Mæðgurnar Courtney Love og Frances Bean Cobain.
Mæðgurnar Courtney Love og Frances Bean Cobain.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í blóði Cobains fundust leifar af heróíni og diezepam og í grennd við líkið nokkuð langt bréf sem túlkað var sem sjálfsvígsorðsending.

Í byrjun mars árið 1994 var Kurt Cobain, forsprakki einnar vinsælustu rokkhljómsveitar heims, Nirvana, fluttur í skyndi á spítala í Rómaborg eftir að hafa ætlað sér um of í neyslu áfengis og lyfja. Eiginkona hans, söngkonan Courtney Love, hafði komið að honum meðvitundarlausum. Cobain rankaði fljótlega við sér en var áfram á spítalanum næstu fimm daga undir eftirliti lækna en hann þjáðist einnig af lungnakvefi og barkabólgu. Að því búnu var hann útskrifaður og flaug heim til Seattle í Bandaríkjunum. Síðar lýsti Love því yfir að þetta hefði verið fyrsta tilraun bónda síns til að svipta sig lífi en hann glímdi á þessum tíma við geðraskanir, auk þess sem hann var fram úr hófi sólginn í fíkniefni.

Love hafði miklar áhyggjur af Cobain og 18. mars 1994 hringdi hún í lögreglu og tilkynnti að hann hefði læst sig inni í herbergi á heimili sínu með haglabyssu. Lögregla kom á vettvang og gerði einhverjar byssur og lyf upptæk. Þokkalega lá hins vegar á Cobain sem tjáði lögreglu að hann væri aðeins að fela sig fyrir Love.

Undir lok mánaðarins reyndu Love og nokkrir af nánustu vinum Cobains að fá hann til að rita sig inn í áfengis- og fíkniefnameðferð. Tók hann þeirri umleitan illa í fyrstu en samþykkti á endanum að láta slag standa. Þegar Cobain kom á meðferðarstofnunina í Los Angeles 30. mars virkaði hann í prýðilegu formi, ræddi vanda sinn fjálglega við starfsfólk og lék við eins og hálfs árs gamla dóttur sína, Frances Bean. Það reyndist hinsti fundur þeirra feðgina.

Kvöldið eftir skrapp Cobain út í garð til að fá sér sígarettu. Þar með var meðferðinni lokið en söngvarinn notaði tækifærið til að klifra yfir girðingu við stofnunina og láta sig hverfa. Hann tók leigubíl út á flugvöll og flaug aftur heim til Seattle. Á leiðinni sat hann við hliðina á Duff McKagan, bassaleikara Guns N' Roses, og enda þótt ágætlega færi á með þeim skynjaði McKagan að ekki var allt með felldu. Það upplýsti hann síðar.

Næstu daga sást Cobain hér og þar í Seattle en hvorki Love né nánustu vinir hans vissu hvar hann hélt til. 3. apríl sá Love sig tilneydda að ráða einkaspæjara til að freista þess að hafa uppi á eiginmanni sínum. Nirvana átti að koma fram á Lollapalooza-tónlistarhátíðinni 7. apríl en afboðaði, þar sem enginn var söngvarinn.

Degi síðar, 8. apríl 1994, knúði rafvirki dyra á húsi Cobains í Lake Washington. Hann var þangað kominn til að setja upp öryggiskerfi. Enginn svaraði en þar sem rafvirkinn sá mann liggja hreyfingarlausan á gólfinu með haglabyssu í fanginu gerði hann lögreglu viðvart.

Maðurinn, sem reyndist vera Kurt Cobain, var látinn og komst réttardómstjóri að þeirri niðurstöðu að hann hefði dáið þremur dögum áður. Rannsókn á andlátinu leiddi í ljós að um sjálfsvíg hefði verið að ræða. Í blóði Cobains fundust leifar af heróíni og diezepam og í grennd við líkið nokkuð langt bréf sem túlkað var sem sjálfsvígsorðsending. Í bréfinu, sem stílað var á ímyndaðan vin Cobains, „Boddah“, segir meðal annars: „Ég hef ekki notið þess að hlusta á og skapa tónlist... í of mörg ár núna.“ Love las hluta bréfsins við minningarathöfn sem haldin var um Cobain tveimur dögum síðar. Þar dreifði hún einnig hluta af klæðum hans.

Ýmsar samsæriskenningar hafa verið um dauða Kurts Cobains, eins og jafnan þegar frægt fólk fellur frá í Bandaríkjunum, en ekki hefur tekist að hrekja þá niðurstöðu að hann hafi fallið fyrir eigin hendi.

Cobain var aðeins 27 ára er hann lést. Hann var rokkelskum harmdauði enda einn áhrifamesti tónlistarmaður sinnar kynslóðar. Líf hans, einkum seinni árin, einkenndist á hinn bóginn af vanlíðan og sennilega hefur fósturfaðir Cobains, Dave Reed, hitt naglann á höfuðið: „Það skipti engu máli þótt annað fólk elskaði hann; hann unni sjálfum sér einfaldlega ekki nóg.“

orri@mbl.is