Hugdetta Benedikt Jóhannesson fjallar m.a. um menn sem lenda í óþægilegri aðstöðu.
Hugdetta Benedikt Jóhannesson fjallar m.a. um menn sem lenda í óþægilegri aðstöðu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kattarglottið og fleiri sögur nefnist smásagnasafn eftir Benedikt Jóhannesson sem nýverið kom út. „Elsta sagan í þessu safni er 13 ára gömul, en langflestar eru frá síðustu árum,“ segir Benedikt en í safninu eru fjórtán smásögur.
Kattarglottið og fleiri sögur nefnist smásagnasafn eftir Benedikt Jóhannesson sem nýverið kom út. „Elsta sagan í þessu safni er 13 ára gömul, en langflestar eru frá síðustu árum,“ segir Benedikt en í safninu eru fjórtán smásögur. „Sögurnar eru ólíkar, en eiga það margar sameiginlegt að fjalla um menn sem eru lentir í einhvers konar vandræðum eða óþægilegri aðstöðu og eru að reyna að krafla sig út úr því hver með sínum hætti. Þannig verður einn fyrir því að henda tannstöngli á almannafæri sem hann ætlar að taka upp aftur en finnur ekki og líður fyrir það miklar sálarkvalir. Annar lendir í því að hann ætlar að skíra barn og finnur að hann kann í raun ekki til verka þrátt fyrir að hafa lært til prests mörgum árum fyrr,“ segir Benedikt og tekur fram að hann sé ekki bundinn af raunveruleikanum í sögum sínum.

„Í sumum sögunum gerast hlutir sem gerast ekki á hverjum degi í lífi venjulegs fólks. Þannig fær einn blaðamaður t.d. viðtal við sjálfan guð almáttugan,“ segir Benedikt og tekur fram að í þremur sögum bókarinnar notist hann við atburði sem gerðust í alvörunni, en velji svo að sveigja út frá raunveruleikanum eða búa til nýjan raunveruleika.

Útgáfan nokkurs konar skyndiákvörðun

Að sögn Benedikts var það nokkurs konar skyndiákvörðun hjá honum að gefa út smásögurnar. „Ég ákvað að gefa út þessa bók núna síðsumars, en þá var ég kominn með um tíu sögur af þessum fjórtán sem í bókinni eru og ákvað þá að bæta nokkrum sögum í safnið. Það má því segja að menn fái þarna mjög gott yfirlit yfir smásagnaferilinn minn, því þarna birtast nánast allar sögurnar sem ég hef skrifað.“ silja@mbl.is