Páll Arnar Georgsson fæddist í Vestmannaeyjum 4. mars 1958. Hann lést á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum 12. febrúar 2012.

Hann var sonur Georgs Stanleys Aðalsteinssonar og Arndísar Pálsdóttur.

Fyrrverandi eiginkona hans er Guðrún Jóna Reynisdóttir og áttu þau saman Reyni, f. 1978 og Arndísi, f. 1982, barnabörnin eru fjögur.

Páll kláraði grunnskólann í Eyjum og fór að honum loknum í Vélskólann í Vestmannaeyjum þaðan sem hann útskrifaðist sem vélstjóri. Hann fór fljótlega á sjóinn sem vélstjóri og reri bæði með föður sínum og Heiðari bróður sínum ásamt fleirum. Hann vann ötullega að ýmsum félagsstörfum, var í Björgunarfélagi Vestmannaeyja, Skátafélaginu Faxa, var trúnaðarmaður hjá verkalýðsfélaginu Drífandi, var í mótorhjólaklúbbnum Drullusokkum o.fl. Síðustu áratugina vann hann í Fiskimjölsverksmiðjunni FES í Vestmannaeyjum.

Útför Páls fór fram frá Landakirkju 18. febrúar 2012.

Ég man fyrst eftir Palla þegar hann rak vídeóleigu heima í Eyjum og ég sem peyi var að þvælast þar að leigja myndir. Í kring um 1985 lágu síðan leiðir okkar saman þegar hann gekk í Björgunarfélag Vestmannaeyja. Það má segja um Palla að þegar hann tók sér eitthvað fyrir hendur þá hellti hann sér af fullum krafti út í það og þannig var um starfið hans hjá Björgunarfélaginu. Þær voru ófáar æfingarnar og ferðirnar sem við Palli fórum saman á og margar minningar sem koma upp í kollinn þegar ég hugsa til baka, vaktir á Þjóðhátíð standa þar kannski einna helst upp úr.

Seinna meir störfuðum við um allnokkurt skeið saman í dyravörslu og vorum því ekki óvanir því að vinna saman á ýmsum vettvangi.

Eftir að ég flutti frá Eyjum var það fastur liður að kíkja í kaffi þegar ég kom heim og alloft kíktum við á kaffihús þegar hann kom í borgina. Þar gátum við setið og rifjað allt það sem við höfum brallað saman í gegn um tíðina.

En eftir sitja minningar um góðan félaga sem kvaddi allt of snemma.

Elsku Reynir, Arndís, Stanley og Heiðar. Ég votta ykkur samúð mína og vona að góður Guð veiti ykkur styrk á þessum erfiðu tímum.

Takk fyrir samveruna, vinur.

Aðalsteinn.