Ólafur Kristjánsson
Ólafur Kristjánsson
Breiðablik mun þurfa að leika seinni leik sinn við Aktobe frá Kasakstan, í þriðju umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu, á Laugardalsvelli í stað Kópavogsvallar.

Breiðablik mun þurfa að leika seinni leik sinn við Aktobe frá Kasakstan, í þriðju umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu, á Laugardalsvelli í stað Kópavogsvallar. Blikar hafa leikið gegn Santa Coloma frá Andorra og Sturm Graz frá Austurríki á fyrri stigum keppninnar en aðrar reglur gilda í þriðju umferðinni.

„Reglur UEFA kveða á um það að leikir í 3. umferð verði að fara fram á velli sem fellur í þriðja flokk svokallaðan, og það sem vantar upp á hér á Kópavogsvelli er flóðlýsing,“ sagði Atli Sigurðarson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Breiðabliks, við Morgunblaðið í gær.

„Það er hægt að breyta þessu ef liðin komast að samkomulagi um annað. Við reyndum að fá þá [Aktobe-menn] til að koma í Kópavoginn enda höfum við spilað hér tvo leiki í Evrópukeppninni í sumar og gengið vel að halda utan um það,“ sagði Atli. Tilraunir Blika til að ná samkomulagi við forráðamenn Aktobe báru hins vegar engan árangur.

„Nei, mér skilst að allt svona sé erfitt þegar maður er að eiga við lið frá Kasakstan,“ sagði Atli, sem er vonsvikinn yfir niðurstöðunni.

„Það er alveg ljóst að maður hefði viljað leika hér á heimavelli, það hefði verið best fyrir okkur. En þetta eru bara reglur sem við verðum að fara eftir.“

Breiðablik fær dulbúinn undirbúning fyrir leikinn því liðið leikur á Laugardalsvelli á morgun og mætir þá Fram í undanúrslitum bikarkeppninnar. sindris@mbl.is