Jón E. Hjaltason var fæddur 16. janúar 1948 í Reykjavík og lést á sjúkrahúsi í Torrevieja á Spáni hinn 1. febrúar.

Foreldrar hans eru Halldóra Þ. Sveinbjörnsdóttir, f. 1926, og Hjalti Ólafur Jónsson, f. 1926, d. 2006. Jón kvæntist Janine Ruth Wilkinsson 1976. Þau slitu samvistum. Dóttir þeirra er Ólöf Dögg, f. 1983. Síðar hóf hann sambúð með Sigríði Öldu Sigurkarlsdóttur. Þeirra dóttir er Þórunn Mjöll, f. 1990. Systkini Jóns eru Ragna, f. 1946, Vignir, f. 1951, Snorri, f. 1952, Lilja, f. 1956, og Ólafur Páll, f. 1959, d. 1978.

Jón lærði trompetleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk prófum í málmblásturskennslu og trompetleik við Tónlistarháskólann í Birmingham, Englandi. Hann lék með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslensku hljómsveitinni, Hljómsveit Íslensku óperunnar og Hljómsveit Þjóðleikhússins. Hann kenndi um árabil við Tónlistarskólann í Kópavogi og Tónlistarskólann í Grindavík þar sem hann var einnig skólastjóri 1982-1989. Einnig kenndi hann um tíma við Tónlistarskólann í Hafnarfirði og Tónskóla Sigursveins. Jón var stofnandi og stjórnandi Skólahljómsveitar Grafarvogs frá 1992 og skólastjóri Tónskóla Grunnskólanna í Grafarvogi frá 1996. Hann lét af störfum vegna heilsubrests árið 2006 og flutti til Spánar.

Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna.

Elsku pabbi minn.

Mér finnst ótrúlega skrítið að hugsa til þess að þú skulir vera farinn og að almættið skuli hafa látið þig kveðja svona snemma. Ég hugsa mikið til seinasta símtals okkar sem við áttum nokkrum dögum áður en þú veiktist skyndilega svona mikið. Þá var ég að skoða flug út til þín þar sem við Siggi ætluðum að koma til þín um páskana og þú varst svo spenntur að fá okkur til þín. En lífið getur verið óútreiknanlegt og enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Ég er þó afskaplega fegin að hafa náð að koma til Spánar og geta kvatt þig og sagt þér hversu þakklát ég er fyrir allt sem þú hefur gefið mér.

Þegar ég heimsótti þig á spítalann beið ég alltaf eftir því að þú myndir opna fallegu bláu augun þín og sjá mig. Ég mun heldur ekki gleyma þessum tveimur dögum á spítalanum, þegar þú gast tjáð þig örlítið við okkur og ég gat kvatt þig með kossi á ennið.

Ég er svo þakklát fyrir allt sem þú hefur gefið mér. Þú varst alltaf svo duglegur að hvetja mig áfram til náms og oft svo stoltur af litlu stelpunni þinni. Ég leit mikið upp til þín, þú varst klár, fannst svör við öllu, ákveðinn, sjálfstæður og mikill hugsjóna- og afreksmaður. Einnig varst þú svo góðhjartaður og vildir öllum vel og vildir alltaf hafa frið í kringum þig. Þú varst afburðakokkur og ég erfi nokkrar leyniuppskriftir eftir þig en ég var þó aldrei búin að læra að gera uppáhaldið mitt, humarsúpuna þína sem við fengum okkur á hverjum jólum. Við gátum setið saman óralengi og rætt um daginn og veginn og rökrætt um hina og þessa hluti. Ég gat sagt þér allt og þú tókst öllu vel. Þú þekktir mig einna best.

Ég dáist að afrekum þínum og er svo ótrúlega stolt af þér. Þú hafðir mikla stjórnunar- og samskiptahæfileika og varst því ótrúlega fær í því sem þú gerðir. Þú varst afskaplega góður kennari og nú að leiðarlokum munu margir nemenda þinna minnast þín með þakklæti í huga. Utanlandsferðirnar með skólahljómsveitinni eru mér mjög minnisstæðar. Með þig í fararbroddi stóð hljómsveitin sig alltaf vel. Þegar þú hættir störfum fluttist þú út til Torrevieja en þar þótti þér svo gott að vera enda ótrúlega fallegt og mikil kyrrð þar sem þú áttir heima. Það gat stundum verið svolítið tómlegt hjá þér einum úti, en þú fannst þér alltaf eitthvað að gera. Þú lærðir spænsku hjá þýskum einkakennara og gast orðið bjargað þér ótrúlega vel í spænskunni. Ég veit að það voru margir Íslendingar sem leituðu til þín og gast þú rétt mörgum hjálparhönd með ýmis mál. Þú fylgdist vel með ýmsum alþingismálum, last þingskjöl og lést síðan þingmennina heyra skoðanir þínar sem lýsir persónuleika þínum svo vel. Mér þótti svo gaman að koma út til þín og sérstaklega þegar mamma kom með en það var svo yndislegt hvað þið náðuð alltaf að halda góðu vinasambandi.

Ég vildi óska þess að ég hefði átt meiri tíma með þér en í stað þess mun ég geyma og varðveita fallegu minningarnar okkar í hjarta mínu þangað til að leiðir okkar mætast á ný. Hvíldu í friði, elsku pabbi. Ég elska þig af öllu mínu hjarta.

Þín dóttir,

Þórunn Mjöll Jónsdóttir.

Jonna vini mínum kynntist ég strax í barnæsku. Ætli við höfum ekki verið fjögurra ára þegar við fluttum báðir í Heiðargerðið, síðan höfum við verið nánir vinir, eða í rúm 60 ár. Þegar maður hefur átt góða æsku hlýtur maður að hafa átt góða æskuvini, en það áttum við Jonni svo sannarlega. Heiðargerðið var frábær staður til að alast upp á, margir krakkar og mikið af óbyggðum svæðum sem var leikvöllur okkar krakkanna. Þar byggðum við fótboltavelli og stunduðum ýmsar íþróttir. Við stofnuðum til dæmis íþróttafélag sem hét Þröstur.

Í byrjun fylgdumst við Jonni að í skóla. Við lærðum að lesa í Ásuskóla, þá fórum við í Breiðagerðisskóla og síðan í Réttarholtsskóla. Við hittumst alltaf við húsið hans Jonna og þaðan hlupum við í skólann, en löbbuðum heim. Á þessum árum vorum við alltaf hlaupandi. Til dæmis hlupum við inn að Hálogalandi í leikfimi og á handboltaæfingar í Valsheimilinu.

Svo leið tíminn. Eftir framhaldsskólanám skilur oft leiðir og fólk fer hvað í sína áttina. Jonni var aðeins átta eða níu ára þegar hann var í lúðrasveit hjá Karli O. Runólfssyni. Þar heillaðist hann af trompetinum og innritaðist síðar í Tónlistarskólann í Reykjavík. Þar var hann í blásaradeild skólans. Síðan fór hann til framhaldsnáms við Tónlistarháskólann í Birmingham og lauk þaðan einleikaraprófi. Jonni lék um tíma með Sinfóníuhljómsveit Íslands og stundaði kennslustörf við Tónlistarskóla Kópavogs, Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og Tónlistarskóla Grindavíkur. Árið 1992 stofnaði Jonni Skólahljómsveit Grafarvogs og var stjórnandi hljómsveitarinnar til ársins 2006.

Eftir að við Guðný fluttum til Lúxemborgar heimsótti Jonni okkur nokkrum sinnum. Það var ævinlega gaman að fá Jonna í heimsókn, hann var alltaf jafn ljúfur og skapgóður og áhugasamur um ýmsa hluti. Oft var teflt eða gripið í spil. Þá var oftast spilað brids og átti maður þá engan séns í Jonna.

Jonni var líka áhugasamur um golfíþróttina og kom til okkar nokkur sumur í röð og tók þátt í hinu árlega Cargolux-golfmóti með okkur, sem var alltaf hin mesta skemmtun. Á þessu golfmóti var Jonni mjög vinsæll því hann gat verið hrókur alls fagnaðar, skarpgreindur og átti gott með að sjá broslegu hliðarnar á mannlífinu. Árið 2002 kom Jonni með skólahljómsveitina sína til Lúxemborgar. Það þótti okkur stórviðburður. Hljómsveitin hélt tónleika á nokkrum stöðum, meðal annars á 17. júní-hátíð Íslendingafélagsins og á torginu Place de Armes.

Við sáum Jonna síðast í sumar, þá kom hann til okkar til að vera við brúðkaup dóttur okkar. Það gladdi okkur mikið að hann skyldi geta komið og við tókum eftir hvað honum þótti gaman að hitta okkur og fleira fólk sem hann hafði ekki séð lengi.

Móður Jonna, dætrum, systkinum og fjölskyldu vottum við okkar dýpstu samúð.

Kæri vinur, við Guðný söknum þín og við þökkum þér fyrir samveruna.

Ásgeir.