Rúnar Pálmason runarp@mbl.is Landsvirkjun ætlar að stækka Búrfellsvirkjun um 70 MW og auka framleiðsluna um 210 GWst á ári til að notfæra sér að hlýnun loftslags hefur aukist – og mun halda áfram að aukast – og rennsli í Þjórsá.

Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

Landsvirkjun ætlar að stækka Búrfellsvirkjun um 70 MW og auka framleiðsluna um 210 GWst á ári til að notfæra sér að hlýnun loftslags hefur aukist – og mun halda áfram að aukast – og rennsli í Þjórsá. Ef gert hefði verið ráð fyrir auknu rennsli frá jökulám vegna hlýnunar þegar Kárahnjúkavirkjun var reist hefði mátt auka rafmagnsframleiðslu hennar um 30% eða um 1.500 GWst á ári, eftir því sem fram kom á blaðamannafundi um nýja skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar um áhrif loftslagsbreytinga á endurnýjanlega orkugjafa í gær.

Í skýrslunni kemur m.a. fram að jöklar muni hopa hratt og úrkoma aukast um allt að 10%.

Undirbúningur að stækkun Búrfellsvirkjunar er langt kominn og gætu framkvæmdir við nýtt stöðvarhús hafist árið 2014. Einnig er verið að kanna möguleika á að auka afl Sultartangastöðvar um 10 MW, annaðhvort með því að reisa nýja virkjun eða keyra núverandi stöð á meira álagi. Hugmyndir um að auka framleiðslu Kárahnjúkavirkjunar eru á frumstigi en ljóst er að breytingar á núverandi virkjun munu ekki gefa jafnmikla orku og ef hönnun hennar hefði frá upphafi tekið mið af auknu rennsli.

Aukið rennsli
» Fram til ársins 2050 mun nýtanleg vatnsorka í virkjuðum vatnsföllum aukast um 20%, skv. áætlun Landsvirkjunar.
» Hægt verður að nýta 40% aukningarinnar, um 825 GWst, á ári. Heildarframleiðsla LV árið 2010 var 12.000 GWst.