20. mars 2013 | Aðsent efni | 355 orð | 1 mynd

Smáríkið Kýpur

Eftir Svein Óskar Sigurðsson

Sveinn Óskar Sigurðsson
Sveinn Óskar Sigurðsson
Eftir Svein Óskar Sigurðsson: "Óneitanlega minnir þetta mann óþægilega á Icesave-málið svokallaða og forgöngu vinstrimanna í þeim óskapnaði."
Árið 1990 átti ég þess kost að fara í draumaferð til Kýpur þar sem ungir stúdentar skemmtu sér konunglega, eyjarskeggjar voru ánægðir og hamingjusamir þrátt fyrir innrás Tyrkja og viðskipti blómstruðu sem aldrei fyrr.

Nú er svo komið að eftir inngöngu sína í ESB árið 2004 og þátttöku þessa smáríkis í myntsamstarfi evruríkja hafa samstarfsríkin þvingað þetta smáríki, sem er ekki búið enn að jafna sig eftir styrjöld, til að taka þátt á sínum tíma til að kaupa grísk skuldabréf.

Mikið hefur verið reifað og rætt um hve ESB tekur vel á móti smáríkjum og hve vel þeim hefur vegnað innan þessa sambands. Hafa slíkir kúrsar ratað frá sellufundum Samfylkingarinnar alla leið inn í Háskóla Íslands og þar í stjórnmálafræðikúrsa og alþjóðasamstarf. Það er bara hið besta mál enda mikið rætt um samstarf háskóla, atvinnulífs og stjórnmála. En hefur eitthvað verið fjallað á þessum vettvangi um ákvarðanir af þessu tagi, þ.e. sem snúa að hinu raunverulega valdi og valdbeitingu í fjármálum? Nei, svo virðist ekki vera.

Nú bregður svo við að Kýpur er á barmi gjaldþrots vegna aðgerða Evrópusinna innan vébanda ríkisstjórnar þessarar eyju. Óneitanlega minnir þetta mann óþægilega á Icesave-málið svokallaða og forgöngu vinstrimanna í þeim óskapnaði.

Sorglegt er að sjá nú afdrif þessa fallega smáríkis innan ESB þar sem maður gladdist meðal íbúanna lengst uppi í fjöllum þar sem bros skein af hverju andliti.

Ætlunin er að skattleggja innistæður á Kýpur um allt að 9,9% umfram innistæður að fjárhæð 100.000 evrur svo hafa megi upp í tapið af grísku skuldabréfunum sem ríkinu var gert að kaupa og/eða gangast í ábyrgð fyrir langt umfram getu þessa smáríkis.

Hve oft þarf að segja evrusinnum á Íslandi slíkar sögur til að þeir átti sig á áhættunni og óvissunni sem í aðild að ESB felst? Sjálfsagt að ljúka viðræðum og leggja undir þjóðina til að fá úr þessu skorið í eitt skipti fyrir öll. Íslenska þjóðin mun örugglega hafna aðild að ESB og óttast greinarhöfundur því ekki úrslit slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu. Sporin hræða.

Nú er öldin önnur á Kýpur en á árum áður hér fyrir árið 2004.

Höfundur er MSc í fjármálum, MBA, BA í heimspeki og hagfræði.

Fletta í leitarniðurstöðum

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.