23. desember 2012 | Sunnudagsblað | 343 orð | 2 myndir

Átján milljarðar í jólamat

Aurar og krónur

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á aðventunni og um jólin er venja að gera vel við sig í mat. Jólasteikin, smákökubaksturinn, laufabrauðsgerðin, piparkökuskreytingar að ógleymdu jólahangikjötinu eru ómissandi þættir í jólahaldi margra Íslendinga.
Á aðventunni og um jólin er venja að gera vel við sig í mat. Jólasteikin, smákökubaksturinn, laufabrauðsgerðin, piparkökuskreytingar að ógleymdu jólahangikjötinu eru ómissandi þættir í jólahaldi margra Íslendinga.

Matvælaframleiðendur keppast við að auglýsa hver sem betur getur í aðdraganda jólanna. Enda er eftir miklu að slægjast. Séu matarinnkaup hins dæmigerða Meniganotanda heimfærð á alla Íslendinga yfir 18 ára aldri má ætla að Íslendingar kaupi mat fyrir 18 milljarða í desember í ár. Er það um 4% aukning á milli ára á föstu verðlagi. Hér er átt við innkaup í matvöruverslunum á Íslandi einvörðungu, en ekki verslun á matsölustöðum eða í söluturnum.

Menigahagkerfið telur um 22% íslenskra heimila og velta um 883 milljörðum króna. Sé hagkerfið skoðað má glögglega sjá mikla útgjaldaaukningu til matvörukaupa. Í desember 2010 varði hver einstaklingur, 18 ára og eldri, að meðaltali rúmum 47.000 krónum til kaupa á matvörum í nóvember en tæplega 62.000 krónum í desember, eða nærri þriðjungi meira en í nóvember sama ár, en gera má ráð fyrir að meðalheimilið verji töluvert meira. Svipaða sögu er að segja árið 2011. Þá vörðu einstaklingar að meðaltali tæpum 51.000 krónum í nóvember og rúmum 69.000 krónum í desember. Munurinn milli mánaða er jafnvel meiri en árið áður eða 36%.

Sé árið í ár skoðað sést að notendur Meniga vörðu að meðaltali um 50.000 krónum í matvöruinnkaup í nóvember. Ef við gerum ráð fyrir svipaðri aukningu og í fyrra má gera ráð fyrir að meðalmatvöruinnkaup muni nema rúmum 75.000 krónum í desember í ár.

Að meðaltali vörðu notendur Meniga rúmum 47.000 krónum á mánuði í matarinnkaup árið 2010 en ef að líkum lætur munu þeir verja tæpum 57.000 krónum á mánuði í ár. Það er hækkun upp á um það bil 10% umfram almenna hækkun á vöruverði á sama tímabili. Það er því ljóst að notendur Meniga verja umtalsvert hærri upphæð í matvæli í ár en undanfarin ár að raunvirði. Hvort það sé vegna þess að matvæli hafi hækkað umfram annað vöruverð eða vegna þess að fólk sé að kaupa dýrari vörur í ríkara mæli skal ósagt látið.

Breki Karlsson

Fletta í leitarniðurstöðum

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.