26. janúar 2013 | Minningargreinar | 1226 orð | 1 mynd

Arnór Hannibalsson

Arnór Kjartan Hannibalsson fæddist 24. mars 1934 á Strandseljum í Ögurhreppi, N-Ísafjarðarsýslu. Hann lést á heimili sínu 28. desember 2012.

Útför Arnórs fór fram frá Reynivallakirkju í Kjós 12. janúar 2013.

Leiðir okkar Arnórs Hannibalssonar lágu fyrst saman árið 1953 þegar hann kom til Moskvu til að hefja háskólanám, en eiginmaður minn, Pétur J. Thorsteinsson heitinn, var þá sendiherra Íslands gagnvart Sovétríkjunum.

Kynni okkar af Arnóri voru afar ánægjuleg og kom hann oft í heimsókn í sendiráðið. Ávallt var hann hjá okkur á aðfangadagskvöld ásamt Árna Bergmann til að halda íslensk jól. Upp úr þessu mynduðust vináttubönd sem vöruðu alla tíð.

Eitt sinn þegar við Arnór vorum að rifja upp gamla tíma frá Moskvuárunum barst talið að þjóðhátíðardeginum 17. júní en þá voru ávallt haldnar móttökur í íslenska sendiráðinu. Þangað komu ýmsir sovéskir ráðamenn, bæði til að votta Íslandi virðingu sína og eins til að hitta sendiherrann, sem var afar vinsæll meðal Rússanna: Rétt eins og Arnór var Pétur reiprennandi á rússnesku, einn fárra sendiherra í Moskvu á þeim tíma, og ekki sakaði að hann var fæddur 7. nóvember 1917, á sjálfan byltingardaginn!

En í íslenska sendiráðinu hitti Arnór menn eins og Malenkov, Kaganovich og Mikoyan. Malenkov hafði verið ritari Stalíns og varð síðar forsætisráðherra. Mikoyan var næstvaldamestur á Khrushchev-tímabilinu. Allir voru þeir meðal æðstu foringja Sovétríkjanna og eins og Arnór komst að orði „ekki auðsótt fyrir háskólanema í Moskvu á þessum árum að komast í færi við slíka menn“.

Þegar Pétur ákvað að bjóða sig fram til forseta í forsetakosningunum 1980 báðum við Arnór að taka að sér að vera kosningastjóri. Tók hann það verk að sér og leysti með mikilli prýði. Ég sá Arnór síðast fyrir um þremur árum þegar hann heimsótti mig í íbúðina mína og færði mér mynd að gjöf sem hann hafði sjálfur málað af íslenska sendiráðsbústaðnum í Moskvu. Honum var margt til lista lagt. Þetta þótti mér vænt um.

Hvíl í friði, kæri vinur.

Oddný E.

Thorsteinsson.

Framlag Arnórs Hannibalssonar til sálfræðinnar á Íslandi er mikilsvert. Það á jafnt við um fræðin sjálf, félag sálfræðinga og sess þeirra í samfélaginu.

Arnór kom til starfa 1963 þegar sálfræðingar hér á landi voru að skríða á annan tuginn. Næstu fjögur árin var hann meðal sálfræðinga á geðverndardeild barna við Heilsuverndarstöð Reykjavíkur í merku brautryðjendastarfi.

Menntun Arnórs var þá þegar óvenju breið og úr sjaldgæfri átt eftir meistarapróf í heimspeki og sálfræði frá Moskvuháskóla 1959 og frekara nám í Póllandi. Menntun hans varð síðar enn víðfeðmari eftir nám í Sviss og doktorspróf í heimspeki frá Edinborg 1973.

Á geðverndardeildinni varð ljós þörfin fyrir vandað greindarpróf fyrir börn. Merk íslensk stöðlun Matthíasar Jónassonar á Stanford-Binet-prófinu var komin til ára sinna og tíminn deyfir staðlanir slíkra prófa. Greindarpróf Wechslers gáfu auk þess fjölbreytilegri möguleika til að greina einstaka þætti, m.a. sértæka námsörðugleika.

Að ráði varð að þýða og staðla greindarpróf Wechslers fyrir börn (WISC). Prófið var lagt fyrir rúmlega 1.100 börn á aldrinum 8-15 ára. Þessi útgáfa WISC-prófsins 1971, sem íslenskir sálfræðingar notuðu í störfum sínum næstu áratugina, er kennd við Arnór og til vitnis um hlutdeild hans í verkinu. Það kom að ótvíræðu gagni um árabil við greiningu og úrræði fyrir börn.

Sálfræðingafélag Íslands var stofnað 1954. Arnór gekk til liðs við félagið þegar hann kom fyrst úr námi og sat þá í stjórn um hríð. Vorið 1983 var hann kjörinn formaður félagsins. Þá hafði félögum fjölgað til muna eftir að kennsla í sálfræði til BA-prófs hófst við HÍ 1971 og þeir sem fóru utan til framhaldsnáms höfðu skilað sér heim. Mynduðu hinir yngri uppistöðuna í stjórninni.

Nokkrar væringar voru í félaginu um þær mundir vegna skipunar eftirmenntunar og sérfræðiviðurkenningar og þörf var fyrir forystu sem stuðlað gæti að betra samlyndi. Leitað var til Arnórs sem hlaut kosningu.

Arnór reyndist farsæll formaður og hinn vænsti félagi. Hann var einlægur og hreinskiptinn í samskiptum og glettinn sögumaður sýndi sig, á sinn sérstaka hátt. Virðing, traust og vinátta ruddi sér til rúms og Arnór átti sinn þátt í að fylkja félögum í heillegan flokk.

Stjórnin átti m.a. samskipti við stjórnvöld til að standa vörð um stöðu félagsmanna og kjör. Þá stóðu menn keikir með Arnór í fararbroddi, virtan lærdómsmanninn. Rökvísin var honum í blóð borin – jafnt og réttsýnin – og ekki skaðaði menntunin.

Arnórs naut við í skrifum og kennslu í greinum heimspeki sem varða grunn sálfræðinnar, vísindaheimspeki, þekkingarfræði og heimspeki félagsvísinda og hann lét sig varða siðfræði heilbrigðisstétta. Sálfræðin er í senn hug- og raunvísindi, með djúpar rætur í heimspeki. Fáir þekktu þær rætur betur og gátu jafn vel gert grein fyrir þeim og hann.

Sálfræðingafélag Íslands þakkar Arnóri Hannibalssyni langa og dygga vegferð og vottar aðstandendum hans samúð.

F.h. Sálfræðingafélags Íslands,

Ásgeir Sigurgestsson,

fyrrverandi stjórnarmaður.

Frumgetinn sonur alþýðuleiðtoga bar nafn höfðingja úr ættinni allt frá miðöldum. Farinn er sá hugsuður, fræðari margra, dr. Arnór. Verk hans sem annarra hreinlyndra fylgja honum. Við megum meta þau sem gamalt vín betur með árunum.

Mikill var hann af menntun í 5 löndum, æviverki, samstöðu með kúguðum þjóðum, réttlæti og sannleika sem yppt var öxlum við, jafnvel er menn höfðu af skelfingaratburðum sannar fregnir, ólitaðar af pólitískum hagsmunum.

Allt um sósíalíska hugsjón ungdómsára var skarpur Arnór skjótur að sjá það í Moskvu að heimskommúnisminn var gegnumrotinn. Þrítugur hafði hann skrifað tvö afhjúpandi rit um hörmungartilraun til sósíalisma í SSSR og Moskvustýrða hreyfingu á Íslandi. Bágt fékk hann fyrir frá sósíalistum. Þó urðu bækurnar, útg. af Ragnari í Smára, sumum á '68-skeiði stoð til að losna frá blekkjandi hugmyndafræði sem náð hafði töfrataki á milljónum manna.

Hann þýddi Platón og Dostojevskí, reit um rökfræði, sálfræði, siðfræði, þekkingar- og fagurfræði. Moskvulínan (1999), spennubók og uppljóstrana, var „þöguð í hel“ (AH). Þar svipti hann Lenín dýrðarljóma: greindi frá grimmum fjöldamorðum að skipun hans og kom upp um fjölmarga Moskvustyrki til kommúnista, flokka þeirra, Þjóðviljans, M&M; og áhangenda til 1980. Bókarauki, Halldór Laxness og Sovétríkin, er sízt feluleikur.

Glöggt greinasafn, Friður eða uppgjöf (1984), var andsvar við refjum sovétmanna og trúgirni friðarpostula.

1990 komst hann í kviku söguatburða; sovétveldið að gliðna sundur, uppreisnir í leppríkjum. Með Eistum, Lettum, Litháum, Pólverjum tók hann afstöðu á staðnum, hirti ekkert um eigið öryggi, sjá viðtal við Freyst. Jóh. 2004 (mbl.is/greinasafn/grein/820554/). Þakklátur var ég samstöðu hans o.fl. HÍ-kennara við undirskriftasöfnun í apríl 1990 til stuðnings Litháum, hvassa gagnrýni á sovézkt hernám.

Fyrstu kynni okkar voru mest í maraþonsímtölum, 1-3 á ári. Síðar heimsótti ég hann tvisvar í Hvalfjörð, einnig á Reykjalund og í afmælisboð. Afrakstur heimsóknar í ljóði: http://jvj.blog.is/blog/jvj/entry/1276801/

Einfaldleiki ríkti hjá einbúanum á Hreggnasa: gott rýmið laust við íburð og tækni, en pláss fyrir mikið bókasafn. Sívökull miðlaði hann upplýsingum, m.a. um svik biskups austantjalds, áhrifamanns í Alkirkjuráði. Var notalegt að þiggja af Arnóri viðurgerning í eldhúsi; sjálfur dró hann á eftir sér súrefniskút vegna lungnaveiki, en augljós var sigur andans yfir aðstæðum. Er ég vongóður um útgáfu fleiri rita hans.

Trútt gat hann eins og Lonergan talað um „the sweet joy of enquiry“ í heimspeki, en sízt í 20. aldar sögu, svo margt ófagurt sem upp kom úr kafinu; hann gat tekið undir með ljóði Steins: Kreml.

Afhjúpun hans á svikum bolsévika við alþýðustéttir og heilar þjóðir var hin hliðin á hlýrri samkennd með öllu sem lifði. Gladdist ég og yfir samúð hans með hinum ófæddu; glöggt sá hann skaðræði sjálfstortímingar þjóða og tengsl þess við guðleysið; kristindóminn leit hann á sem vörn mennskra gilda gegn ómennskum. Guð blessi Arnór.

Jón Valur Jensson.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.