Skúli Jón Sigurðarson sendi Vísnahorninu kveðju með skemmtilegum limrum, sem ortar eru í tilefni af öllum þemadögunum sem þjóðin fær yfir sig þessa dagana.

Skúli Jón Sigurðarson sendi Vísnahorninu kveðju með skemmtilegum limrum, sem ortar eru í tilefni af öllum þemadögunum sem þjóðin fær yfir sig þessa dagana. Hjálmar Freysteinsson orti:

Bollur skal éta á bolludaginn,

baunir og saltkjöt á sprengidaginn,

en iðrast hann má,

maðurinn sá,

sem át konuna sína á konudaginn.

Þá Ólafur Halldórsson:

Bollur skal éta á bolludaginn,

baunir og saltkjöt á sprengidaginn,

en þótt hugur sé sá,

ekki húsfreyjan má,

hafa bóndann í matinn á bóndadaginn.

Og Björn Ingólfsson:

Ef bollur skal éta á bolludaginn,

og baunir og saltkjöt á sprengidaginn,

þá er mér spurn,

spekingar: Hvurn,

andskotann étiði á öskudaginn?

Loks Kristján Eiríksson:

Ég bollurnar ét á bolludaginn,

og baunir og saltkjöt á sprengidaginn,

svo fæ ég mér bjór

og byrja mitt þjór,

og verð öskufullur á öskudaginn.

Pétur Blöndal pebl@mbl.is