Píkublóm eftir Dagbjörtu Brynju
Píkublóm eftir Dagbjörtu Brynju
Listamaðurinn Dagbjört Brynja Harðardóttir opnar sýninguna Píkublóm í sal Myndlistarfélagsins í Listagilinu á Akureyri í dag klukkan 14-19.

Listamaðurinn Dagbjört Brynja Harðardóttir opnar sýninguna Píkublóm í sal Myndlistarfélagsins í Listagilinu á Akureyri í dag klukkan 14-19. Brynja sýnir málverk sem eru unnin með olíu og akrýl ásamt innsetningu á píkublómum úr hekluðum pottaleppum og dúllum. „Sýningin mín er lofgjörð til kvenleikans, lífs og vaxtar en er um leið ádeila á öfgafull fegurðarviðmið sem m.a. birtast í aukinni tíðni á lýtalækningum á píkum,“ segir Brynja en hún vill með sýningunni m.a. skapa umræðu um öfgafull fegurðarviðmið sem geta bjagað sjálfsmynd og líðan kvenna.

Brynja er búsett á Akureyri og starfar sem framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands. Hún lauk fornámi við Myndlistarskólann á Akureyri árið 2001 og myndlistarnámi við Örebro Konstskola í Svíþjóð árið 2007. Brynja er einnig uppeldis- og menntunarfræðingur, kennari og lýðheilsufræðingur. Hún hefur unnið að píkublómum í ýmsum myndum frá árinu 2006.