20. júlí 2012 | Í dag | 253 orð | 1 mynd

Merkir Íslendingar

Þórunn Elfa Magnúsdóttir

Þórunn Elfa Magnúsdóttir rithöfundur fæddist í Reykjavík 20.7. 1910, en ólst upp hjá móðursystur sinni, Maren Magnúsdóttur og Einari Sigurðssyni, bónda í Klifshaga. Foreldrar Þórunnar voru Magnús Magnússon sjómaður og k.h., Margét Magnúsdóttir.
Þórunn Elfa Magnúsdóttir rithöfundur fæddist í Reykjavík 20.7. 1910, en ólst upp hjá móðursystur sinni, Maren Magnúsdóttur og Einari Sigurðssyni, bónda í Klifshaga.

Foreldrar Þórunnar voru Magnús Magnússon sjómaður og k.h., Margét Magnúsdóttir. Móðir Magnúsar var Þórunn, systir Guðrúnar, ömmu Halldórs Laxness og langömmu Böðvars Guðmundssonar skálds.

Þórunn var tvo vetur í lýðskóla Ásgríms Magnússonar, stundaði nám í Drammen og Ósló og fékk styrk til háskólanáms sem hún stundaði í Uppsölum 1946-47.

Þórunn Elfa var lengst af húsmóðir og rithöfundur í Reykjavík, sá um áteikningar fyrir hannyrðaverslun og prjónaði lopafatnað. Hún starfaði í Kvenréttindafélagi Íslands, var fulltrúi Rithöfundasambands Íslands í BÍL, starfaði í IOGT og var heiðursfélagi Lestrarfélags kvenna í Reykjavík.

Meðal ritverka hennar eru Dætur Reykjavíkur, I-III, 1933, 1934 og 1938; Líf annarra, 1938; Draumur um Ljósaland, I-II, 1941 og 1943; Evudætur, átta sögur, 1944; Í biðsal hjónabandsins, 1949; Dísa Mjöll, 1953; Sambýlisfólk, 1954; Eldliljan, 1957; Frostnótt í maí, 1958; Anna Rós, 1963; Kóngur vill sigla, 1968; Elfarniður, ljóð, 1976; Frá Skólavörðustíg að Skógum í Axarfirði, endurminningar, 1977; Hver var frú Bergsson?, sögur, 1981; Ljósaskipti (leikrit), 1950: Sverðið (leikritsgerð), 1955, og Maríba Brenner (framhaldsleikrit), 1967. Þá sá hún um dagskrárgerð fyrir útvarp um nær hálfrar aldar skeið.

Þórunn giftist Jóni Þórðarsyni, rithöfundi og kennara við Austurbæjarskólann. Synir þeirra eru Einar Már sagnfræðingur og Magnús Þór, öðru nafni Megas.

Sögur Þórunnar fjalla gjarnan um harða lífsbaráttu, misskiptingu

auðs og valda og þvingaða stöðu giftra kvenna. Hún hlaut verðlaun í verðlaunasamkeppni Ríkisútvarpsins 1962 og verðlaun úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins 1973.

Þórunn Elfa lést 26.2. 1995.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.