Rannveig María Garðars fæddist í Reykjavík 1. september 1927. Hún lést á Dvalaheimilinu Hlíð 24. desember 2011. Foreldrar hennar voru Garðar Þorsteinsson, hæstaréttarlögmaður og alþingismaður í Reykjavík, fæddur 1898 á Víðivöllum í Fnjóskadal, d. 1947, og Anna Pálsdóttir húsfreyja, fædd 1896 í Möðrufelli í Hrafnagilshreppi, d. 1978. Fjölskyldan bjó lengst af á Vesturgötu 19 í Reykjavík. Systkini Rannveigar eru; Hilmar, f. 1922, d. 2007, kvæntur Þorgerði Jörundsdóttur, Hreinn Þorsteinn, f. 1929, d. 2001, kvæntur Helgu Friðfinnsdóttur og Anna, f. 1939, gift Marinó Þorsteinssyni. Fyrri eiginmaður Rannveigar var Alexander C. Middleton, f. 19. janúar 1917, d. mars 1971. Þau skildu. Börn þeirra eru 1) Maríanna Alexandersdóttir, f. 3. sept. 1949. 2) Garðar Thor Middleton, f. 6. nóv. 1958, maki Guðrún Stefánsdóttir, f. 16. jan. 1961. Þeirra börn eru Rannveig María Garðarsdóttir, f. 1983, maki Matt Frankel og Þóra Mist Garðsdóttir, f. 1994. Seinni eiginmaður Rannveigar var Bjarni Steingrímsson, f. 26. sept. 1926, d. 20. nóv. 1988, dóttir þeirra, Sigríður Emílía Bjarnadóttir, f. 22. apríl 1963, maki Bragi Sigurðsson, f. 12. mars 1961. Börn þeirra eru; Bjarni Þór Bragason, f. 1990, Andri Már Bragason, f. 1994, og Kolbrún María Bragadóttir, f. 1998. Rannveig gekk í Landakotsskóla og síðan í Verslunarskóla Íslands. Á æskuárunum sínum á Vesturgötunni eignaðist hún vinkonur sem héldu alla tíð hópinn og hittust reglulega. Eftir Verslunarskólann fór hún í húsmæðraskóla í Ljungskile í Svíþjóð og starfaði um tíma í sendiráðinu í Stokkhólmi. Árið 1948 flutti hún með eiginmanni sínum til Jacksonville í Bandaríkjunum og síðar til Grand Cayman. Rak hún m.a. kjólaverslun á þessum árum. Eftir heimkomu vann Rannveig við ýmis skrifstofustörf og við þýðingar á kvikmyndum. Árið 1977 hóf hún störf á skrifstofu Hótel Loftleiða og vann þar til 1997 þegar hún lét af störfum vegna aldurs. Rannveig bjó lengst af í Garðabænum með eiginmanni sínum en í vesturbænum á Kaplaskjólsveginum eftir að hann lést. Í ársbyrjun 2005 flutti hún til Akureyrar til að vera nærri barnabörnunum og síðustu tvö árin dvaldi hún á Dvalarheimilinu Hlíð. Rannveig var jarðsungin frá Dómkirkjunni 2. janúar 2012.

Þegar æskuvinir falla frá erum við, sem eftir lifum, minnt á lögmál lífsins, um leið hverfur hluti af lífi þeirra sem lengur lifa.

Sameiginlegar minningar úr lífsgöngunni verða ekki lengur rifjaðar upp og ekki er lengur hægt að hafa gaman af að minnast þess sem var.

Það er með sorg í hjarta sem ég kveð bernskuvinkonu, hana Diddu mína, sem ég hef þekkt eins lengi og ég man eftir mér. Bræður hennar tveir, Hilmar og Hreinn Þorsteinn (Bói) hafa þegar kvatt, eftir lifir yngsta systkinið, hún Anna.

Heimili Önnu og Garðars á Vesturgötu 19, var stórt, óvenjulega glæsilegt og mannmargt, þar bjó stórfjölskyldan saman. Foreldrar Garðars, María og Þorsteinn, fluttu til sonar og tengdadóttur fljótlega eftir að þau settust að í Reykjavík. Garðar hafði þá lokið lögmannsprófinu.

Það voru ömmur á nágrannaheimilunum, en hvergi afi, nema Þorsteinn, hann taldi það ekki eftir sér að vera afi okkar barnanna í næstu húsum og aldrei kallaður annað. Við börnin við neðanverða Vesturgötuna áttum skemmtilega daga, nægt rými til leikja og stelpur og strákar léku sér saman í útileikjum. Við stelpurnar höfðum alltaf nóg fyrir stafni. Gaflar á sumum timburhúsanna voru steyptir og gluggalausir, og hétu þá brandveggir, þar vorum við í dönskum og sögðum til skiptis pant fyrst. Sumar voru meira að segja með þrjá og fjóra bolta á lofti í einu. Við upplifðum eina stærstu breytingu sem orðið hefur í íslensku þjóðlífi þegar herinn steig á land í maímánuði 1940 og horfðum agndofa á breska hermenn marséra niður Vesturgötuna.

Ungar stúlkur komu til hjálpar við heimilisstörfin á Vesturgötu 19, dvöldu lengi og ein þeirra, sem kynnst hafði mannsefninu, var treg að yfirgefa heimilið. Anna og Garðar létu þá byggja hæð ofan á steinsteypt vaskahús á baklóðinni og þar fengu ungu hjónin sína fyrstu íbúð.

Það var mikill gestagangur á heimilinu á Vesturgötu 19, ættingjar að norðan og úr Mýrdalnum gistu þegar þeir komu til bæjarins. En það þurfti ekki skyldleika til, ótrúlegur fjöldi fólks naut gestrisni þeirra og þeir voru margir stúdentarnir að norðan, sem áttu athvarf sitt á heimilinu á Háskólaárunum og án efa verið þeim hjálp fyrir tíma námslánanna.

Á unglingsaldri fengum við Didda sumarvinnu við að vísa til sætis í Gamla bíói. Þótti okkur nokkur upphefð að enda yngstar af starfsstúlkunum. Við gengum síðan að því sumarstarfi vísu öll skólaárin.

Didda hóf nám í Verslunarskóla Íslands, sem lauk með verslunarprófi 1945, var þar í góðum hópi félaga og eignaðist þar vinkonur fyrir lífstíð. Hún fór vel nestuð út í lífið, alin upp af mikilhæfum foreldrum, bjó við ástúð og öryggi, vel gefin, glæsileg og hörkudugleg. En sorgin átti eftir að vitja hennar, hún syrgði mjög föður sinn sem lést í hörmulegu flugslysi árið 1947. Sorgin varð enn þyngri þegar hún vissi að hann hafði hringt á vinnustað hennar, nokkrum mínútum áður en hann steig um borð í flugvélina, til að kveðja, en hún hafði þá aðeins skroppið frá.

Didda gekk ung í hjónaband með fyrri eiginmanni sínum, Alexander Middelton veðurfræðingi, sem kom hér til starfa eftir stríðslok á Keflavíkurflugvelli.

Þau eignuðust tvö börn, Mary og Garðar, og með honum flutti hún til Bandaríkjanna árið 1951 og síðar til eyjunnar Grand Cayman.

Hún flutti heim með börn sín eftir skilnað 1961. Eftir heimkomuna kynntist hún seinni manni sínum Bjarna Steingrímssyni efnafræðingi. Þau gengu í hjónaband 1. nóvember 1962, áttu gott líf saman og eignuðust dótturina Sigríði Emelíu. Bjarni átti við vanheilsu að stríða og lést langt um aldur fram 1988. Enn knúði sorgin dyra.

Vanheilsa Diddu síðustu árin er þyngri en tárum taki. Hún hvarf svo inn í eilífðina að morgni aðfangadags.

Ég finn til mikils þakklætis í garð Diddu og allrar fjölskyldu hennar.

Hún sá um að koma mér í fóstur á æskuheimili sínu þegar ég, fulltíða, kom heim eftir nokkurra ára dvöl í Vesturheimi og húsnæðislaus. Naut ég þar sömu hlýju og fyrr á ævinni.

Það er með miklum trega sem ég kveð vinkonu mína og þakka ævilanga vináttu. Börnum hennar, tengdabörnum og afkomendum votta ég samúð mína. Sömuleiðis Önnu systur hennar og fjölskyldu.

Bergljót Ingólfsdóttir.