Skipsflak Erlendur Guðmundsson kafari kom niður á leifar herskipsins Tordenskjolds á botni Siglufjarðar. Þar mátti m.a. greina litla fallbyssu.
Skipsflak Erlendur Guðmundsson kafari kom niður á leifar herskipsins Tordenskjolds á botni Siglufjarðar. Þar mátti m.a. greina litla fallbyssu. — Ljósmyndir/Erlendur Guðmundsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ingveldur Geirsdóttir ingveldur@mbl.is „Ég er með í huga vel á þriðja hundrað skipsflök í kringum landið sem mig langar til að finna.

Sviðsljós

Ingveldur Geirsdóttir

ingveldur@mbl.is

„Ég er með í huga vel á þriðja hundrað skipsflök í kringum landið sem mig langar til að finna. Ég er búinn að vera að skrá flök síðan ég man eftir mér, alltaf verið að grafa upp heimildir og leita síðan ég byrjaði að kafa árið 1985,“ segir Erlendur Guðmundsson, atvinnukafari á Akureyri.

Erlendur fann síðasta laugardag leifar hins mikla herskips Tordenskjolds á botni Siglufjarðar þar sem það hefur legið í nærri 90 ár. Hann hefur stefnt að því að finna flakið í nokkurn tíma og eftir mikla heimildarvinnu tók það hann tvær kafanir á laugardaginn. „Ég var búinn að vera að skoða heimildir með Örlygi [Kristfinnssyni safnstjóra] á Síldarminjasafninu og fann í fyrra skrokk hákarlaskipsins Lata-Brúns inn á Siglufirði. Það er eitt fyrsta þilskip Íslendinga. Eftir að ég fann það fórum við að huga að því að það væri gaman að finna Tordenskjold. Ég sökkti mér í heimildarvinnu og það tók stuttan tíma að finna skipið þegar upp var staðið,“ segir Erlendur. Tordenskjolds hefur áður verið leitað, fyrir tveimur til þremur árum að sögn Erlendar en ekkert fannst þá.

Skipið var dregið til Íslands á sínum tíma, eftir að það lauk hernaðarhlutverki sínu hjá danska flotanum, og var notað sem lagerskip í síldarhöfninni á Siglufirði. Það var 50,4 m á lengd og 12,9 m á breidd, 1.453 tonn og bar upphaflega 44 fallbyssur. Erlendur segir stærð flaksins sem hann fann passa við þessi mál og önnur söguleg atriði staðfesta að þarna liggur Tordenskjold.

Ekki mjög illa farið flak

Miðað við þau hátt í hundrað ár sem skipið hefur legið á hafsbotni segir Erlendur það nokkuð vel farið. „Í fyrri köfuninni sá ég bara grjóthrúgur og var að velta fyrir mér hvort skipið væri komið á kaf í sand, en í seinni köfuninni kom ég að einhverju timbri og sá að það var skipið. Ég skoðaði vel í kringum það og sá að rassinn á því stóð tvo metra upp úr sandi. Skipið er vel brotið niður en ekki það illa farið enda um mjög verklegt skip að ræða. Mikið af viðnum í skipinu er eins og hann sé heill enda bitarnir þykkir. Þetta er spennandi og verður gaman að hreinsa frá flakinu og sjá hvort það er meira að finna þarna,“ segir Erlendur. Til að hreinsa frá hlutum á sjávarbotni hefur hann smíðað sér sérstaka sugu, hálfgerða ryksugu, sem dælir sandi 20-30 metra í burtu.

Erlendur hefur fundið nokkur skip við Íslandsstrendur. Auk Tordenskjolds og Lata-Brúns fann hann sykurskipið Es Vitre við Leirboða og eitt af elstu skipum sem hafa fundist við Ísland við Flatey á Breiðafirði árið 1991. Það var hollenskt kaupskip sem sökk 1659. Erlendur segir það hafa verið stærsta fund sinn hingað til en eftir því komi Tordenskjold, fyrrverandi flaggskip danska flotans.

Köfun fyrir ferðamenn

Í kjölfarið á fundinum á Tordenskjold segist Erlendur sjá fyrir sér að þangað niður væri hægt að fara með ferðamenn í köfun. „Það er margt fólk erlendis sem hefur áhuga á skipsflökum. Þegar búið er að hreinsa frá skipinu yrði gaman að fara að því með ferðamenn en bara til að mynda, ekki snerta. Næsta skref er annars að fara að því með fornleifanefnd og athuga hvort það sé eitthvað þarna sem þeir vilja fá á Síldarminjasafnið,“ segir Erlendur.

Hann tekur bæði ljósmyndir og vídeómyndir af flökunum sem hann finnur. „Ég er að fá betri myndavél en ég er með núna og þá fer ég aftur niður að öllum flökunum og mynda þau betur,“ segir Erlendur sem mætti jafnvel kalla Indiana Jones-hafsins.