Handbolti Ívar Benediktsson iben@mbl.is Íslenska landsliðið í handknattleik karla verður í fyrsta styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla fyrir undankeppni Evrópumóts landsliða í Kaupmannahöfn föstudaginn 20. apríl.

Handbolti

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Íslenska landsliðið í handknattleik karla verður í fyrsta styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla fyrir undankeppni Evrópumóts landsliða í Kaupmannahöfn föstudaginn 20. apríl. Þetta er ljóst eftir að Handknattleikssamband Evrópu gaf út styrkleikalista sinn fyrir síðustu helgi.

Íslenska landsliðið er í fimmta sæti listans en þjóðirnar í öðru til áttunda sæti verða í efsta styrkleikaflokki. Danir, sem tróna á toppnum, verða gestgjafar Evrópumótsins sem haldið verður dagana 14.-26. janúar 2014. Þeir sleppa við þátttöku í riðlakeppninni sem hefst í haust og lýkur í júní 2013.

Ísland var í öðrum styrkleikaflokki þegar dregið var í riðlakeppni EM 2012 og fékk þá Þýskaland úr fyrsta styrkleikaflokki, Austurríki úr þeim þriðja og Lettaland úr fjórða flokknum. Ísland komst áfram ásamt Þýskalandi á EM í Serbíu.

Leikið um fimmtán sæti í undankeppninni

Eins og síðast þá verður dregið í sjö riðla fyrir undankeppnina. Hver riðill verður skipaður fjórum liðum. Tvær efstu þjóðirnar hvers riðils öðlast keppnisrétt í lokakeppni EM auk þess sem það lið sem nær bestum árangri í þriðja sæti tryggir sér einnig farseðilinn í lokakeppnina. Hingað til hafa ríkjandi Evrópumeistarar ásamt gestgjöfum ekki tekið þátt í undankeppninni en þar sem Danir eru bæði ríkjandi Evrópumeistarar og verða gestgjafar EM 2014 vinna 15 lið sér keppnisrétt að þessu sinni í gegnum undankeppnina. Reglunum verður breytt fyrir forkeppnina 2016 en þá mun sú þjóð sem verður Evrópumeistari 2014 að fara í gegnum undankeppnina fyrir lokakeppnina 2016.

Lausir við sterkar þjóðir

Þegar dregið verður í undankeppni EM 2014 í apríl næstkomandi verða eftirtaldar þjóðir í fyrsta styrkleikaflokki ásamt Íslandi: Króatía, Frakkland, Spánn, Pólland, Serbía og Þýskaland. Þessar þjóðir geta því aldrei orðið andstæðingar Íslands í undankeppninni.

Í styrkleikaflokki tvö verða: Ungverjaland, Noregur, Svíþjóð, Slóvenía, Makedónía, Tékkland og Austurríki.

Í þriðja styrkleikaflokki verða: Rússland, Slóvakía, Portúgal, Úkraína, Grikkland, Litháen og Svartfjallaland.

Ekki er alveg ljóst hvaða þjóðir verða nákvæmlega í fjórða styrkleikaflokki þar sem forkeppni hefur ekki farið fram til þess að grisja úr hópnum. En meðal þeirra þjóða sem ljóst er að verða í fjórða flokki má nefna Holland, Hvíta-Rússland, Rúmeníu, Eistland, Sviss og Bosníu-Hersegóvínu.