Núverandi ríkisstjórn skortir burði til að gegna skyldum sínum

Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, hefur farið fyrir sáttaumleitunum fylkinga, sem tortryggja og hata hverjar aðrar, í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs, frá því hann hvarf úr innanlandsstjórnmálum. Hann sagði nýlega að „Vesturlönd væru sem svefngenglar í afstöðu sinni til íslamskra öfgamanna“. Margt bendir til að þessi orð Blairs séu engar ýkjur.

Í augnablikinu hefur hinn stjórnmálalegi rétttrúnaður snúist þannig í heiminum að rétt sé og skylt að sýna pólitískum tilvísunum öfgasinnaðra íslamista í trúarrit sín ekki aðeins eðlilega virðingu heldur ríkt tillit sem gengur miklu lengra. Slík tilvísun er talin boðleg skýring og jafnvel afsökun fyrir athöfnum, áreitni og jafnvel beinum árásum. Á sama tíma er vaxandi krafa um umburðarlyndi gagnvart þeim sem gera hríð að kristinni trú og þeim sem hana aðhyllast, og þrengt er svigrúm kristinna til að halda sínum sjónarmiðum á lofti opinberlega.

Þessari þróun til afsökunar er því gjarnan haldið á lofti að áður hafi hallinn verið allur á hina hliðina, og „leiðréttingin“ lúti lögmálum pendúlsins sem sveiflist nú rækilega yfir miðjuna. En smám saman muni draga úr kasti hans. Ekki er víst að sú líking eigi endilega við um þessa þróun. Þá er lítill efi á að andstaða í garð Ísraelsríkis fer vaxandi á Vesturlöndum og er að nálgast að fá stöðu stjórnmálalegs rétttrúnaðar. Réttur gyðinga til tilveru þar, svo ekki sé minnst á til ríkis, er dreginn í efa af meiri ákafa en fyrr, ár frá ári og margvíslegum bábiljum er haldið á lofti eins og um óyggjandi staðreyndir væri að ræða.

Ekkert er gert með ábendingar um að Ísrael hafi haldið fast við lögmál lýðræðisins þrátt fyrir að landið búi nánast við eilíft stríðsástand þar sem nágrannaþjóðir neiti að viðurkenna tilveru þess eða hafi uppi heitingar um að ýta gyðingaþjóðinni á haf út. Afstaða Íslands til stöðunnar í þessum eldfima heimshluta hefur umturnast án þess að nokkur raunveruleg umræða, hvað þá djúp, hafi farið fram um þá stefnubreytingu. Ísland skipar nú stöðu við hlið Hamas-hreyfingarinnar, rétt eins og lögmæti hennar sé annað og betra en Ísraels.

Íslenska utanríkisráðuneytið er á miklu niðurlægingarskeiði um þessar mundir. Faglegri forystu þess í utanríkismálum er fjarri því að vera treystandi eins og iðulega er undirstrikað með ótrúlega einfeldningslegum skýringum á sjónarmiðum Íslands og afstöðu til einstakra þátta utanríkismála. Auðvitað hlýtur stór þáttur þess hve illa er komið að færast á óburðuga og lélega leiðsögn. En stundum er eins og sakleysisleg einfeldni fremur en alþjóðlegt reynsluleysi ráði för í þessu mikilvæga ráðuneyti.

En einfeldni í bland við stjórnmálalegan rétttrúnað er einkennandi víðar í stjórnkerfinu um þessar mundir. Afstaðan til „flóttamanna“, sem virðist vera eitt af þessum „inn“-málum, er dæmi um þetta. Hingað koma „flóttamenn“ sem lýsa því yfir í sjónvarpi, eins og einn þeirra gerði að hann hafi upphaflega flúið „drykkfelldan föður“ í Alsír og hafi haldið til í fjölmörgum löndum Evrópu áður en hann „flúði“ til Íslands.

Samningar sem Ísland er aðili að eru skýrir. Þeir segja að senda eigi slíka „flóttamenn“ án ástæðulausrar tafar til þess staðar sem þeir komu síðast frá. En það gengur gegn tískunni og pólitíska rétttrúnaðinum að fylgja umsömdum reglum.

Flóttamennirnir koma sumir á fölskum skírteinum og það þykir siðferðislegur glæpur að mati háttsettra embættismanna að neita að trúa því að þeir séu börn! Öll þessi mál eru komin í miklar ógöngur og Útlendingastofnun er að bresta undan þeim.

Nýlega brutu tveir „flóttamenn“ sér leið inn í íslenska þotu í Keflavík með miklum kostnaði og álitshnekki fyrir alla sem urðu fyrir því. Svo sagði í fréttum: „Þeir komu báðir til landsins í apríl, annar með Norrænu til Seyðisfjarðar en hinn með flugi í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Frá þeim tíma hafa þeir verið nokkuð til umfjöllunar í fjölmiðlum, en við komuna til landsins þóttust þeir vera börn að aldri en aldursgreining hjá lækni bendir til annars. Þeir voru síðan handteknir tvisvar í júní við tilraunir til að komast um borð í millilandaskip í Reykjavíkurhöfn, þá voru þeir teknir um borð í flugvélinni á Keflavíkurflugvelli og einu sinni eftir það við að reyna að komast um borð í skip í Reykjavík. Þá er annar mannanna grunaður um aðild að tveimur þjófnuðum frá því hann kom til landsins.“

Íslensk flugfélög og flugyfirvöld gæta sín afar vel á því að fljúga ekki með óvelkomna til Bandaríkjanna vegna hárra sekta og óþæginda sem þau verða fyrir ef slíkt gerist. Hver eru viðbrögðin hér ef ferðaaðilar eru ekki gætnari en þeir eru gagnvart óvelkomnu fólki hingað sem kostar almenning offjár?