Sjaldan er jafnmikið að gera í Vínbúðum ÁTVR og í vikunni fyrir verslunarmannahelgi. Samkvæmt frétt á vefsíðu ÁTVR voru viðskiptavinir Vínbúðanna 125 þúsund talsins í þessari viku í fyrra en þá seldust um 713 þúsund lítrar af áfengi.

Sjaldan er jafnmikið að gera í Vínbúðum ÁTVR og í vikunni fyrir verslunarmannahelgi. Samkvæmt frétt á vefsíðu ÁTVR voru viðskiptavinir Vínbúðanna 125 þúsund talsins í þessari viku í fyrra en þá seldust um 713 þúsund lítrar af áfengi. Til samanburðar má nefna að 95 þúsund viðskiptavinir komu í Vínbúðirnar vikuna 16. – 21. júlí en þá seldust 430 þúsund lítrar af áfengi. Á föstudeginum fyrir verslunarmannahelgina í fyrra seldust í heildina 225 þúsund lítrar af áfengi.

„Reynslan sýnir að flestir viðskiptavinir koma í Vínbúðina föstudaginn fyrir verslunarmannahelgi sem er jafnan einn annasamasti dagur ársins. Flestir viðskiptavinir koma á milli kl. 16 og 18 eða allt að 7.000 viðskiptavinir á klukkustund,“ segir á vefsíðu ÁTVR.

Að sögn Sunnevu Ólafsdóttur, verslunarstjóra Vínbúðarinnar í Skeifunni, var mikið að gera þar í gær. Jafnframt kemur fram á vefsíðu ÁTVR að flest bendi til þess að fjöldi viðskiptavina fyrir verslunarmannahelgina í ár verði svipaður og í fyrra. Þá eru þeir viðskiptavinir sem vilja forðast langar biðraðir hvattir til að skipuleggja innkaupin vel og mæta tímanlega í verslanirnar. Vínbúðirnar verða opnar samkvæmt venju um verslunarmannahelgina. Þannig verður opið í búðunum í dag en lokað bæði á morgun og á mánudaginn.