Íslendingar hafa löngum skrifað skammir hver um annan og oft nafnlaust, en lesendur hafa þá reynt að geta sér til um höfunda, og hefur það gengið misjafnlega.

Íslendingar hafa löngum skrifað skammir hver um annan og oft nafnlaust, en lesendur hafa þá reynt að geta sér til um höfunda, og hefur það gengið misjafnlega. Frægt er til dæmis, þegar Sverrir Kristjánsson sagnfræðingur kom til Íslands rétt fyrir stríð eftir margra ára nám og drykkju í Kaupmannahöfn og hóf hvatvísleg skrif í sósíalistablaðið Þjóðviljann . Framsóknarmönnum líkuðu þau illa, og 29. september 1942 birtist nafnlaus klausa í málgagni þeirra, Tímanum : „Til þess að svala reiði sinni hefir Þjóðviljinn fengið glerbrot eitt, sem lengi var að flækjast á sorphaugum borgarinnar við Eyrarsund, til að skrifa níðklausu í dálka sína um Hermann Jónasson. Lætur glerbrotið allmikið yfir sér og þykist víst vera orðið eins og heil flaska.“ Líkingin af glerbrotinu og flöskunni þótti smellin, og töldu því margir, að hana hefði Jónas Jónsson frá Hriflu samið, en hann var maður meinfyndinn. Löngu seinna sagði Jónas þó Sverri, að hann hefði ekki samið þessa klausu, heldur Jón Eyþórsson veðurfræðingur, sem var eindreginn framsóknarmaður.

Sjálfum var Sverri Kristjánssyni löngu síðar kennd svæsin skammagrein nafnlaus, sem birtist um Kristmann Guðmundsson rithöfund og kvennamann í Mánudagsblaðinu , 25. september 1961, en vitað var, að Sverrir skrifaði stundum í það blað og ekki alltaf undir nafni: „Annars segja fróðir menn, að Kristmann sé lítið karlmenni þrátt fyrir útlit sitt, sem er bolalegt, og er það haft eftir einni af konum hans. Þykjast sumir finna þar skýringuna á því, að honum hefur öllum Íslendingum verr haldist á konum. Þær hafa ýmist hlaupið eða flúið frá honum.“ Kristmann kvæntist sem kunnugt er níu sinnum. En ég hef traustar heimildir fyrir því, að Sverrir hafi ekki verið höfundur þessara dæmalausu skamma, þótt Kristmann héldi það sjálfur, heldur Einar Ásmundsson lögfræðingur, sem hafði um skeið verið ritstjóri Morgunblaðsins . Einar hafði gefið út ljóðabók, sem Kristmann hafði skrifað heldur ólofsamlegan ritdóm um, og vildi nú hefna sín.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is