Var upplýstur Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra.
Var upplýstur Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra. — Morgunblaðið/Ómar
Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, sagði á Alþingi í gær, að honum og efnahags- og viðskiptaráðuneytinu hefði verið gerð grein fyrir því ferli, sem stjórn Fjármálaeftirlitsins hafði sett mál Gunnars Andersen forstjóra í.

Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, sagði á Alþingi í gær, að honum og efnahags- og viðskiptaráðuneytinu hefði verið gerð grein fyrir því ferli, sem stjórn Fjármálaeftirlitsins hafði sett mál Gunnars Andersen forstjóra í.

Sagði Steingrímur að þetta hefði m.a. verið umræðuefni á fundi hans og Aðalsteins Leifssonar, stjórnarformanns Fjármálaeftirlitsins, í síðustu viku. „En það var eingöngu í upplýsingarskyni til að upplýsa ráðuneytið um það ferli, sem stjórnin væri með þessi mál í, en ekki til að ráðuneytið hefði af því afskipti,“ sagði Steingrímur.

Hann var að svara fyrirspurn frá Gunnari Braga Sveinssyni, þingmanni Framsóknarflokks, sem vildi fá upplýsingar um fund Steingríms og Aðalsteins í ljósi ummæla Steingríms í blaðaviðtali um að hann hefði frétt af uppsögn Gunnars Andersen, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, í fjölmiðlum 17. febrúar.

„Ég sagðist ekki hafa vitað af því að uppsögn hefði farið fram fyrr en ég heyrði um slíkt í fjölmiðlum enda kom á daginn, að það var ekki rétt. Forstjóra Fjármálaeftirlitsins hefur ekki verið sagt upp heldur hefur stjórn (FME) rætt við hann um hugsanleg starfslok,“ sagði Steingrímur.

Hann ítrekaði, að samskipti formanns og varaformanns FME við ráðuneytið hefðu eingöngu verið að upplýsa um það ferli, sem verið hefði í gangi á vegum stjórnar stofnunarinnar, þar á meðal að afla álitsgerða frá lögmönnum. Á fundinum hefði komið fram, að á grundvelli þeirra álitsgerða yrði rætt við forstjórann og reynt að leysa úr málinu í samræmi við það sem stjórn FME teldi efni standa til. gummi@mbl.is