Fyrsta skáldsagan „Mig hefur aldrei langað til að gera annað en að skrifa,“ segir rithöfundurinn Haukur Ingvarsson.
Fyrsta skáldsagan „Mig hefur aldrei langað til að gera annað en að skrifa,“ segir rithöfundurinn Haukur Ingvarsson. — Morgunblaðið/Einar Falur
„Þegar þessi lokaði karlaheimur er skoðaður utanfrá þá er hann ömurlegur, sorglegur en líka hlægilegur,“ segir Haukur Ingvarsson um fyrstu skáldsögu sína, Nóvember 1976.

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Föstudagskvöld eitt í nóvember árið 1976 ætlaði kona að nafni Dóróthea að fara að horfa á sjónvarpsfréttir þegar fyrst kom ljós á skjáinn í stofunni hjá henni, þá myrkur og loks blár hringur.

„Þú drapst sjónvarpið, kona,“ þrumaði reiður eiginmaðurinn, Ríkharður að nafni, en ákvað síðan að leita til nágranna í blokkinni eftir aðstoð við að verða sér úti um nýtt sjónvarpstæki, litasjónvarp. Nágranninn lofaði engu en fékk einkason hjónanna, unglinginn Þórodd, hins vegar með sér í leiðangur sem átti eftir að verða sögulegur. Þá lá leiðin meðal annars upp á Keflavíkurflugvöll, í leynda heima blokka þess afgirta samfélags.

Það er fyrsta skáldsaga Hauks Ingvarssonar, Nóvember 1976 , sem hefst á dauða sjónvarpsins í reykvískri blokk. Haukur er bókmenntafræðingur, útvarpsmaður á Rás 1 og skáld, og hann spinnur hér upp marglaga mynd af brotnu heimilislífi og manndómsvígslu í tíma sem enn glittir í í baksýnisspeglinum en er þó svo löngu liðinn.

Þótt þetta sé fyrsta skáldsaga Hauks er þetta þriðja bók hans; ljóðabókin Niðurfall kom út árið 2004 og 2009 sendi hann frá sér bókina Andlitsdrættir samtíðarinnar. Hún fjallar um síðustu skáldsögur Halldórs Laxness, einkum Kristnihald undir Jökli , Innansveitarkroniku og Guðsgjafaþulu .

„Mig hefur aldrei langað til að gera annað en að skrifa,“ viðurkennir Haukur og rifjar upp að hann hafi birt ljóð í skólablaði þegar hann var í Menntaskólanum í Reykjavík. „Þau voru sögð eftir Jónas H. Ásgeirsson og kæmu úr bók sem héti Niðurfall – þar var þessi hræðilegi titill kominn og ég gat ekki losað mig við hann fyrr en bókin kom raunverulega út. Jónas H. Ásgeirsson skýtur svo reyndar upp kollinum í skáldsögunni.“

Haukur tók á sínum tíma þátt í upplestrum með ungum höfundum sem kenndu sig við Nýhil og segir það fólk hafa átt ákveðna samleið þótt þau séu ólíkir höfundar.

„Ég hef alltaf verið að potast áfram með einhver skrif,“ segir hann þegar spurt er út í þá ákvörðun að skrifa skáldsögu. „En þegar maður er kominn í vinnu á stað eins og útvarpinu er ekki mikill tími aflögu til að fullvinna hluti eða ganga frá þeim til útgáfu. Það söfnuðust þó að mér hugmyndir og drög og ég hef haldið áfram að birta ljóð og ljóð í tímaritum.“

Þegar Haukur hafði sent ljóðabókina frá sér á sínum tíma sótti hann um ritlaun og fékk ekki, og varð ekkert svekktur, segir hann, en einsetti sér að sækja ekki um aftur fyrr en hann hefði losað sig við verkið um Halldór Laxness sem var þá farið að íþyngja honum.

„Sú vinna dróst þó á langinn og tók fleiri ár en ég hafði ætlað, en þegar hún var komin út sótti ég aftur um starfslaun og fékk. Ég var þá staðráðinn í að nota tímann mjög vel og vann tíu tíma vinnudag allan tímann meðan ég var á starfslaununum. Ég einsetti mér að hafa fullbúið handrit þegar launatímabilinu lyki.“

Það tókst honum.

Tíminn fyrir fæðinguna er blindur blettur

Viðfangsefni skáldsögunnar er hálfnöturlegur íslenskur veruleiki áttunda áratugarins. Hvers vegna?

„Maður veit ýmislegt um þá tíma sem maður lifir og þá sem maður les um í sögubókum. Meðan ég lá í rannsóknum á Halldóri Laxness komst ég að því að tíminn rétt áður en maður fæðist er blindur blettur. Hann er of nærri til að vera sögulegur en samt svo mikilvægur því maður er sprottinn úr honum. Mér fannst spennandi hvernig ýmis höft taka að losna á áttunda áratugnum, ekki síst vegna þess að þau losnuðu ekki af sjálfu sér. Merkilegustu byltingarnar rata samt ekki endilega á spjöld sögunnar, þær verða í huga fólks og inni á heimilum fyrir luktum dyrum.

Þetta voru líka spennandi tímar í bókmenntunum, því talsverð þyngsli höfðu verið ríkjandi en þarna koma fram höfundar á borð við Pétur Gunnarsson og sprengja allt upp. Menn vörpuðu öndinni léttar þegar bækur eins og hans fyrsta ljóðabók, Splunkunýr dagur , kom út.

Þessi bók mín er líklega í talsverðri samræðu við tíðarandann í bókmenntum sjöunda og áttunda áratugarins. Sumir hafa sagt að andi Svövu Jakobsdóttur svífi yfir vötnum.“

– Og Guðbergs Bergssonar, mér finnst þú vera í eins konar samræðu við tiltekin verk hans.

Haukur brosir. „Ég kannast alveg við það, get ekki svarið það af mér,“ segir hann svo. „Líklega eru augljósar samræður þarna við bók Guðbergs, Músin sem læðist .

Ég tók viðtal við Guðberg þegar hann var búinn að lesa Músina upp sem útvarpssögu hjá okkur í Víðsjá og hann sagðist hafa langað til að skrifa bók sem væri verkfræðilega fullkomin, þannig að eftir hana gæti hann farið í hvaða átt sem hann vildi. Fólk vissi að hann hefði skilað sínu sveinsstykki. Nú er ég ekki að segja að mér hafi tekist jafn vel upp og Guðbergi en ég vildi skrifa bók sem stæðist allar reglur, uppfyllti ýtrustu kröfur um frásagnarhátt og persónusköpun.“

Ógn sem gerir aðstæðurnar absúrd

– Þú hefur lagt mikla vinnu í að skapa andrúmsloftið sem ríkir í sögunni, andrúmsloft ótta og leynimakks.

„Fyrst og fremst fjallar sagan líklega um ofbeldi og vald,“ svarar Haukur. „Samtölin eru að vissu leyti skrifuð eins og skák. Þarna er ofbeldisfullur heimilisfaðir sem er í stöðugri sókn og húsmóðirin þarf að vera fljót að átta sig á því hvaða leikir séu í stöðunni. Mér þótti vænt um það þegar kona sem ég þekki og bjó við slíkar aðstæður sagði að þetta væri í raun nákvæm lýsing á þeim; fólk upplifi sig eins og í leikriti en viti ekki hvaða hlutverki því hafi verið úthlutað. Ógnin gerir aðstæður þess absúrd og að lokum veit það varla hvert það er. Það er svar við umhverfi sínu en hefur ekkert frumkvæði.“

Aðstæður fólks í þessu valdatafli eru um leið spaugilegar og Haukur segir sama hlut vissulega geta verið sorglegan og fyndinn í senn, Woody Allen sé snillingur í að sýna fram á það, rétt eins og fleiri listamenn.

En þarna birtist líka gagnrýnin sýn á það sem kalla mætti karlakúltúr.

„Já, þarna má líklega sjá ógeðslegan karlakúltúr en inn í hann kemur fráskilin kona, með aðrar hugmyndir en þær viðteknu, og hún gæti sagt eins og Helga Kress: hlæjum að þeim! Þegar þessi lokaði karlaheimur er skoðaður utanfrá þá er hann ömurlegur, sorglegur en líka hlægilegur. Síðan segir af manndómsvígslu unglingsins, sem minnir á sinn hátt á það þegar farið er með stráka á sjóinn í fyrsta skipti eins og fjallað var um í réttarsal á dögunum. Í upphafi sögunnar er strákurinn eins og milli tveggja heima en síðan fer manndómsvígslan fram og valdatafl bókarinnar snýst um hvernig hún endar – verður Þóroddur vígður inn í karlaheiminn eða nær hann að marka sér nýja slóð? Í mínum huga er Nóvember 1976 hetjusaga en hver hetjan er kemur ekki fram fyrr en í sögulok.“

Fá lesendur að vita meira um afdrif þessara persóna í næstu bók?

„Þetta er söguheimur sem ég hefði ekkert á móti að heimsækja aftur,“ svarar Haukur að bragði.