Verðmæti Sjófrysting gaf 57,4 milljarða króna fyrstu 11 mánuði ársins.
Verðmæti Sjófrysting gaf 57,4 milljarða króna fyrstu 11 mánuði ársins. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Aflaverðmæti íslenskra skipa nam 143 milljörðum króna fyrstu 11 mánuði ársins 2011, janúar til og með nóvember, samanborið við tæpa 125 milljarða á sama tímabili 2010. Aflaverðmæti hefur því aukist um 18,3 milljarða króna eða 14,7% á milli ára.

Aflaverðmæti íslenskra skipa nam 143 milljörðum króna fyrstu 11 mánuði ársins 2011, janúar til og með nóvember, samanborið við tæpa 125 milljarða á sama tímabili 2010. Aflaverðmæti hefur því aukist um 18,3 milljarða króna eða 14,7% á milli ára. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofunnar, sem birtar voru í gær.

Botnfiskur fyrir 87 milljarða

Aflaverðmæti botnfisks fyrstu 11 mánuði ársins nam 87,4 milljörðum króna og jókst um 0,7% sé miðað við sama tímabili árið 2010. Verðmæti þorskafla var um 42,3 milljarðar og jókst um 2,3% frá fyrra ári.

Aflaverðmæti ýsu nam 10,9 milljörðum og dróst saman um 23,8%, en verðmæti karfaaflans nam 13,3 milljörðum, sem er 21,9% aukning miðað við sama tímabil árið 2010. Verðmæti ufsaaflans jókst um 6,2% milli ára í 8,3 milljarða.

Bein sala útgerða til vinnslu 60 milljarðar króna

Verðmæti flatfiskafla nam tæpum 9,4 milljörðum króna fyrstu 11 mánuði ársins sem er 9,5% aukning frá fyrra ári. Aflaverðmæti uppsjávarafla jókst um 59% milli ára og nam 42,4 milljörðum. Stafar sú aukning að stærstum hluta af verðmætaaukningu loðnuaflans, sem jókst um 256% á milli ára og nam 8,9 milljörðum króna.

Verðmæti afla sem seldur er í beinni sölu útgerða til vinnslu innanlands nam 60,5 milljörðum króna og jókst um 17,7% frá árinu 2010. Aflaverðmæti sjófrystingar var 57,4 milljarðar sem er 25,8% aukning frá fyrra ári. Verðmæti afla sem keyptur er á markaði til vinnslu innanlands nam um 18 milljörðum króna, sem er 1,1% aukning frá janúar-nóvember 2010.