Helga Þóra í snyrtingu að morgni dags.
Helga Þóra í snyrtingu að morgni dags.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvorki meira né minna en þrennir tvíburar fermdust í Neskirkju á laugardagsmorgni um síðustu helgi. Sunnudagsmogginn fylgdist með einum þeirra, Ólafi Hauki og Helgu Þóru Kristinsbörnum, frá morgni til kvölds. Ljósmyndir: Kristinn Ingvarsson kring@mbl.is Texti: Skapti Hallgrímsson skapti@mbl.is

Já! svöruðu systkinin Helga Þóra og Ólafur Haukur, eins og önnur börn, þegar séra Örn Bárður Jónsson í Neskirkju spurði hvort þau vildu leitast við að gera Jesú Krist að leiðtoga lífs síns.

„Þessi dagur var í mínum huga mjög þýðingarmikill enda tek ég fermingarheitið alvarlega,“ segir Ólafur Haukur og fjölskyldan öll var gríðarlega ánægð og stolt.

Ólafur Haukur og Helga Þóra fæddust 5. desember 1998. Móðir þeirra er Helga Guðrún Johnson og Kristinn Gylfi Jónsson er faðir þeirra. Að auki eiga Helga Guðrún og Kristinn Gylfi þau Auði, sem er tvítug, og Jón Bjarna, sem er 18 ára.

Mikið tilstand

Fjölskyldan tók daginn snemma eins og nærri má geta. Fjölskylduvinurinn Arna Guðrún Þorsteinsdóttir var svo elskuleg að stökkva á fætur í dagrenningu, eins og Helga Guðrún orðaði það, til að greiða Helgu Þóru, sem fékk bæði fléttur og slöngulokka. Stóra systir púðraði hana svolítið og puntaði áður en hún skellti sér í fermingarkjólinn. Lánaði henni svo hvítt pelsdýr um hálsinn í stað kápu, en veðrið var einstaklega milt og stillt svo engin þörf var á yfirhöfn.

„Ég hef aldrei áður upplifað svona mikið tilstand. Hárgreiðsla og förðun og hvaðeina,“ segir Helga Þóra. „En ég get ekki sagt annað en að ég hafi haft mjög gaman af þessu. Mér fannst athöfnin í kirkjunni mjög hátíðleg og eftirminnileg. Veislan var líka vel heppnuð og færði fjölskyldurnar saman. Ég þekkti ekki nærri alla; sumir spurðu hvort ég myndi eftir þeim en ég gat ekki alltaf staðfest það. Ég er nú ekki vön að vera miðja athyglinnar hjá fullorðnum svo mér fannst eiginlega betra að við skyldum deila sviðsljósinu, ég og Óli.“

Minna umstang fylgir drengjum á svona stórhátíðum. Óli Haukur smellti sér í sparifötin og naut aðstoðar stóra bróður við að laga bindishnútinn. Fékk svo góðan herrailm og smágel í makkann og þá var hann líka klár í slaginn.

Athöfnin í Neskirkju hófst kl. 11. Prestur var séra Örn Bárður Jónsson og voru fermingarbörnin 26 að tölu, þar af þrennir tvíburar!

Fermingarmessan var mjög hátíðleg og ekki annað að sjá en börnin tækju heit sín alvarlega. Þó var létt og notalegt andrúmsloft í kirkjunni og þegar altarisgöngu fermingarbarnanna og aðstandenda var lokið gengu kirkjugestir út í vorið undir djassaðri útgáfu af Ég er sko vinur þinn úr Toy Story.

Kaffiveisla

Helga Þóra og Ólafur Haukur völdu að bjóða sínu fólki til hefðbundinnar kaffiveislu sem haldin var í sal í íbúðarblokk sem amma þeirra býr í. Þangað komu um 90 gestir og nutu góðra veitinga. Í einu horni salarins rúllaði myndasyrpa af þeim systkinum frá fyrstu tíð og fram að síðustu innleggjum á facebooksíður þeirra.

Undirbúningur veislunnar hafði að mestu hvílt á herðum móður þeirra sem stóð í ströngu dagana á undan við að baka, elda, hræra, skreyta, þvo og strauja. Hún naut reyndar ómetanlegrar aðstoðar vinkvenna sinna bæði daginn áður en ekki síður í veislunni sjálfri. Þarna var kominn hluti af Mósunum, sex kvenna félagsskap sem varð til eftir að þær unnu saman á Stöð 2. Fyrir utan Helgu Guðrúnu er hópurinn skipaður þeim Kristínu Helgu Gunnarsdóttur (sem reyndar var fjarverandi að þessu sinni), Telmu Tómasson, Önnu Katrínu Guðmundsdóttur, Katrínu Lovísu Ingvadóttur og Huldu Gunnarsdóttur. Þær hafa þann háttinn á að hjálpa hver annarri þegar mikið stendur til en sú síðastnefnda slapp við að setja upp svuntuna í þetta skiptið enda boðin í veisluna með pomp og prakt, manni og börnum.

Þegar síðustu gestirnir voru farnir hjálpuðust allir að við að ganga frá, kyssa ömmu bless og halda heim með endalausa tertuafganga, rúllutertubrauð, kransakökubita, marens og majónes í löngum bunum, blóm úr vösum, pakka og pinkla.

Ræðan heppnaðist ekki alveg!

Heima komu menn sér svo þægilega fyrir, kveiktu á kertum og fylgdust með Helgu og Óla taka upp gjafirnar sínar. Þau voru himinlifandi og þakklát fyrir það sem upp úr pökkum og umslögum kom.

Þegar kom að því að skríða í bólið voru menn fljótir að sofna, þreyttir en ánægðir með daginn.

Fermingardrengurinn Óli Haukur á lokaorðin: „Mér fannst æðislegt að svona margir skyldu koma til að fagna með mér á þessum stóra degi í lífi mínu. Ég þekkti reyndar ekki alveg alla gestina, en mér fannst gaman að sjá að allir skemmtu sér vel. Við systkinin ætluðum að halda stórkostlega ræðu en hún heppnaðist ekki alveg! Enginn gerði samt mikið úr því, nema vinur minn sem stríddi mér á því allan daginn...“

Mósurnar sjá um matinn

Þær kalla sig Mósurnar; sex konur sem störfuðu saman á Stöð 2 um lengri eða skemmri tíma. „Nafnið varð til þegar við fórum að gera mósaík saman, en við erum löngu hættar því! Nú göngum við saman á fjöll, förum á skíði og veiðum. Og svo aðstoðum við hver aðra á stórum stundum,“ segir Helga Guðrún Johnson, ein sexmenninganna.

Mósurnar eru, auk Helgu Guðrúnar; Hulda Gunnarsdóttir, Katrín Lovísa Ingvadóttir, Anna Katrín Guðmundsdóttir, Soffía Sóley Helgadóttir, Kristín Helga Gunnarsdóttir og Telma Tómasson.

Það hefur verið metnaðarmál hjá þessum félagsskap að skrýðast fallegum svuntum við embættisstörf og keypti Kristín Helga forláta klæði af því tagi fyrir nokkrum árum og þóttu þær sérlega lekkerar. „Svo mjög að okkur hefur verið líkt við stúlkurnar á d'Angleterre hér á árum áður. En svo gerðust þær hörmungar að svunturnar hurfu! Gersamlega eins og hótelstjórinn á d'Angleterre hefði numið þær á brott að lokinni síðustu veislu.“

Mikil leit hefur farið fram í línskápum Mósanna en án árangurs. Þær urðu því að klæðast nýjum svuntum – alls ekki eins virðulegum, að sögn Helgu Guðrúnar, á fermingardegi tvíburanna. Það mun ekki hafa komið að sök!

„Annars kalla Mósur sig helst Múlasystur þegar þær uppvarta; eða Holy Moses þegar um fermingar er að ræða!“ segir Helga Guðrún.