Ég hef minnst hér áður á grýlu, sem kaffihúsamönnum í Reykjavík varð tíðrætt um á árum áður, eins og Jón Óskar rithöf undur lýsir í endurminningum sínum. Hún kallaðist „Morgunblaðslygin“. En til var önnur grýla, sem sömu menn hæddust óspart að: „Rússagrýlan,“ sem ætti sér enga stoð í veruleikanum, enda aðeins Morgunblaðslygi.
Fyrst kom orðið fyrir, svo að ég viti, í fyrirsögn leiðara Þjóðviljans 22. mars 1946, en oft eftir það.
Töldu margir, að viðbúnaður við landvinningastefnu Kremlverja væri ekki aðeins ástæðulaus, heldur einnig hlægilegur. Þegar Matthías Johannessen, ritstjóri Morgunblaðsins , birti sumarið 1968 í blaði sínu dagbókarbrot úr veiðiferðum og lýsti þar áhyggjum af framkomu Kremlverja við Tékkóslóvaka, skrifaði Sverrir Hólmarsson bókmenntafræðingur skopstælingu í Frjálsa þjóð : „Nú finn ég á mér, að Rússar eru um það bil að ráðast inn í Tékkóslóvakíu. Guð hjálpi Tékkum.“
Dátt var eflaust hlegið á ritstjórnarskrifstofu Frjálsrar þjóðar , þegar þetta birtist þar 15. ágúst 1968. Væntanlega var hláturinn þagnaður fimm dögum síðar, en Rauði herinn rússneski réðst inn í Tékkóslóvakíu aðfaranótt 21. ágúst 1968.
Árni Björnsson þjóðháttafræðingur benti síðan á það í Rétti 1973, að Kremlverjar hefðu aðeins verið uppivöðslusamir í Austur-Evrópu: „En hvers vegna hafa þeir haldið sig á þessu tiltölulega litla svæði, ef þeir eru svo útþenslusamir, en ekki ólmast inn í þau mörgu hernaðarlega veiku lönd, sem liggja umhverfis hin víðlendu Sovétríki og hafa þó ekki verið í neinu hernaðarbandalagi við Bandaríkin? Sem dæmi skulu nefnd Indland, Afganistan, Írak, Júgóslavía og Austurríki.“ Árni svaraði sjálfum sér: „Ástæðan er ofureinföld. Það hefur alltaf verið lygi, að árás frá Sovétríkjunum væri yfirvofandi.“
Samtök herstöðvaandstæðinga gáfu ritgerð Árna út sérprentaða. Ekki fylgir sögunni, hvort dreifingin var stöðvuð á jólum 1979, þegar Rauði herinn réðst inn í Afganistan.
Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar
Hannes H. Gissurarson
hannesgi@hi.is