Jóna María Eiríksdóttir fæddist á Helgastöðum í Biskupstungum 9. janúar 1935. Hún lést á Landspítalanum í Reykjavík 16. júní 2013. Foreldrar hennar voru Eiríkur Jónsson, bóndi á Helgastöðum, f. 24. október 1894, d. 25. nóvember 1987 og Ólafía Guðmundsdóttir, húsfreyja á Helgastöðum, f. 9. september 1901, d. 25. nóvember 1983. Jóna María er önnur í röð fjögurra systkina en þau eru í aldursröð Guðný Erla, f. 1933, maki Jóhannes Guðmundsson, Gísli, f. 1937 og Svafa, f. 1943, maki Örn Guðmundsson. Árið 1971 gekk Jóna að eiga eiginmann sinn Þorstein Bjarnason frá Álfhólum í Vestur-Landeyjum, f. 7. maí 1926, d. 26. mars 1997. Foreldrar Þorsteins voru Bjarni Jónsson, bóndi í Álfhólum, f. 7. júní 1885, d. 23. desember 1928 og Pálína Margrét Þorsteinsdóttir, húsfreyja í Landeyjum, f. 7. maí 1893, d. 24. maí 1970. Dóttir Jónu Maríu úr fyrri sambúð er Hrönn Árnadóttir, f. 29. maí 1961, faðir hennar var Árni Guðmundsson frá Bolungarvík, d. 1997. Dætur Jónu Maríu og Þorsteins eru Hrafnhildur, f. 22. apríl 1972, maki Þór Þorsteinsson, f. 21. apríl 1969, dóttir þeirra er Saga, f. 7. nóvember 2006, og Heiðrún, f. 24. júlí 1974, maki Sigurður Bjarni Hafþórsson, f. 11. desember 1974, dætur þeirra eru: Birta María, f. 30. nóvember 2003 og Hekla Rún, f. 21. janúar 2010. Jóna María ólst upp á Helgastöðum í Biskupstungum ásamt systkinum sínum. Hún fluttist síðan til Reykjavíkur og vann þar við ýmis verslunar- og þjónustustörf, meðal annars í versluninni Hamborg. Árið 1967 flutti Jóna María til Hveragerðis og vann á Saumastofunni Magna og síðar Kaupfélaginu. Árið 1981 hóf Jóna María störf hjá Dvalarheimilinu Ás/Ásbyrgi og vann þar farsællega í 23 ár. Eftir starfslok tók hún ötulan þátt í Félagi eldri borgara í Hveragerði. Síðustu árin var sambýlismaður Jónu Maríu Guðmundur Daníelsson frá Ísafirði. Útför Jónu Maríu verður gerð frá Hveragerðiskirkju í dag, 29. júní 2013, og hefst athöfnin kl. 14.

Elsku fallega Jóna mín.

Það er hálf undarlegt að setjast niður og skrifa minningarorð um þig. Ég hélt að að það yrðu fleiri stundir sem við ættum eftir að eiga saman og þetta væri ekki tímabært. Við áttum eftir að hittast svo marg oft yfir te og fara saman í bíltúra á Selfoss eins og við gerðum svo oft, bara að kíkja aðeins í kaupfélagið og nýja Rúmfatalagerinn. Þú hefur verið hluti af lífi mínu svo lengi sem ég hef lifað og það er einmanalegt að hugsa til þess að þú sért ekki hér hjá okkur í dag. Mér finnst oft sem ég heyri í þér, heyri ennþá röddina þína og hlátur þinn og finnst skrítið að hugsa til þess að síðast þegar við kvöddumst að þá hafi það verið í síðasta skiptið. Ég er samt glöð yfir því að þegar við kvöddumst, þá föðmuðumst við eins og við gerðum vanalega og mér fannst eins og við myndum hittast fljótlega aftur.

Það er skrítið að keyra um göturnar í Hveragerði núna og hugsa til þess að þú sért farin. Mér finnst það eitthvað svo tómlegt og ég á von á að sjá þig á græna litla bílnum þínum á hverju götuhorni. Ég var að vinna í Álnavörubúðinni einn daginn og það var svo oft sem einhver kona labbaði inn sem mér fannst í fyrstu vera þú en það gat ekki verið og mikið var það sárt.

Það eru ekki margir eins og þú elsku Jóna, svona heil og sönn. Aldrei talaðir þú illa eða neikvætt um nokkra manneskju og sást alltaf það góða og fallega í fólki og bara lífinu yfir höfuð. Ef allir væru eins og þú væri heimurinn fallegri en hann er.

Ég var mikið hjá þér sem barn og á góðar minningar frá þeim tíma. Ósjaldan sat maður við eldhúsborðið hjá þér í Þelamörkinni og drakk mjólk og dýfði mjólkurkexi ofan í. Oft á tíðum gisti ég hjá ykkur og þá var nú fjör á bæ með frænkum mínum. Ein af mínum fyrstu minningum um þig er þegar ég bjó í Yrsufellinu í Reykjavík. Þá vorum við Heiðrún í einhverjum leik á túninu fyrir framan blokkina okkar og þú og mamma sátuð rétt þar hjá og sleiktuð sólina.

Mikið held ég að hún mamma eigi eftir að sakna þín Jóna mín. Þið voruð í svo miklu sambandi og hittust eða heyrðust á hverjum degi. En ég veit að þú verður við hlið hennar þegar hún er að vesenast í Bónus eða bókasafninu og eins í stofunni heima hjá mömmu þar sem þið sátuð svo oft og spjölluðuð og drukkuð te og kaffi.

Ég kom og kvaddi þig áður en þú fórst. Þú lást þarna svo falleg og hraustleg og það var bara eins og þú værir sofandi. Mér fannst eins og ég gæti bara ýtt aðeins við þér og sagt nafnið þitt og þá myndir þú vakna og spjalla við mig og koma svo bara heim. En ég gat það ekki og fylltist þá reiði yfir því hvað mér finnst þetta ósanngjarnt og ótímabært. Þú áttir að eiga mörg fleiri ár með okkur og því er þetta erfitt. Að einhverju leyti er ég bara ekki búin að átta mig alveg á þessu öllu.

En ég fylltist líka þakklæti yfir því að hafa fengið að hafa þekkt þig og fengið að hafa þig í mínu lífi í öll þessi ár. Þú ert sönnun þess góða í lífinu og ég veit að þú ferð núna á fallegasta staðinn í öllum heiminum og þar munu Steini, amma og afi, Rúna og margir fleiri sem þér þótti vænt um og þeim um þig taka á móti þér.

Elsku Jóna mín. Takk fyrir allt í lífinu og takk fyrir að vera þú, yndislega þú.

Þegar dimmir yfir öllu, engin dagrenning er nær,

og döpur hugsun eyðir von og trú,

vakna minningarnar um þig eins og stjarna björt og skær,

því ég veit að það er enginn eins og þú.

Eins og stjarna sem hrapaði um nótt,

þú lýstir leið en svo fórstu allt of fljótt,

en ég á minningar sem enginn getur tekið frá mér nú,

Því það er enginn alveg eins og þú.

(Magnús Eiríksson)

Elsku Hrafnhildur, Heiðrún, Hrönn og Guðmundur. Guð veri hjá ykkur og fjölskyldum ykkar og styrki ykkur í sorginni.

Berglind Eva Arnardóttir.