Tómas Guðmundsson orti í kvæðinu „Nú er veður til að skapa“ um hnött, sem hlaðinn væri úr mannabeinum og púðri.

Tómas Guðmundsson orti í kvæðinu „Nú er veður til að skapa“ um hnött, sem hlaðinn væri úr mannabeinum og púðri. Þá voru Hitler og Stalín bandamenn eftir griðasáttmála þeirra í ágúst 1939:

Og alveg varð ég hissa

er herrann lét sér detta

í hug að nota þetta

handa foringjanum Hitler

og föður Jósef Stalín.

– Nú fá þeir að vera saman,

og rímsins vegna í peysum

frá prjónastofunni Malín.

En prjónastofan Malín var ekki aðeins nefnd til sögunnar „rímsins vegna“. Malín Ágústa Hjartardóttir, sem uppi var 1890-1988, var kunn dugnaðarkona í Reykjavík. Hún rak prjónastofu, sem hét eftir henni, á Laugavegi 20. Þar í bakhúsi héldu íslenskir nasistar, fylgismenn Hitlers, fundi sína snemma á fjórða áratug.

Malín kvað raunar á móti Tómasi:

Rímsins vegna rændir þú,

rótlaus maður,

peysum tveimur pakka úr

og puntaðir þá Hitler og Stalín,

en vita máttu þær voru ekki úr

vinnustofunni Malín.

Malín vildi ekki frekar en flestir aðrir Íslendingar koma nálægt þeim kumpánum Hitler og Stalín og hefur ekki ráðið því, hvað fram fór í bakhúsinu.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is