Gunnlaugur Búi Sveinsson, fyrrverandi varðstjóri í Slökkviliði Akureyrar, er áttræður í dag. „Ég ætlaði nú bara að vera í rólegheitum og fela mig,“ segir Gunnlaugur þegar spurt er hvernig hann haldi upp á daginn.

Gunnlaugur Búi Sveinsson, fyrrverandi varðstjóri í Slökkviliði Akureyrar, er áttræður í dag. „Ég ætlaði nú bara að vera í rólegheitum og fela mig,“ segir Gunnlaugur þegar spurt er hvernig hann haldi upp á daginn. Hann sjái hins vegar ekki fram á að komast upp með það. Dætur hans og konan hafi eitthvað verið að pukra og haldið verði upp á daginn hjá annarri dótturinni „Það verður engum boðið en allir velkomnir,“ segir Gunnlaugur. Afmælisveislan hefjist upp úr fjögur í dag. Gunnlaugur segist ekki mikið fyrir að halda upp á afmælið sitt. „Ég gerði það þegar ég varð sjötugur og ég ætlaði að láta það nægja. Það var ekkert víst að maður lifði til áttræðs,“ segir Gunnlaugur léttur í bragði.

Gunnlaugur var lengi í Slökkviliði Akureyrar. „Ég var fyrst í vélvirkjun og var í 14 ár í smiðju. Svo náði ég í yndislega konu og á með henni þrjú börn. Þá hætti ég þar og fór að vinna hjá bænum í slökkvistöðinni.“ Gunnlaugur gekk í Félag aldraðra þegar hann hætti hjá slökkviliðinu. Þar hefur hann fengist við að skera út en hann segist búinn með félagsmálapakkann. „Ég er orðinn svo heimakær að ég vil helst vera bara heima,“ segir Gunnlaugur. sigrunrosa@mbl.is