Jón (Nonni ) Halldór Gunnarsson fæddist í Hafnafirði 22. október 1962. Hann lést á LHS í Fossvogi 16. nóvember 2012. Foreldrar Jóns Halldórs voru þau Gunnar Þór Ísleifsson, bifvélavirki í Hafnafirði, síðar í Reykjanesbæ, f. 3. sept. 1938 á Akranesi, d. 23. des. 2003, og Guðmunda Lilja Ingibjörg Þorsteinsdóttir, húsmóðir í Hafnarfirði, f. 18. mars 1939, d. 12. mars 1996. Jón Halldór ólst upp í Hafnafirði lengst af, þar til hann flutti að Markarflöt í Garðabæ og þaðan í Kópavog, fyrst á sambýlið að Borgarholtsbraut en síðustu árin bjó hann á nýju, hlýlegu sambýli að Skjólbraut 1a. Jón Halldór var yngstur fimm systkina. Elst er Júlíana Sóley Gunnarsdóttir, f. 8. júní 1956, var gift Guðna Svavari Kristjánssyni, hann lést 7. ágúst 1984. Börn þeirra eru Davíð Aron, kona hans Ester Linda Helgadóttir, þau eiga þrjú börn Aron Inga, Lenu Dögg og Emmu Lind. Rakel Rós, í sambúð með Björgvini Jónssyni, þau eiga eina dóttur, Sóley Birtu. Eiginmaður Júlíönu Sóleyjar er Friðrik Már Bergsveinsson. Guðmundur Össur Gunnarsson, f. 6. júní 1957, d. 10. mars 2007. Óskírð Gunnarsdóttir, f. 5. des. 1958, d. í feb. 1959. Grímur Norðkvist Gunnarsson, f. 31. jan. 1960, d. 16. ágúst 1961. Einnig átti Jón fjóra bræður samfeðra. Þeir eru Róbert Þór Gunnarsson, f. 20. maí 1973, Anton Rafn Gunnarsson, f. 11. júní 1976, Ríkharður Guðjón Gunnarsson, f. 1. nóv. 1977, Sæmundur Mariel Gunnarsson, f. 18. júní 1982. Útför Jóns Halldórs fór fram í kyrrþey frá Grafarvogskirkju 23. nóvember 2012.

Elsku Nonni.

Það er erfitt að setjast niður og ætla sér að setja minningar á blað þar sem bæði togast á söknuður og síðan viss léttir fyrir þína hönd að þrautagöngu þinni sé lokið. Þar kom að leiðinni lauk og eitt er víst að þín var ekki sú auðveldasta. Reyndar eru ekki nema hartnær tuttugu og fimm ár síðan leiðir okkar lágu saman í gegnum systur þína. Þú barst þess glöggt vitni að sjúkdómurinn hafði sett mark sitt á þig og leyndist það engum sem vildi sjá en öðru gegndi um þinn innri mann þar sem þú varst ekki fyrir að flíka tilfinningum þínum, heldur barst harm þinn í hljóði en æðruleysið leyndi sér ekki þeim sem til þekktu. Að lifa með sjúkdóm sem takmarkaði svo þrek líkamans hefur ekki verið auðvelt hlutskipti og erfitt að setja sig í slík spor. Þegar ég kynnist ykkur Mumma og tengdamóður minni Ingu var sem mér væri kippt inn í annan veruleika en þann sem ég hafði kynnst áður og ég sá fyrir mér það líf sem konan mín hafði upplifað frá bernsku sem eina heilbrigða manneskjan í þessari litlu fjölskyldu. Ég sá hvað var mikill kærleikur á milli ykkar systkinanna og þið voruð mjög háðir hvor öðrum þú og Mummi og þótt virtist sem Mummi og móðir ykkar væru hlutar af sömu sál áttir þú ávallt þinn trausta vin í Sóley systur þinni en það hefur verið þér ósegjanlega erfitt að sjá á eftir móður þinni og síðan Mumma stóra bróður fara yfir móðuna miklu úr sama sjúkdómi en með æðruleysi hetjunnar sættir þú þig við það hlutskipti sem þér var boðið í þessu lífi vitandi það að röðin kæmi að þér fyrr en seinna. Það gerði mikið fyrir okkur systur þína að fá að vera þess aðnjótandi að deila með þér síðustu 7 vikunum í lífi þínu, þvílík hetja sem þú varst allan tímann Nonni minn og þótt við hefðum haldið í vonina allt fram á síðustu viku að dæmið myndi snúast við var orðið ljóst í hvað stefndi og þá var kappkostað við að þér liði sem best og því lýsti best friðurinn sem umlék þig síðustu dagana og það að halda upp á fimmtugsafmælið þótt á sjúkrahúsinu væri gaf þér mikið svo ekki sé talað um litla vininn sem fékk að koma í stutta heimsókn þegar ljóst var í hvað stefndi.

Það var einkum þrennt sem einkenndi þig Nonni minn, æðruleysið gagnvart hlutskipti þínu í lífinu, dýravinur varstu með afbrigðum og síðast en ekki síst ástríða þín gagnvart bílum. Bíladellan er eiginlega sér kapítuli út af fyrir sig, samgróin ykkur bræðrum og ekki var til sú bíldrusla að þið gætuð ekki hugsað ykkur að eignast hana svo framarlega sem hún væri made in USA enda áttuð þið sérstakan hauk í horni þegar kom að því að gera við, pabbi ykkar var bifvélavirki af guðs náð sem gat komið hvaða vél sem var í gang einsog hún væri nýafhent af framleiðanda. Ekki má gleyma dýrunum, því þegar ég kynnist þér voru dúfur aðaláhugamálið og það var hægt að tala um dúfur frá morgni til kvölds, hvernig þær átu og hreyfðu sig og af hvaða tegund þær væru en aldrei urðum við vör við að þú flokkaðir þær eftir verðmæti heldur miklu frekar karakter og áttir jafnvel til að skipta á verðmætri dúfu fyrir aðra sem þú hafðir tilfinningu fyrir, það var eins og þú skynjaðir sálina frekar en ytri skel. Ekki má samt gleyma einu sem einkenndi þig sem fór aldrei hátt en það var ást þín á tónlist og að semja ljóð, og var þér umhugað öðru fremur um rólega tónlist og voru það ástarsöngvar um allt milli himins og jarðar sem áttu hug þinn að mestu enda má segja að Björgvin Halldórsson hafi verið í uppáhaldi hvort sem um var að ræða söngva um ást til konu eða skaparans. Enda bera ljóðin þín þess glöggt vitni. Það að flytja á Skjólbrautina gerði þér mikið gott og seint gleymist hve hamingjusamur þú varst að vera loksins þinn eigin herra í þinni eigin íbúð umvafinn góðum vinum og traustu starfsfólki og þau voru traust böndin á milli þín og Sígríðar forstöðukonu Siggu  þinnar  þarna fannstu öryggi  og þarna leið þér vel enda sambýli í fremstu röð hvað varðar hlýleika og umhyggju. Þau voru samt blendin svipbrigðin sem þú gafst okkur þegar við færðum þér fallega krúttlega kettlinginn fyrstu jólin í nýju íbúðinni, þú hefðir eiginlega frekar viljað fá hund en kött en daginn eftir tilkynntir þú að kettlingurinn hefði fengið nafnið Týri og þú máttir ekki af honum sjá eftir það enda var sem það væri gagnkvæmt því hvergi leið honum betur heldur en í fanginu á þér. Það er mikill söknuður af þér elsku Nonni minn en við getum huggað okkur við að hafa fylgt þér því sem næst alla leið og allar ljúfu minningarnar sem sitja eftir og við trúum því einlæglega og treystum að nú sért þú í samfloti með foreldrum þínum og Mumma bróðir svo og systkinum þínum sem létust sem börn og vonum innst í hjartarótum að nú sértu kominn með líkama sem hæfir sál þinni.

Megi Drottinn vera sál þinni náðugur.

Friðrik og Sóley systir.