Ólafía Sólveig Jónatansdóttir fæddist á Bíldudal 29. mars 1940. Hún lést á heimili sínu á Eyrarbakka 11. júlí 2013.

Útför Ólafíu var gerð frá Eyrarbakkakirkju 26. júlí 2013.

Hún Olla móðursystir mín dó öllum að óvörum hinn 11. júlí. Lífgunartilraunir báru engan árangur. Hennar tími var líklega kominn, þó við hefðum viljað að hún hefði getað verið hér lengur meðal ástvinanna. Þess vegna gafst ekki tími til að kveðja hana. Ég kveð þig nú Olla mín og minnist allra ánægjustunda með þér í gegnum árin. Þegar ég var átta ára bjó ég hjá foreldrum þínum einn vetur og minnist alltaf hversu uppátækjasöm þú gast verið. Einu sinni fórstu á skólaball og varst búin að dressa þig upp, en settir svo skósvertu í ljósa hárið þitt. Þetta fannst þér mjög flott.

Þú varst bara 16 ára, þegar þú réðir þig sem kaupakonu í Brautarholti í Dölum. Bóndasonurinn á bænum, Brynjólfur Aðalsteinsson, varð strax hugfanginn af þessari ungu og fallegu stúlku. Það fór svo að þið urðuð hjón og eignuðust þrjú mannvænleg börn, Aðalstein, Agnar Bent og Önnu Díu. Olla hafði verið á húsmæðraskóla á Staðarfelli og hafði þar lært ýmislegt í matreiðslu og öðru er vék að heimilishaldi. Ég naut góðs af þessu, þegar ég réði mig sem kaupakonu og barnfóstru til þeirra hjóna til að passa Aðalstein litla, sem var þá á fyrsta ári. Hún kenndi mér að elda og baka allt mögulegt. Hún var góð vinkona mín og fræddi mig um ýmsa hluti. Seinna kom ég oft á sumrin í heimsókn og þar vantaði nú ekki gestrisnina. Stundum fengu ég og maðurinn minn líka að fara á hestbak. Það var alltaf jafngott að heimsækja þau.

En leiðir þeirra skildi og flutti Olla aftur til höfuðborgarinnar og bjó sér og börnum sínum notalegt heimili á Njálsgötunni. Soninn Sævar Óla eignaðist hún svo, er hún bjó þar. Það átti ekki fyrir henni að liggja að giftast barnsföðurnum, en hún eignaðist annan mann, Þóri Atla, sem stóð alltaf eins og klettur við hliðina á henni og reyndist líka börnunum sem besti faðir. Bjuggu þau lengi vel á Selfossi, en síðustu árin á Eyrarbakka í litlu húsi, sem þau hjónin tóku fyrst allt í gegn og létu síðan byggja nýja stofu við á mjög smekklegan hátt. Olla vildi alltaf hafa fallegt í kringum sig og ræktaði oft mikið af blómum.

En nú verða blómin bara að vera í kirkjugarðinum hjá henni. Ég votta eiginmanni, börnum og barnabörnum samúð. Ég mun geyma í minningunni fallegu myndina af henni í peysufötunum.

Þín frænka,

Harpa.

Ég fékk hugboð um að ég ætti að fylgja henni Ólafíu til grafar, eða Ollu eins og hún var kölluð, en hún var jarðsungin frá Eyrarbakkakirkju 26. júlí sl. og ég fór og mér leið betur á eftir. Ég varð svo heppin að kynnast henni er hún kom til sumarstarfa á Sýsló á Selfossi, fyrir þó nokkuð mörgum árum, við vorum líka nágrannar í Úthaganum, en við náðum vel saman í vinnunni, enda var hún yndisleg kona, hrein og bein, í kaffipásu náðum við að spjalla um allt mögulegt. Hún fann upp á því að draga mig með í Stokkseyrarsundlaug eftir vinnu en í þá daga var unnið til kl. 17 á daginn, hún hélt nú að við hefðum gott af því að synda, áður en við færum að elda kvöldmatinm. Olla var alltaf broshýr og glöð hún kvartaði aldrei a.m.k. ekki í mín eyru. Mér finnst leiðinlegt að hafa ekki heimsótt hana á Eyrarbakka, en svona er þetta bara, maður vann og vann og hugsaði um heimilið er komið var heim úr vinnu, þannig var það hjá okkur báðum. En síðustu ár varð hún fyrir tveimur áföllum, sem endaði á einn veg. Ég bið góðan Guð að styrkja Atla manninn hennar og börn og fjölskyldur.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Sólrún Guðjónsdóttir.