[ Smellið til að sjá stærri mynd ]

Halldór fæddist í Reykjavík 17. janúar 1944. Hann lést í Sacramento í Bandaríkjunum 4. september 2012. Hann var sonur hjónanna Lárusar Jóhannssonar, vélstjóra, f. að Hlíð Mjóafirði, eystra, 1. október 1909, d. 7. febrúar 2003 og konu hans, Margrétar Þórarinsdóttur, f. í Reykjavík 6. september 1909, d. 13. október 1983. Föðurforeldrar: Jóhann Jóhannsson, vélstjóri í Mjóafirði, f. á Krossi í Mjóafirði 28. apríl 1876, d. 1919, og kona hans Róshildur Jónsdóttir, f. í Mosakoti á Síðu, Vestur-Skaftafellssýslu 2. ágúst 1877, d. 30. september 1968. Móðurforeldrar: Þórarinn Guðmundsson skipstjóri, f. að Hlíð í Garðahreppi í Gullbringusýslu 29. nóvember 1872, d. 29. ágúst 1951, og kona hans Ragnheiður Jónsdóttir, f. á Arkarlæk í Skilmannahreppi í Borgarfirði 24. júní 1876, d. 6. janúar 1923. Þau bjuggu lengst af í Ánanaustum í vesturbæ Reykjavíkur og voru við þann stað kennd. Halldór var næstyngstur fjögurra systkina, en þau eru, Þórarinn, f. 21.1. 1940, Gunnsteinn, f. 25.5. 1941, d. 7.5. 2009 og Jóhanna f. 16.10. 1948. Fyrri kona Halldórs er Ragnhildur Árnadóttir, sjúkraliði. Þau slitu samvistum. Sonur þeirra er Ásgeir matreiðslumeistari. Fyrir átti Ragnhildur soninn Árna Eðvaldsson, húsasmið, giftur Inger Maríu Erlingsdóttur, prentara. Börn þeirra eru Vilma Ýr og Ísar Mar. Seinni kona Halldórs er Asieh Ása Fadai og lifir hún mann sinn, ásamt börnum sínum Phone, Parisha og Carl í Sacramento í Bandaríkjunum. Eftir barnaskóla kláraði Halldór unglingadeildina að Núpi í Dýrafirði. Leiðin lá síðar í Stýrimannaskólann og að námi loknu var hann fljótlega orðinn skipstjóri eða aðeins 22ja ára á Elliða frá Sandgerði. Tók síðar við Eldeynni GK, Reykjaborginni RE, síðar Stapavík SI o.fl. bátum og gerðist m.a. togaraskipstjóri um tíma í Noregi. Halldór var með einn af fystu bátunum sem veiddu síld í Norðursjó. Hann réði sig seinna til Alþjóða þróunarsamvinnustofnunarinnar og starfaði á þeirra vegum á Grænhöfðaeyjum í fjögur ár og síðar á vegum Sameinuðu þjóðanna í Malasíu og víðar, en lengst af var hann í Íran, þar sem hann kynntist seinni konu sinni. Þau fluttust til Sacramento í Bandaríkjunum þar sem hann bjó til dauðadags. Bálför Halldórs var gerð í Sacramento. Að eigin ósk, var ösku hans dreift á haf út þar vestra. Minnigarathöfn hér heima fór fram í Fossvogskapellu 29. október 2012 að viðstaddri fyrri fjölskyldu hans, nánustu ættingjum og fjölskyldum þeirra.

Hann Halli bróðir er farinn, - sigldur síðasta túrinn og á ekki afturkvæmt. Oft var langt á milli endurfunda, en þó vorum viss um það, að hann kæmi aftur. Við vorum vön því, en þetta kennir okkur að ekkert er sjálfgefið, við verðum að rækta tengslin, frændsemina og vináttuna, enginn veit sína ævina fyrr en öll er.

Halli varð mjög snemma nokkuð kotroskinn og góður að bjarga sér sjálfur.

Eitt sinn var hann með eldri bræðrum sínum tveim á flugsýningu á Reykjavíkurflugvelli, þá ca. 4-5 ára gamall. Eftir að hafa kvartað nokkuð við þá hve illa hann sæi það, sem fram fór á vellinum fyrir fólki, hvarf hann okkur allt í einu sjónum.

Urðum við brátt hræddir um hann, enda bárum við ábyrgð á litla bróður. Eftir, að þeim fannst, langa og áhyggjufulla leit, var þeim litið upp í flugturninn, þar sem þeir komu auga á Halla litla í góðum félagsskap starfsmanna þar, sem honum hafði greinilega tekist að fá til að leyfa sér að horfa þaðan á dýrðina. Urðu bræður heldur en ekki fegnir að hann var kominn í leitirnar, en ekki alveg laust við að þeir öfunduðu hann ögn af aðstöðunni, sem honum hafði tekist að skapa sér að eigin frumkvæði.

Halli laðaðist snemma að sjónum og snemma beygðist krókurinn að því, sem verða vildi. Stóð eitt sinn sem oftar á hafnarbakkanum í Reykjavík, þá komin undir fermingu, og fylgdist rogginn og af áhuga með manni að tjarga þar bát sinn. Eins og fyrri daginn var piltur ekki feiminn við að koma sér á framfæri, gekk að manni þessum og sagði ákveðinn: ,,Get ég fengið pláss á bátnum hjá þér. - Þeim annálaða útgerðarmanni, Ármanni Halldórssyni, þótti greinilega nokkuð til framhleypni stráksa koma og réð hann á staðnum. Fyrsta pláss Halla af mörgum varð því hjá Ármanni á Helgu RE. Aðbúnaður um borð var töluvert annar en menn njóta núna, og þótt fyrsta ferðin væri farin nestislaus þar sem enginn kokkur reyndist vera um borð, þá  seiddi hafið og Halldór átti langan og farsælan feril til sjós.

Við systkinin eigum um hann góðar minningar þó heimsálfur hafi skilið að eftir að fullorðinsárum var náð. Eigum ótal myndir í huga okkar af sjómanninum með sterka takta frá Þórarni afa sínum og sjógarpur eins og hann. Lét hann það gjarna vera sitt fyrsta verk við heimkomu að ganga beint inn í eldhús og kíkja í pottana enda fátt mikilvægara en hvað væri í matinn.

Halldór var með einn af fystu bátunum sem veiddu síld í Norðursjó og kitlaði spennan hann augljóslega. Fyrst var landað í Skotlandi en síðar í Danmörku um árabil. Margar góðar ferðir voru farnar, Ragnhildur þvældist með honum víða og stundum með strákana líka.

Mörg ævintýrin voru upplifuð á þessum árum en vegna landhelgisdeilunnar var löndunarbann í Bretlandi á fiski frá Íslandi í mörg ár. Þetta þurfti Halli endilega að skoða nánar. Þá var hann með Reykjaborgina, sem hann átti í félagi við annan og ákveðið var, þrátt fyrir boð og bönn, að þykjast vera sænskir og landa í Bretlandi. Komið að bryggju í Fleetwood og landað í hendingskasti allt þar til þarlend verkalýðsforysta og lögga áttuðu sig og streymdu að. Þá var ekkert annað en að leysa festar og forða sér. Þau gátu hlegið að því, Halldór og Ragnhildur, sem var með í túrnum, lengi á eftir að í framhaldi voru bresku blöðin uppfull af frásögnum og myndum af bátnum og þessari alræmdu áhöfn, sem landað hafði í leyfisleysi og var m.a. kölluð íslenskir sjóræningjar. Svona uppákomum leiddist Halldóri ekki að lenda í, en þetta varð reyndar til þess að brjóta ísinn og löndunarbanninu aflétt  í framhaldi.

Halldór var lengi vel með sinn eigin bát í samvinnu við aðra og var Sæmundur Árelíusson útgerðarmaður lengi samstarfsmaður hans.  Halldór hafði metnað fyrir starfi sínu en líka metnað fyrir því að sem flestir ættu möguleika á að spjara sig í greininni. Það er sögð saga af því að lítill fiskverkandi var að reyna að koma undir sig fótunum í samkeppni við stöndugt fyrirtæki með því að vera með sína eigin löndunaraðstöðu. Það var eins og við manninn mælt þá lagði Halldór lykkju á leið sína til þess að landa einmitt þarna og gefa þessum manni betri möguleika í erfiðu umhverfi.

Hann var líka séður enda rifja menn það upp í einhverri brælunni á Siglufirði þegar allir bátar fóru út í tómu harki á meðan Halldór og hans áhöfn höfðu það bara huggulegt í landi. Bátarnir komust margir við illan leik í land skemmdir og alla vega. Þegar loksins lægði þá sigldi Halldór út í rólegheitum með sína menn og mokaði upp fiski.

Þau fjögur ár, sem Halli dvaldi við þróunarstörf á Grænhöfðaeyjum, bjó fjölskyldan þar með honum fyrst um sinn, en fóru svo heim, einkum vegna skólagöngu drengjanna, enda erfitt að halda slíku og fleiru til haga á svo fjarlægum og framandi slóðum. Ragnhildur og Halldór skildu um síðir enda heimsálfur gjarnan langdvölum á milli hjónanna.

Eftir að verkefninu á Grænhöfðaeyjum lauk gerðist Halli skipstjóri á norskum togara í einhvern tíma. Í leit að veglegri ævintýrum  réð hann sig upp úr þessu til Sameinuðu þjóðanna og vann þar að alþjóðlegum verkefnum á sviði þróunaraðstoðar. Á þeirra vegum starfaði hann í Malasíu og víðar, en lengst var hann í Íran. Í Íran kynntist hann eftirlifandi eiginkonu sinni Asiéh, en hún á tvær dætur og soninn Carl sem er uppeldissonur Halldórs. Þau fluttust frá Íran til Sacramento í Bandaríkjunum þar sem Halldór bjó til dauðadags. Hann starfaði við ýmislegt svo sem að reka veitingahús, en nú síðast sem sjálfstætt starfandi viðgerðamaður eða ,,Handy man eins og kaninn kallar það.

Það er litrík ævi að baki. - Vel liðinn og aflasæll skipstjóri, sem hafði gaman af lífinu, -naut þess að ferðast, en þó framar öðru að upplifa eitthvað nýtt og spennandi. Fyrirferðarmikill maður sem átti ekki létt með að vera kyrr á sama stað. - Vann oft fyrir fúlgum um ævina en endar síðan svo að segja með tvær hendur tómar langt úti í heimi.

Vinnusamur fram á síðasta dag og kvartaði aldrei, né gafst upp, þrátt fyrir alvarleg veikindi undir lokin.

Það eru tíu ár síðan Halldór kom síðast heim til Íslands og átti þá góða daga með systkinum sínum og fjölskyldum þeirra og ekki síst og dýrmæta daga með föður sínum fyrir austan, sem þá var hress, en lést um ári síðar.

Halli lá ekki á skoðunum sínum og mátti litla systirin oft heyra það hvernig hún ætti að vera og ekki vera, hann borgaði húsmæðraskólann fyrir hana, svo hún gæti orðið bóndakona, - hún kynni ekki neitt! En honum fannst það skrítið að hann Fúsi skyldi vilja eitthvað með hana hafa, - krakkann! Kærastinn var jafn gamall honum sjálfum! Seinna varð vináttan mikil og heimsóknir á báða bóga. Meðan síldin og loðnan veiddist fyrir austan land, hoppaði Halli stundum í land í Mjóafirði til að líta á ungu hjónin og knúsa litlu frændsystkinin, jafnvel með eitthvað sem hann t.d. kom með frá Hjaltlandi, tréleikföng, myndaglös, nammi, öl og ávexti, - meira að segja einu sinni nýja tómata! Ekki mikið um svoleiðis munað í þá daga. Seinna kom sonurinn Ásgeir og var í skóla á Brekku með frændsystkinum sínum, veturinn fyrir fermingu. Um páska 1982 fermdust  þrír frændur og þá voru allir í fjölskyldunni  saman, má segja í síðasta skipti. Ári seinna lést móðir okkar og pabbi orðinn einn í Skerjó. Sjálfur gamall sjóari, þótti pabba mikið til Halldórs og sjómennsku hans koma og fylgdist vel með veiði og veðrum meðan á úthaldinu stóð. Meira að segja fékk hann sér gott útvarpstæki sem hægt var að hlusta á bátabylgjuna.

Við, litla systir og stóri bróðir og fjölskyldur okkar, kveðjum hann með söknuði og sjáum hann fyrir okkur veifa til okkur, kankvís og brosandi á himinfleyi til ,,Fyrirheitna landsins&.

Sendum að lokum innilegar samúðarkveðjur til eftirlifandi fjölskyldna hans, frændfólks og vina.

Jóhanna og Þórarinn.