31. maí 2012 | Árnað heilla | 327 orð | 1 mynd

Merkir Íslendingar

Erlendur Guðmundsson í Unuhúsi

Erlendur Guðmundsson
Erlendur Guðmundsson
Erlendur Guðmundsson fæddist 31. maí 1891 í Mjóstræti í Reykjavík og ólst upp í Unuhúsi, Garðastræti 15, og bjó þar alla ævi.
Erlendur Guðmundsson fæddist 31. maí 1891 í Mjóstræti í Reykjavík og ólst upp í Unuhúsi, Garðastræti 15, og bjó þar alla ævi. Faðir hans var Guðmundur Jónsson frá Brún í Svartárdal í Húnavatnssýslu en móðir hans var Una Gísladóttir, fædd á Stóru-Giljá í Húnaþingi.

Hann var ætíð þekktur sem Erlendur í Unuhúsi. Húsið var kennt við Unu móður Erlendar þar sem hún hafði kostgangara í fæði og leigði út herbergi. Mæðginin höfðu mikinn áhuga á listum og menningu og var Unuhús þekkt sem miðpunktur menningar í upphafi 20. aldar. Ung skáld og listamenn auk fjölda annarra höfðu þar aðsetur, meðal annars Stefán frá Hvítadal, Steinn Steinarr, Halldór Laxness, Þórbergur Þórðarson, Louisa Matthíasdóttir og Nína Tryggvadóttir.

Helstu rithöfundar Íslands hafa keppst við að mæra Erlend í ritum sínum. Þórbergur skrifaði um Erlend í bókinni Í Unuhúsi, 1962, eftir frásögn Stefáns frá Hvítadal. Í minningarorðum Þórbergs um Erlend skrifar hann: „Erlendur var svo fágætur maður að gáfum og mannkostum að ég efast um að í allri sögu Íslendinga verði fundinn einn tugur manna sem væru honum jafnir.“ Jafnframt segir hann um persónugerð Erlendar að hann hafi verið með afbrigðum kurteis að eðlisfari, haft mjúka skapsmuni en búið þó yfir eitilhörku. Segja má að Þórbergur hafi átt Erlendi og Unu líf sitt að launa, því rigningasumarið mikla svalt Þórbergur nánast og tóku þau hann upp á arma sína.

Útlit Erlendar varð mönnum tíðrætt um og ber Halldór Laxness hann saman við Jesú Krist. Í Sjömeistarasögunni, 1978, segir hann um Erlend: „Þá kunni ég ekki mann að þekkja ef þetta var ekki frelsarinn sjálfur, meira að segja kliptur útúr biflíumynd í jesúhjartastíl, nema bar ekki hjartað utaná.“ Þá finnst Halldóri hið mikla skegg Erlendar eigi vel við hann líkt og bláu augun sem voru skærari en önnur.

Stefán frá Hvítadal sagði að Erlendur hefði ætíð verið fyrsti maðurinn sem hann sýndi kvæði eftir sig og treysti dómum hans um skáldleg efni betur en áliti annarra.

Erlendur dó 13. febrúar 1947.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.