21. ágúst 2012 | Aðsent efni | 775 orð | 1 mynd

Af gengistryggðum lögmanni

Eftir Svein Óskar Sigurðsson

Sveinn Óskar Sigurðsson
Sveinn Óskar Sigurðsson
Eftir Svein Óskar Sigurðsson: "Það sem máli skiptir hér eru þau grundvallarsjónarmið er snúa að fjármálastöðugleika í landinu."
Mánudaginn 20. ágúst sl. birtist grein eftir Brynjar Níelsson, fyrrverandi formann Lögmannafélags Íslands, félags sem gert er lögum samkvæmt að fara gegn félagafrelsisákvæðum stjórnarskrár Íslands og þvingar því alla lögmenn landsins undir væng þessa félagsskapar.

Fordæmið

Í grein sinni leggur Brynjar upp úr því að hið opinbera eigi ekki að hlutast til um samninga sem eru einkaréttarlegs eðlis og láta dómstóla um að dæma þar sem fordæmisgefandi dómar eigi ekki almennt við. Þess ber að geta í þessu samhengi að þegar dómar féllu bönkum í vil var það einmitt hið vænta fordæmi sem haft var uppi þegar kom til útlistunar á því hvað var rétt og hvað rangt í útreikningum á svokölluðum gengistryggðum lánum.

Fordæmið um gildi dómafordæma spratt úr ranni lögmanna en ekki neytenda og þegar fordæmið hentaði þótti það nú bara gott og gilt. Þá dúkkaði forstjóri FME upp ásamt ráðherra, ríkisstjórn og seðlabankastjóra á lágmarkslaunum til að setja þetta í sérstök Árnalög. Hvar var Brynjar þá? Var hann ekki formaður Lögmannafélags Íslands og hafði verið þar í andfélagslegu stofufangelsi frá því að hann hlaut réttindi sín sem lögmaður?

Krónunni fleytt 2001

Það sem máli skiptir hér eru þau grundvallarsjónarmið er snúa að fjármálastöðugleika í landinu. Þetta er það sem Seðlabanki Íslands lagði einmitt upp með þegar gert var óheimilt árið 2001 að lána gengistryggð lán þar sem skuldbindingin var í krónum og bundin við gengi erlendra mynta. Ekki var það gert í einhverju óráði enda stóð umræðan um þessi mál um árabil á meðal sérfræðinga bæði hér heima og erlendis.

Fyrir hrun voru þessi lán reiknuð rangt út og send inn í stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands og skekktu allt bókhald Íslands gagnvart erlendum ríkjum og matsfyrirtækjum. Greinarhöfundur hefur rakið þetta hér í Morgunblaðinu í mörgum greinum þar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) benti á mikilvægi þessa þegar krónan var sett á flot.

Fjármálastöðugleikinn og neytendasjónarmið

Það er rétt hjá Brynjari að ríkið á ekki að vasast í málum sem eru einkaréttarlegs eðlis en hér er ekki um slíkt að ræða þegar heilu lánasöfnin eru rangt reiknuð. Það er annað mál ef um væri að ræða eitt stakt lán sem samið hefði verið um. Hví er þá haft samráð um þetta og það gert heimilt?

Hér er um fjölmörg mál að ræða er snúa öll að fjármálastöðugleika og mikilvægi þess að fjármálastofnanir nái réttu virði á eignasöfn sín og að almenningur geti jafnframt um frjálst höfuð strokið, farið að fjárfesta, spara og haldið við eignum sínum sem fólk veit að það á og verður ekki af því tekið.

Að auki er þetta trúverðugleikamál sem snýr ekki aðeins að neytendum heldur einnig að fjármálakerfinu sjálfu gagnvart erlendum kröfuhöfum og fjárfestum bæði til lengri og skemmri tíma. Því er það tíminn sem skiptir máli en honum hefur verið sóað eins og svo mörgu öðru hér á landi síðustu misseri og ár.

Það að EFTA hafi úrskurðað um málefni eins lögmanns varðandi 40. gr. EES-samningsins er dæmi um slæleg vinnubrögð. Þessi úrskurður er unninn af aðilum sem greinilega hafa ekki verið upplýstir um þau sjónarmið sem Seðlabanki Íslands hafði uppi á árunum 1999 til 2001 þegar þessi mál voru grandskoðuð og leiddu til lagasetningar þar sem krónan var sett á flot. Hvað með tómlæti í því efni?

Sjálfstæðisflokkurinn reið á vaðið

Þetta mál varðar því ekki aðeins yfirfullt dómskerfi og illa upplýsta starfsmenn ESA. Gæti þetta ekki varðað gerræðislega löggjöf síðustu ár?

Tekur dómskerfið ekki of langan tíma í þessi mál og dregur þannig leiðréttingu með tilsvarandi milljarðakostnaði fyrir almenning, fjármálakerfið og hagkerfið í heild?

Því og þess vegna er mikilvægt að hið opinbera hlutist til um að flýta þessu ferli öllu saman en þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa mælt fyrir frumvarpi sem hefði getað komið einhverju skikki á þessi mál, lágmarkað óvissu og flýtt fyrir. Óvissa er mjög kostnaðarsöm, reyndar rándýr.

Bent skal á frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991 á þingskjali 20 og var það lagt fram á 139. löggjafarþingi. Ekki fékkst þetta frumvarp samþykkt og nú er hætta á að kröfur almennings á fjármálastofnanir fyrnist ef ekkert verður að gert. Ekkert virðist nýtt undir sólinni í þessum efnum hjá núverandi ríkisstjórn, því miður.

Lítum okkur nær

Verðugt væri fyrir hið opinbera að endurskoða tilurð hinna þaulsætnu slitastjórna sem eru á margföldum launum dómara. Þessar blessuðu slitastjórnir virðast leysa fæst sín mál og senda þau frekar til úrlausnar dómara á lágmarkslaunum til að spara sér ómakið.

Ætti Brynjar því að líta sér nær og leita að lausnum til framtíðar þar sem frelsið og réttlætið dafnar. Það eru því ekki aðeins gleðikonurnar sem þurfa á vörn góðra lögmanna að halda heldur einnig neytendur.

Höfundur er MSc í fjármálum og BA í hagfræði og heimspeki.

Fletta í leitarniðurstöðum

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.