apríl 1977, og Valgerður Magnúsdóttir, f. 28. febrúar 1905, d. 9. maí 1994, en þau hófu búskap á Hvammstanga og áttu síðan heima á Drangsnesi frá 1935. Magnús á einn bróður, Sigurgeir Helga Guðmundsson, f. 18. ágúst 1932. Magnús kvæntist 24. apríl 1953 Sigurmundu Snæland Guðmundsdóttur, f. 11. júlí 1932, d. 21. janúar 1993, og bjuggu þau á Drangsnesi. Magnús og Sigurmunda eignuðust þrjú börn, þau eru: 1) Valgerður Guðmunda, f. 20. ágúst 1950, gift Ásbirni Magnússyni, börn þeirra eru Sigurmunda Hlín, Magnús Ölver og Þuríður. 2) Guðmundur Björgvin, f. 1. febrúar 1952, kvæntur Guðrúnu Guðjónsdóttur, börn þeirra eru Ragnheiður Birna, Drífa og Magnús. 3) Sigríður Birna, f. 12. apríl 1958, gift Arinbirni Bernharðssyni, börn þeirra eru Arnar, Bernharð og Tinna. Sambýliskona Magnúsar frá 1996 er Ester Úranía Friðþjófsdóttir. Fyrstu æviárin bjó Magnús á Hvammstanga og í Hafnarfirði en flutti til Drangsness árið 1935. Eftir grunnskólanám lauk hann námi við Héraðsskólann á Reykjum í Hrútafirði. Hann fékk réttindi í leigubifreiðaakstri og sem ökukennari auk fjölmargra námskeiða í vegagerð. Í fyrstu bjuggu Magnús og Sigurmunda í Hamravík hjá foreldrum Magnúsar en gerðu síðar upp gamla og gluggalausa veiðarfærageymslu sem nú kallast Borg og bjuggu þar saman þar til Sigurmunda lést. Magnús sinnti fjölmörgum störfum um ævina. Fyrst við beitningar og sjómennsku frá Drangsnesi, þá sinnti hann verslunar- og skrifstofustörfum hjá Samvinnufélaginu Björgu á Drangsnesi um árabil, sá um skipaafgreiðslu Ríkisskipa, kenndi við Barnaskólann á Drangsnesi, var lengi ökukennari, annaðist umboð fyrir tryggingafélag og í 32 ár var hann með olíuumboð fyrir Shell á Drangsnesi. Árið 1965 hóf hann störf hjá Vegagerð ríkisins og frá 1970 til 1996 starfaði hann sem vegaverkstjóri og síðar rekstrarstjóri Vegagerðarinnar í Strandasýslu. Magnús tók þátt í ýmsum félagsstörfum á sinni ævi. Hann tók þátt í starfi ungmennafélags, sat í hrepps-, skóla-, hafnar- og sóknarnefndum á Drangsnesi auk þess að stunda dans og syngja í kórum. Útför Magnúsar fer fram frá Drangsneskapellu í dag, 29. október 2011, og hefst athöfnin kl. 14.

Það voru sorgartíðindi sem bárust mér til eyrna seinnipart dags þann 17. október, Magnús Guðmundsson frá Drangsnesi hafði látist fyrr um daginn. Tilfinningarnar voru blendnar. Andlát hans kom í sjálfu sér ekki á óvart, því að Magnús hafði nú síðari ár átt við erfiðan sjúkdóm að stríða, en eigi að síður fylltist hugurinn af söknuði og sorg þegar ótal samverustundir rifjuðust upp. Það er sorglegt að Magnús skyldi þurfa að lifa síðustu ár ævinnar á hjúkrunarheimili, eins hraustur og sprækur maður sem hann var áður en hann veiktist.
Þegar ég var að alast upp á Drangsnesi var Magnús ungur maður fullur af orku og vinnusemi og allir sem til hans þekktu litu upp til hans. Hann var vingjarnlegur við okkur krakkana og oft á tíðum fengum við far með honum á Austin-vörubílnum sem hann átti. Hann sá um olíuafgreiðsluna fyrir Skeljung og keyrði út olíu til fyrirtækja og heimila, einnig sá hann um afgreiðslu og uppskipun þegar Skjaldbreið og önnur skip komu með vörur á Drangsnes. Magnús var fenginn til að ná í hey af túnum þeirra sem áttu kýr og kindur og það var ótrúlega gaman að fá að kúra uppi á heystabbanum á meðan hann keyrði á milli galta á túnunum og síðan heim í hlöður, einnig sótti hann fé í Skarðsrétt í Bjarnarfirði og flutti heim á Drangsnes og að sjálfsögðu var vörubíllinn í vegagerð og ýmsum öðrum verkum sem til féllu á Drangsnesi og í sveitinni þar í kring.
Magnús kenndi stundum við barnaskólann á Drangsnesi og var til dæmis oft á tíðum prófdómari á vorin. Hann var fjölhæfur ungur maður. Frá unglingsárum mínum er mér mjög minnisstætt þegar þau hjón Magnús og Sigurmunda konan hans fengu sér sjónvarp, þau voru með þeim fyrstu, ef ekki fyrst til að fá sér sjónvarp á Drangsnesi. Það var aldeilis spennandi fyrir okkur krakkana að fá að koma og horfa á sjónvarpið hjá þeim. Dýrlingurinn var í miklu uppáhaldi hjá okkur unglingunum og margar aðrar myndir, við vorum alltaf velkomin heim til þeirra að horfa á sjónvarpið og ég man sérstaklega eftir því þegar myndin 79 af Stöðinni var sýnd, þá fylltist húsið af fólki, setið var í hverjum stól og margir á gólfinu, það var troðið út úr dyrum og allir skemmtu sér konunglega. Maggi og Simma, eins og þau voru alltaf kölluð, voru gestrisin og elskulegt fólk og við unglingarnir á Drangsnesi nutum góðs af velvild þeirra og er ég mjög þakklátur þeim fyrir að krydda tilveru okkar. Ég á einungis góðar minningar um þau hjón frá þessum tíma.
Magnús Guðmundsson var verkstjóri Vegagerðarinnar í Strandsýslu í mörg ár eða frá árinu 1970 til 1996. Það var vorið 1971 sem hann auglýsti eftir unglingi, tippara eins og það var kallað. Ég sótti um og fékk starfið. Magnús var síðan yfirmaður minn í rúm 20 ár, traustur maður í hvívetna og mikill vinur vina sinna. Hann var góður stjórnandi og var annt um okkur sem unnum hjá honum í Vegagerðinni. Það var Magnúsi mikils virði að menn hans væru duglegir og vandvirkir, að verkin væru vel unnin.
Það var mikið ævintýri fyrir ungling að koma inn í samfélag eins og Vegagerðin var á þessum árum. Vegagerðarskúrarnir voru okkar annað heimili yfir sumartímann og Magnús var oft á tíðum með 12 til 15 vörubílstjóra og 5 til 7 vélamenn svo það var oft mikið fjör í skúrunum og eitt og annað var látið fjúka yfir kaffibolla. Simma var ráðskona í skúrunum nánast allan þann tíma sem þeim var haldið úti á þessum árum. Hún var indæl og góð kona, glettin og brosmild við okkur kallana sem vorum í fæði hjá henni og með henni var dóttirin Sigga sem byrjaði að hjálpa til um leið og hún gat og hafði aldur til. Maturinn var frábær hjá þeim mæðgum og ég man að þær bökuðu nánast allt kaffibrauð sem á borð var borið fyrir okkur, þær voru rómaðar fyrir góðgerðirnar og raunar stórmerkilegt hvað þær gátu töfrað fram úr jafn ófullkomnu eldhúsi! Við sem unnum í Vegagerðinni hjá Magnúsi og bjuggum í skúrunum vorum eins og ein stór fjölskylda.
Við fórum með Magnúsi um alla Strandasýslu enda var mikil uppbygging á vegum í sýslunni á þessum árum. Vinnusvæði hans náði frá Brú í Hrútafirði og norður í Árneshrepp. Magnús var fróður um örnefni á svæðinu og lærði ég mikið af honum um þau og hefur það nýst mér í gegnum tíðina. Hið sama á við um verklag í vegagerð og margt fleira sem ég á Magnúsi mikið að þakka.
Á veturna fylgdist Magnús með okkur sem vorum í snjómokstri, hann hafði talstöð heima á Drangsnesi og fór ekki að sofa fyrr en allir voru komnir heilir heim. Þetta sýnir þann áhuga sem hann hafði fyrir sínu starfi og umhyggjuna fyrir þeim mönnum sem hann hafði í vinnu. Nú þegar Magnús er allur kemur upp í hugann þakklæti fyrir þá vináttu og hlýhug sem hann bar til mín og minna alla tíð. Ástvinum Magnúsar sendi ég innilegar samúðarkveðjur.
Blessuð sé minning Magnúsar Guðmundssonar.
Kær vinarkveðja,

Jóhann B. Skúlason frá Drangsnesi.