Halldóra Bjarnadóttir fæddist á Bíldudal 16. júní 1935. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi 27. apríl 2012. Foreldrar Halldóru voru Bjarni Pétursson, sjómaður á Bíldudal, f. 27. janúar 1909, d. 17. febrúar 1943, og Hólmfríður Jónsdóttir, húsfreyja á Bíldudal og síðar á Sveinseyri í Tálknafirði, f. 3. febrúar 1911, d. 19. janúar 2010. Systkini Halldóru eru Pétur Bjarnason í Reykjavík, kona hans er Greta Jónsdóttir og Guðríður Birna Jónsdóttir, Sveinseyri, Tálknafirði, maður hennar er Hannes Bjarnason. Hinn 20. desember 1958 giftist Halldóra Magnúsi Guðmundssyni, bónda á Kvígindisfelli í Tálknafirði, f. 23. maí 1931. Foreldrar Magnúsar voru Guðmundur Kristján Guðmundsson, bóndi á Kvígindisfelli, f. 6. maí 1890, d. 6. febrúar 1969, og kona hans Þórhalla Oddsdóttir, f. 12. júlí 1899, d. 3. ágúst 1997. Börn Halldóru og Magnúsar eru 1) Lilja, f. 14. ágúst 1960, 2) Hugrún, f. 21. desember 1961, maki hennar er Salvar Baldursson, f. 5. september 1960. Börn þeirra eru: a) Snorri, f. 1981, maki: Dagný Sverrisdóttir, f. 1983, börn þeirra eru Amalía Rún, Salvar Óli og Eva Kristín. b) Magnús, f. 1982, maki: Nína Dís Ólafsdóttir, f. 1985, barn þeirra er Haukur Leó. c) Bjarni, d) Sigríður. 3) Bjarni, f. 8. mars 1964, maki hans er Sigrún Ólafsdóttir, f. 20. desember 1965, börn þeirra eru: a) Andri Már, f. 1986, b) Sandra Lind, f. 1993. Dóttir Sigrúnar er Birna Rán, f. 1982. 4) Aðalsteinn, f. 5 apríl 1966, maki hans er Jóna Valdís Guðjónsdóttir, f. 1. febrúar 1973, börn þeirra eru: a) Guðrún Ósk, f. 2001, b) Halldóra, f. 2003, c) Margrét Lilja, f. 2004 og d) Ólöf Harpa, f. 2006. Halldóra ólst upp á Bíldudal til ellefu ára aldurs en fluttist þá að Sveinseyri í Tálknafirði þegar Hólmfríður móðir hennar giftist seinni manni sínum, Jóni Guðmundssyni, bónda á Sveinseyri í Tálknafirði, f. 14. apríl 1905, d. 13. júlí 1994. Halldóra var við nám í Gagnfræðaskólanum á Laugarvatni og í Húsmæðraskólanum á Laugalandi í Eyjafirði. Hún vann í Hraðfrystihúsi Tálknafjarðar þar til hún fluttist með Magnúsi manni sínum að Kvígindisfelli árið 1959 þar sem þau tóku við búskap af foreldrum hans. Halldóra var húsfreyja á Kvígindisfelli til dauðadags en vann í nokkur ár í fiskvinnu eftir að þau hjónin hættu sauðfjárbúskap 1991. Halldóra starfaði með Kvenfélaginu Hörpu í Tálknafirði frá upphafi félagsins og til dauðadags. Hún sat í sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps eitt kjörtímabil og í stjórn Félags eldri borgara í Barðastrandarsýslu. Jarðarför Halldóru verður gerð frá Tálknafjarðarkirkju í dag, 12. maí 2012, og hefst athöfnin kl. 14.

Þegar ég var 11 ára að aldri var ég send í sveit vestur í Tálknafjörð. Þar átti ég að gæta þriggja ungra barna og vera ungu húsmóðurinni Halldóru Bjarnadóttur til aðstoðar við heimilisstörfin. Foreldrar mínir höfðu svarað auglýsingu í blaði þar sem óskað var eftir barnfóstru í sveit. Í ljós kom að tengdaforeldrar Halldóru höfðu veg og vanda að ráðningunni þar sem þau voru stödd í Reykjavík að leita sér lækninga. Það voru öndvegishjónin Þórhalla Oddsdóttir og Guðmundur Kristján Kristjánsson sem varð sautján barna auðið á árunum 19171943 og bjuggu farsælu búi á Kvígindisfelli í Tálknafirði. Þrettán barna þeirra lifa enn, en ég átti eftir að kynnast mörgum þeirra síðar meir. Einn sona þeirra, Magnús, tók við búi foreldranna ásamt Halldóru eiginkonu sinni og deildu þau heimili með gömlu hjónunum áralangt. Þann 19. maí 1965 sigldi ég full tilhlökkunar með Esjunni til Tálknafjarðar ásamt prúðbúnum tengdaforeldrum hennar, Þórhalla á peysufötum og Guðmundur í svörtum jakkafötum. Þetta var löng sigling fyrir litla stelpu sem vissi ekki hvað beið handan við Breiðafjörðinn í framandi firði hjá ókunnugu fólki.

Eftir sextán tíma siglingu með klukkutímastoppi á Patreksfirði lagðist Esjan loks að bryggju í Tálknafirði. Þar beið Magnús bóndi og sveitapóstur á Willysjeppa til að taka á móti foreldrum sínum og nýju barnfóstrunni úr Reykjavík. Jeppinn var fullur af tómum mjólkurbrúsum, póstpokum og nokkrum ullarreyfum en einhvern veginn tókst Magnúsi að koma okkur og öllum farangrinum fyrir. Síðan hófst síðasti spotti ferðalagsins, ferðin út að Felli eftir holóttum malarvegi sem lá milli brattra fjallshlíða og fallegrar strandlengju með gullnum fjörusandi. Eftir að hafa hossast í jeppanum enn lengra út með firðinum þar sem fagrir dalir blöstu við barnsaugum mínum kom lítið bæjarhúsið á Felli loks í ljós undir háu fjallinu sem bærinn er kenndur við. Þegar við renndum í hlaðið  tók Dóra á móti okkur með opinn faðminn, hávaxin, myndarleg kona, rjóð í vöngum og með mikið hrokkið hár og bros á vör, bros sem alltaf yljaði og aldrei hvarf. Hádegismaturinn stóð tilbúinn á borðum, soðin ýsa með ekta vestfirskum hnoðmör sem ég hafði aldrei smakkað áður en gerði mig um leið að sönnum Vestfirðingi eins og annað sem borið var á borð fyrir mig í eldhúsi Dóru. Auk mín höfðu Maggi og Dóra tekið að sér pilt á svipuðum aldri sem átti að aðstoða Magga við búverkin svo ekki skorti mig félagsskapinn þegar skyldustörfunum lauk á kvöldin. Þannig hófst mín fyrsta sumardvöl hjá Dóru og Magga á Felli sem varð upphafið að langri og traustri vináttu sem fól svo ótal margt í sér. Ekki aðeins var mér sýnd umhyggja, virðing og manngæska hjá Dóru og þeim hjónum báðum, heldur var ég alltaf velkomin að Felli. Hús þeirra hjóna voru ekki aðeins opin mér, heldur einnig vinum mínum sem ég hef marga hverja lokkað með mér vestur í Tálknafjörð til að sýna þeim mína æskudýrð. Dóra var einstaklega lagin við börn og bar virðingu fyrir þeim, þörfum þeirra og tilfinningum. Hún leiðbeindi þeim af þolinmæði og sýndi þeim skilning og hlýju. Og alls þessa naut ég borgarbarnið sem kom úr barnmargri fjölskyldu og var því send í sveit. Hún ýtti undir sjálfstraust mitt og veitti mér það nauðsynlega öryggi sem öll börn þurfa á að halda. Hún varð mér sem önnur móðir. Í hennar návist leið öllum vel, hún hafði létta lund, var hláturmild, skapgóð og yfirveguð.

Nú, þegar Dóra á Felli hefur kvatt þennan heim er mér bæði ljúft og skylt að minnast hennar og áratuga kynna sem fyrst og fremst einkenndust af gagnkvæmri væntumþykju, hlýju og virðingu. Ég var aðeins tvö sumur í sveit á Felli en bast Dóru og fjölskyldu hennar sterkum böndum og heimsótti hana með mislöngum hléum, jafnt sumur sem vetur. Og í því sambandi ber einnig að nefna móður Dóru, Hólmfríði sem bjó á Sveinseyri og ég kynntist ákaflega vel og tók mér sömuleiðis opnum örmum. Það var alltaf eins og að koma heim þegar komið var á Fell, nú síðast í fyrrasumar þegar ég dvaldi hjá Dóru og Magga í heila þrjá daga ásamt vinkonu minni sem þau höfðu aldrei áður hitt. Og enn stóðu hús þeirra hjóna opin, svo vinkona mín átti ekki orð yfir gestrisnina og móttökurnar. Enn var hlegið og gantast og rifjaðar upp gamlar minningar og sögur úr sveitinni, talað um þjóðmál, náttúruna, veðurfarið, skógræktina á gömlu túnunum, hvað skjólbeltin inn við Vindheima höfðu hækkað mikið frá því í síðustu heimsókn. Dóra fylgdist vel með öllu sem gerðist í náttúrunni í kringum hana og þekkti vel landið og jörðina sem hún gekk á. Eitt sumarið sem ég kom hafði breið gullin fjaran fyrir neðan bæinn næstum horfið eftir ágengt brimrót vetrarins og það þótti Dóru miður, ekki síst vegna þess að ég gæti þá ekki notið fjörunnar í stuttri heimsókn. Og silungurinn hafði líka horfið úr Fagradalsá, þangað sem við sumarbörnin fórum og veiddum stundum í soðið við fosshylinn. Sumrin voru hlýrri en áður, greinileg ummerki loftslagsbreytinga, það var meira um flugu, meiri þurrkur, minni úrkoma.  Í minningarathöfn um Dóru sem haldin var í Neskirkju hér í Reykjavík, var haft eftir nánustu aðstandendum hennar að ef hún hefði átt þess kost að fara í langskólanám, þá hefði hún annaðhvort lært jarðfræði eða fornleifafræði. Og það eru líklega orð að sönnu, Dóra hafði athugul augu, kynnti sér hluti og fyrirbæri og sóttist eftir fróðleik um náttúru og umhverfi. Á Felli skorti aldrei lesefni hvorki fyrir börn né fullorðna og sumrin löng lágum við börnin á maganum uppi í rúmi og lásum barnabækurnar sem Dóra hafði lesið á sínum æskuárum. Fyrsta sumarið á Felli fræddi Dóra mig um jarðfræði Vestfjarða og ekki síst um steingervingana sem höfðu fundist í Selárdal í Arnarfirði, næsta firði við Tálknafjörð. Sjálf átti hún steingerving með vel formuðu laufblaði af burkna sem mér þótti alltaf mikið undur.

Dóra lauk gagnfræðaprófi frá Héraðsskólanum á Laugarvatni og síðar gekk hún í húsmæðraskólann á Laugalandi í Eyjafirði og því verður ekki neitað, þrátt fyrir verklagni á mörgum sviðum, að fátt lék jafnvel í höndum hennar og matargerð. Búrhillurnar hennar Dóru svignuðu undan kræsingum hvenær sem mann bar að garði. Í fyrrasumar var boðið upp á heimalagaðar kjötbollur og steiktan steinbít sem velt var upp úr rúgmjöli og þegar gamla barnfóstran talaði með vatn í munninum um uppáhaldseftirréttinn úr sveitinni var hann umsvifalaust sóttur inn í búr, niðursoðnar rabarbararætur með þeyttum rjóma. Hún Dóra kunni ekki aðeins að búa til alls kyns góðgæti úr kjötmeti eins og lundabagga og rúllupylsu og steikja besta kola í heimi og annað sjávarfang, heldur kunni hún að nýta öll landsins gæði í nærumhverfi jarðarinnar sem fóstraði hana. Hún lagaði grasamjólk úr fjallagrösum sem hún tíndi sjálf, sauð berjasultur og saft af berjalynginu sem óx upp með Kvígindisfelli, bakaði franskbrauð með kúmeni sem hún tíndi af bæjarhlaðinu, svo ekki sé minnst á heimabökuðu vínarbrauðin og kökurnar. Og ég minnist þess þegar hún ræktaði möndlulaga kartöflur í fjörusandi inni í gömlum tóftum af bátsnausti í fjörunni fyrir neðan bæinn. Og hér á árum áður þegar enn voru mjólkandi kýr á Felli og ekki hægt að kaupa mjólkurafurðir nema skreppa vestur á Patreksfjörð, eins og Tálknfirðingar segja, var handsnúin skilvindan í búrinu notuð til að búa til heimsins besta rjóma og smjör.

Það er margs að minnast og margt að þakka eftir jafn löng kynni. Ótímabær og skyndilegur dauði hennar var mér sem öllum öðrum mikil harmafregn. Ég vil þakka henni fyrir allar góðu stundirnar, alla vináttuna og tryggðina. Þótt stundum liðu mörg ár milli heimsókna minna á Fell var þó alltaf einn fastur punktur í sambandi hennar við mig og það voru jólakortin frá Felli sem mér þótti alltaf jafn gaman að fá en í þeim sagði hún mér fréttir af þeim hjónum, búskapnum, veðurfari í firðinum, börnum og barnabörnum. Megi hún ástkær hvíla í friði. Ég sendi elskulegum eiginmanni hennar Magnúsi og börnum þeirra Dóru, þeim Lilju, Hugrúnu, Bjarna og Aðalsteini sem og systkinum hennar þeim Pétri og Birnu hugheilar samúðarkveðjur. Megi minningin um Dóru lifa í hjörtum okkar.

Hlín Agnarsdóttir.