Geir Gunnar Geirsson
Geir Gunnar Geirsson
Eftir Geir Gunnar Geirsson: "Okkar fyrirtæki hefur verið byggt upp með þeirri ætlan fyrst og síðast að geta framleitt góða vöru á skaplegu verði og að geta staðið í skilum."
Að undanförnu hefur einn af fyrri eigendum svínabúsins að Brautarholti, Kristinn Gylfi Jónsson, farið mikinn á Mbl-vefnum og talið Arion banka hafa farið illa með sig og sína varðandi yfirtöku bankans á þessu búi, sem hafði verið rekið með miklu tapi um langan tíma.

Tíðarandinn er jú þannig að bankar og bankamenn eru upp til hópa álitnir af hinu illa. Hvers vegna ekki að væna þá og alla aðra um eigin ófarir til þess að réttlæta og upphefja sjálfan sig?

Annars koma mér viðskipti Arion banka og þessa aðila auðvitað ekkert við en hlýt að staldra við nokkrar fullyrðingar, sem tengjast mér og mínu fyrirtæki.

Fullyrðing í þá veru að Arion banki hafi „afhent einni fjölskyldu 70%“ af svínkjötsmarkaðnum er nokkuð mikið á skjön við veruleikann. Skv. athugun Samkeppniseftirlitsins mun markaðshlutdeild Stjörnugríss vera nálægt 50% og með stöðugt auknum innflutningi minnkar að sjálfsögðu þessi hlutdeild.

Svínabúin í eigu Arion banka voru keypt í þeirri trú að Samkeppniseftirlitið hefði ekkert við þennan gjörning að athuga enda veltutölur neðan þeirra marka, sem eru viðmið um afskipti Samkeppniseftirlits af samruna fyrirtækja.

Til vara litum við svo á að þessi fyrirtæki væru „á fallanda fæti“ en það ástand er sterk rök fyrir því að samkepppnisyfirvöld hafni ekki sameiningu fyrirtækja.

Fyrir utan fjárhagslega mjög bága stöðu beggja þessara búa, var boðið að loka þyrfti eldisdeild búsins að Hýrumel vegna sýkinga og áhöld voru um hvort „gyltudeildin“ í Brautarholti fengi að vera áfram vegna kærumála nágranna og í framhaldi afskipta Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

Ástand bústofnsins í Brautarholti var ekki í lagi ýmissa hluta vegna, og afurðir frá búinu eftir því.

Þá er rétt að gera athugasemd við þá fullyrðingu Kristins Gylfa að vegna ráðandi markaðsstöðu Stjörnugríss hafi svínakjöt hækkað um heil 42%.

Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, hefur einmitt fjallað nýlega um verðlagsþróun kjötafurða undanfarin misseri og komist að því að svínakjöt hafi hækkað minna en aðrar kjötvörur þrátt fyrir að aðföng til þeirrar búgreinar hafi jafnvel hækkað meira en til annarra.

Mér skilst að nýlega hafi verið gerð verðkönnun og samanburður á verði landbúnaðarafurða á Norðurlöndum og að sá samanburður hafi verið okkur svínabændum einkar hagstæður.

Kristinn Gylfi Jónsson hefur miklar áhyggjur af markaðshlutdeild Stjörnugríss og meintum einokunartilburðum. Þessu vísa ég algerlega frá mér og stend fast á því að okkar fyrirtæki, Stjörnugrís, hefur verið byggt upp með þeirri ætlan fyrst og síðast að geta framleitt góða vöru á skaplegu verði og að geta staðið í skilum.

Um aldamótin síðustu þegar verðbréfadeild Búnaðarbanka var að belgjast úr eins og líknarbelgur í bíl var stórhuga maður að nafni Kristinn Gylfi Jónsson í miklu áliti hjá spekúlöntum bankans með eftirfarandi framtíðarsýn:

Búnaðarbanki skyldi kaupa Fóðurblönduna, sem þá átti kjúklingabúið Reykjagarð, síðan skyldi sameina Fóðurblönduna og Mjólkurfélagið og í framhaldinu skyldi síðan sameina Móa, Reykjagarð Nesbú, Síld og Fisk og Brautarholt í eitt fyrirtæki. Hversu margir milljarðar fóru í þessi uppkaup og brunnu síðan upp veit ég ekki en auðvitað þarf að rannsaka það og skrá formlega á afrekalista Kristins Gylfa og þeirra bankamanna, sem að þessu komu. Þessir aðilar eru í flokki annarra vanskila- og óreiðudólga hrunsins. Hefði þetta gengið eftir, hefði þessi samsteypa haft nokkurt vægi á markaðnum, eða hvað?

Auðvitað hafa bankar, fyrirtæki og einstaklingar orðið fyrir milljarðajóni af umsvifum Kristins Gylfa Jónssonar í svína- og kjúklingarækt. Og vitanlega hefur afurðaverð þessara sömu búgreina verið hærra einmitt vegna þessara hryðjuverka innan búgreinanna.

Daginn eftir að kunngert hafði verið um kaup okkar á þessum svínabúum bankans, hringdi til okkar maður að nafni Kristinn Gylfi Jónsson og óskaði okkur innilega til hamingju með kaupin á þessum búum.

Augljóslega hefur eitthvað breyst síðan þá, kannski hefur ný landbúnaðarpólitík Jóns Bjarnasonar um að framleitt skuli minna fyrir meira valdið því að nú segir hann: „Nú get ég.“

Það væri margt hægt að segja reyfarakennt af þessu rekstrarumhverfi, sem við búum við og verður sjálfsagt tíundað nánar þó seinna verði.

Mér datt þó í hug þegar tilkynnt var um nýtt frumvarp Jóns Bjarnasonar um að nú skuli takmarka framleiðslurétt svínahirða: Það er víða Kleppur.

Höfundur er einn af eigendum Stjörnugríss hf.