Á Bessastöðum Fjöldi stuðningsmanna forsetans var viðstaddur þegar Guðni Ágústsson og Baldur Óskarsson afhentu honum undirskriftirnar. „Það er ríkur vilji á bak við það að ég breyti ákvörðun minni,“ sagði forsetinn m.a.
Á Bessastöðum Fjöldi stuðningsmanna forsetans var viðstaddur þegar Guðni Ágústsson og Baldur Óskarsson afhentu honum undirskriftirnar. „Það er ríkur vilji á bak við það að ég breyti ákvörðun minni,“ sagði forsetinn m.a. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.
Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Miklar annir frá áramótum og utanferðir, meðal annars sigling á suðurskautið, hafa valdið því að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur hvorki haft tíma né tóm til að ákveða hvernig hann bregðist við áskorun ríflega 31.000 stuðningsmanna um að bjóða sig fram á ný.

Á þennan veg má draga saman fund forsetans á Bessastöðum í gær, þar sem hann veitti ríflega 30.000 undirskriftum stuðningsmanna sinna viðtöku með áskorun um að bjóða sig fram 5. kjörtímabilið í röð, og svo langan blaðamannafund í kjölfarið þar sem hann útskýrði í ljósi sögunnar af hverju hann tæki áskorunina alvarlega.

Þjóðin tekur ákvörðun

„Þegar kemur að spurningunni um forsetakjör er það ekki vilji einhverra hugsanlegra frambjóðenda eða...einstaklinga eða fjölmiðla sem ræður för eða skiptir máli. Heldur er það merkilegur þáttur í okkar lýðræðiskerfi að þjóðin tekur þessi mál til umfjöllunar sjálf, Íslendingar á heimilum sínum, á vinnustöðum, heima í héraði. Og smátt og smátt myndast ákveðinn þungi í þeirri umræðu þar sem vilji [og] viðhorf hluta þjóðarinnar birtist með ákveðnum hætti að baki ákveðnum einstaklingi.

Menn geta meðal annars flett því upp í því ágæta blaði... Alþýðublaðinu frá...11. janúar 1996 þegar ég lýsti því yfir þeirri skoðun minni þá að þjóðin myndi sjálf finna sér forsetaefni við hæfi... Ásgeir Ásgeirsson ýtti sinni kosningabaráttu árið 1952 úr vör með þeim orðum að fólkið veldi forsetann. Ég hef alltaf borið mikla virðingu fyrir þessum vilja þjóðarinnar og það að hún þyrfti sjálf að fá tíma og tóm til þess að fjalla um þessi mál,“ sagði Ólafur Ragnar sem boðar ákvörðun fyrir eða eftir helgi.

Hefði viljað sjá frambjóðendur

„Ég hefði satt að segja óskað eftir því að bæði ég og þjóðin þyrftum ekki að vera nú í lok febrúar í þessum sporum, heldur hefði á undanförnum vikum eða mánuðum myndast...ríkur vilji að baki tveggja eða þriggja frambjóðanda sem...gætu axlað þá ábyrgð sem felst í embætti forseta.“

FORSETAHJÓNIN HUGÐUST FLYTJA Í MOSFELLSBÆ

Var ákveðinn að hætta

Ólafur Ragnar ítrekaði að í nýársávarpi sínu hefði hann skýrmerkilega gert grein fyrir þeirri ákvörðun sinni að láta af embætti í sumar. Fjölmiðlar hefðu hins vegar skapað þá umræðu að hann hefði ekki útilokað að sækjast áfram eftir embættinu, stæði vilji þjóðarinnar til þess. Þau hjónin Dorrit Moussaieff og fjölskyldan hefðu komið sér saman um áform og áætlanir sem þyrfti að breyta ef hann gæfi kost á sér á ný. Minnti forsetinn svo á síðar á fundinum að þau hjónin hefðu haft í hyggju að hefja nýtt líf í Mosfellsbæ þar sem þau hafa fest kaup á einbýlishúsi. „Og ég vonaði satt að segja þegar þessi umræða fór að þróast í janúar á þennan veg – og eftir því sem leið á þann mánuð og þegar ég kom aftur frá Suðurskautslandinu – að þessi þungi í þessari kröfu myndi einhvern veginn fjara út og ég þyrfti ekki að standa í þessum sporum, að ég þyrfti ekki að taka þetta aftur til skoðunar.“