Reynd Eygló Ósk er aðeins 18 ára gömul en hefur þegar keppt tvisvar á HM og einu sinni á ÓL.
Reynd Eygló Ósk er aðeins 18 ára gömul en hefur þegar keppt tvisvar á HM og einu sinni á ÓL. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sund Sindri Sverrisson sindris@mbl.is „Þetta er dálítið svekkjandi. Sautjánda sæti á heimsmeistaramóti er samt ekkert slæmt.

Sund

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

„Þetta er dálítið svekkjandi. Sautjánda sæti á heimsmeistaramóti er samt ekkert slæmt. Ég ætlaði samt auðvitað að komast í undanúrslitin og það eru vonbrigði að ná því ekki,“ sagði Eygló Ósk Gústafsdóttir, sundkona úr Ægi, sem varð í 17. sæti í sinni bestu grein, 200 metra baksundi, á heimsmeistaramótinu í Barcelona í gær.

Eygló var grátlega nærri því að feta í fótspor Hrafnhildar Lúthersdóttur frá deginum áður með því að komast í undanúrslitin en þangað komast 16 bestu. Hrafnhildur hafði orðið fyrst íslenskra kvenna til að komast í undanúrslit á heimsmeistaramóti í 50 metra laug.

Eygló synti á 2:12,32 mínútum og var aðeins 18/100 úr sekúndu á eftir næsta keppanda. Íslandsmet Eyglóar í greininni er 2:10,38 mínútur, tæplega tveimur sekúndum betri tími en hún náði í gær, og ljóst að þessi 18 ára sunddrottning ætlaði sér að gera betur.

„Rosalega ákveðin eftir þetta mót“

„Mér leið vel í vatninu en ég held að ég hafi einfaldlega ekki byrjað nægilega hratt. Ég náði því ekki að keyra upp hraðann á seinni 100 metrunum eins og ég ætlaði mér. Þetta er bara eitthvað sem ég læri af,“ sagði Eygló. Aðspurð hvort það hafi verið eitthvað sérstakt sem truflaði hana í sundinu að þessu sinni svaraði Eygló af hreinskilni:

„Það var kannski ekkert sérstakt sem klikkaði hjá mér en ég hefði mátt vera duglegri að æfa síðasta vetur. Það er eitthvað sem ég tek á í vetur og ég byrja á fullu í september. Ég er rosalega ákveðin eftir þetta mót,“ sagði Eygló.

Það var bandaríski heimsmethafinn Missy Franklin sem kom fyrst í mark í riðli Eyglóar, og í samanlagðri keppni allra undanriðla, en hún kom í mark á 2:07,57 mínútum. Heimsmetið hennar er 2:04,06 mínútur sem hún setti á Ólympíuleikunum í London í fyrra en Franklin er jafnaldra Eyglóar og voru þær yngstar í hópi 17 efstu.

„Höfum öll staðið okkur vel“

Eygló hefur nú lokið keppni á sínu öðru heimsmeistaramóti. Hún varð í 33. sæti í 200 metra fjórsundi, 20. sæti í 100 metra baksundi, og í 34. sæti í 200 metra skriðsundi.

„Þetta er búið að vera mjög gaman. Það er gaman að vera hluti af þessum hópi og ekkert smágaman að fylgjast með þessu móti. Það er búið að ganga mjög vel hérna hjá okkur öllum, við höfum öll staðið okkur vel,“ sagði Eygló sem var einnig meðal fulltrúa Íslands á Ólympíuleikunum í London og því óhætt að segja að hún hafi öðlast mikla reynslu þrátt fyrir ungan aldur.

„Ætli það megi ekki segja það en það tekur sinn tíma að venjast svona mótum,“ sagði Eygló sem tekur sér nú stutt sumarfrí áður en æfingar hefjast að nýju en næsta stórmót er Evrópumeistaramótið í 25 metra laug sem fram fer í desember.

Íslenska landsliðið lýkur keppni á HM í Barcelona um helgina. Ingibjörg Kristín Jónsdóttir, sem var illa svikin um tækifæri til að keppa í undanúrslitum í 50 metra baksundi, keppir í 50 metra skriðsundi í dag. Ingibjörg fékk sem kunnugt er ekki að keppa í umsundi eftir að hafa orðið jöfn finnskum keppanda í 17.-18. sæti heldur var Finnanum úthlutað sætinu. Ingibjörg setti glæsilegt Íslandsmet í baksundinu en Íslandsmetið í 50 metra skriðsundi er í eigu Söruh Blake Bateman og er 25,24 sekúndur.

Hrafnhildur steig stórt skref fyrir íslenskar sundkonur í 200 metra bringusundinu, með því að komast fyrst þeirra í undanúrslit. Hún keppir í 50 metra bringusundi í dag. Anton Sveinn McKee keppir svo í 400 metra fjórsundi á morgun.

Eygló Ósk
» Eygló varð í 17. sæti í 200 metra baksundi á HM í Barcelona, einu sæti frá undanúrslitunum.
» Eygló varð í 33. sæti í 200 metra fjórsundi, 20. sæti í 100 metra baksundi, og í 34. sæti í 200 metra skriðsundi.
» Eygló sagðist við Morgunblaðið þurfa að æfa betur í vetur en hún gerði síðastliðinn vetur og er hún staðráðin í að gera það.