Víðátta Tríó Sunnu Gunnlaugsdóttur; Sunna, Scott McLemore og Þorgrímur Jónsson, spilar í Þjóðmenningarhúsinu á fimmtudag.
Víðátta Tríó Sunnu Gunnlaugsdóttur; Sunna, Scott McLemore og Þorgrímur Jónsson, spilar í Þjóðmenningarhúsinu á fimmtudag. — Ljósmynd/Hörður Sveinsson
Árni Matthíasson arnim@mbl.

Árni Matthíasson

arnim@mbl.is

Í nóvember síðastliðnum sendi djasspíanistinn Sunna Gunnlagsdóttir frá sér diskinn Long Pair Bond sem er meðal annars forvitnilegur fyrir þær sakir að á honum spilar hún með tríói, en hún gaf síðast út disk með tríói fyrir fimmtán árum; upp frá því hefur hún starfað með kvartett. Diskinn kynnir Sunna á tónleikum í Þjóðmenningarhúsinu á fimmtudag, en tríóið skipa með henni Scott McLemore á trommur og Þorgrímur Jónsson á bassa.

Sunna bjó lengi og starfaði í Bandaríkjunum, en fluttist hingað til lands fyrir nokkrum árum og segir að hugsanleg skýring á því af hverju hún taki upp tríóformið að nýju sé einmitt íslensk landslag og umhverfi; „hér eru meiri víðáttur, meira rými en í æsingnum og troðningnum í New York og kannski hefur það sitt að segja. Við Scott fórum að spila í tríói með Þorgrími og þetta þróðaist upp úr því, en svo var Lana Kolbrún líka að skjóta á mig að það væri tími til kominn að gera aðra tríóplötu og það hafði sitt að segja.“

Eins og Sunna lýsir vinnunni við diskinn þá settu þau saman hugmyndir hvert í sínu horni sem þau hafa prufukeyrt saman á tónleikum víða um land á síðustu árum. Þau komu svo saman í Salnum síðastliðið sumar og tóku plötuna upp á einum degi, „enda vorum við komin með vegvísi að því hvernig við ætluðum að meðhöndla lögin“.

Long Pair Bond kom svo út 11. nóvember síðastliðinn og hefur verið vel tekið víða um heim. Hann fékk þannig mjög jákvæða umsögn á vefritinu All About Jazz, helsti djassgagnrýnandi Japans, Hiroki Sugita, valdi hann sem disk mánaðarins, franska síðan BlogsEtCie valdi hann sem uppgötvun vikunnar, ritstjóri CD Baby valdi hann á lista sinn, austurríska tímaritið Concerto gaf honum fimm stjörnur, Jazzwrap valdi Long Pair Bond sem einn af diskum síðastliðins árs og svo má telja.

Öll þessi umfjöllun hefur orðið til að auka mjög áhuga á tríóinu ytra, sem vonlegt er, og framundan er tónleikahald á árinu, vestan hafs og austan. Þannig hefur þeim verið boðið að spila á JazzAhead-hátíðinni í Bremen í Þýskalandi í apríl næstkomandi og einnig er í bígerð tónleikaferð til Bandaríkjanna, búið að bóka tvenna tónleika á djasshátíðum í sumar og frekari spilamennka í undirbúningi.

„Við erum að legga lokahönd á Bandaríkjatúrinn sem er farinn að teygja sig í tvær vikur, en svo stefnum við á að fara aftur til Evrópu í haust, ef við höfum tíma til að sinna því. Meðan ég bjó í New York fórum við til Evrópu þrjú ár í röð og spiluðum þá aðallega í Þýskalandi og Austurríki og svo fór ég með kvartett þangað síðasta haust. Ég þekki það því vel hve frábært er að spila í Evrópu, auðvelt að ferðast og áheyrendur eru ofsalega fínir, þannig að ég vil gjarnan spila mun meira þar.“

Til viðbótar fyrirhugaðrar ferðar vestur um haf og tónleikahalds í Evrópu er tríóið einnig að vinna í tónleikaferð til Japans að sögn Sunnu. „Það hjálpar okkur mikið hvað fólk tekur diskinum okkar vel, það getur verið mikið mál að komast í gegnum fjöldann.“